Engin hætta á að lyfin gleymist

Það er af sem áður var að lyfin í apótekinu séu afgreidd í pilluglösum og flöskum. Nú er hæg að fá lyfin í lyfjarúllu, þar sem skammtur hvers dags er útbúinn og merktur með dagsetningu og tímasetningu, svo fólk viti uppá hár hvenær það á að taka lyfjaskammtinn. Þetta vita að minnsta kosti 10.000 einstaklingar sem fá lyfin sín skömmtuð og jafnvel heimsend úr apótekinu, en þrjú apótek bjóða uppá það sem kallað er vélskömmtun á lyfjum og heimsendingu. Þetta eru Lyfjaver sem þjónustar um 5000 manns, Lyfja sem er með um 3000 manns og Lyf og heilsa, með rúmlega 2000 manns.

Margtékkað hvort rétt er skammtað

Það eru róbótar sem sækja lyfin í hillurnar. Þessir eru hjá Lyfjaveri

Það eru róbótar sem sækja lyfin í hillurnar. Þessir eru hjá Lyfjaveri

„Við leggjum mikið uppúr örygginu“, segir Aðalsteinn Ingvason framkvæmdastjóri hjá Lyfjaveri. „Það er margtékkað að rétt lyf fari á réttan stað og að endingu fer hver einasti lyfjaskammtur í gegnum rafrænt myndeftirlit og allir vinnuferlar skömmtunar eru undir vökulu eftirliti lyfjafræðinga.“. Aðalsteinn segir að fóki finnist þetta fyrirkomulag einfalt, þægilegt og öruggt. Fólk ýmist komi í apótekið eða hringi, en það þurfi að sjálfsögðu að vera með lyfseðil frá lækni. Að jafnaði taki síðan 2-3 daga að koma skömmtuninni í gang. Lyfjaver sé einnig mikið í beinu sambandi við lækna, sem láti vita ef breyta þarf lyfjaskammti. Það sé svo auðvitað lykilatriði fyrir þann sem fær lyfin að að taka skammtana á réttum degi og réttum tíma.

Mikil þægindi

Hjá Lyfju virkar þetta á svipaðan hátt og einnig hjá Lyf og heilsu. Lyfin eru pökkuð í vikuskammta, tveggja vikna skammta eða mánaðarskammta. Það er algengast hjá Lyfjaveri að menn séu í skömmtun fjórar vikur í senn. Ýmist sækja menn lyfjapokana í apótekið, eða fá þá senda heim. Þess er ekki krafist að menn taki ákveðinn fjölda lyfja til að fá lyfjaskömmtun. „Fólk sem tekur eina tegund lyfja getur átt erfitt með að muna eftir að taka hana, hvað þá þeir sem eru á mörgum lyfjum“, segir Aðalsteinn. Sumum finnst líka þægilegt að fá vítamínin sín skömmtuð með þessum hætti og jafnvel lýsistöflurnar. Þá getur það verið hagræði á stuttum ferðalögum að geta tekið með sér nokkra lyfjaskammta, í stað þess að rogast með heilt ferðaapótek með sér.

Kynnast nýrri manneskju

Þórbergur Egilsson lyfjafræðingur hjá Lyfju segir lyfjaskömmtunina geta stuðlað að því að eldra fólk geti búið lengur heima. Hann segir að margt eldra fólk kveðji við afgreiðsluborðið með fullan poka af lyfjum. Það gangi í fæstum tilvikum vel og fólkið verði jafnvel verra á lyfjunum en án þeirra. Sumir eigi fullan lyfjaskáp heima og séu að grautast í þessu sjálfir. „Ég þekki dæmi um að uppkomin börn hafi komið með öldruðum foreldrum sínum og beðið um skömmtun. Þá hefur komist regla á lyfjaskömmtunina og börnin hafa kynnst alveg nýrri manneskju“, segir Þórbergur.

Lyfjaskömmtun niðurgreidd í Danmörku

Svona líta vélarnar út sem skammta lyfin

Svona líta vélarnar út sem skammta lyfin

Ég hef verið að reyna að selja íslenskum heilbrigðisyfirvöldum þessa hugmynd, bætir hann við. „Í Danmörku er lyfjaskömmtunin niðugreidd eftir beiðni frá lækni. Það gildir fyrir þá sem taka mörg lyf og þurfa stuðning við inntökuna“. Hann segir að meðferðarheldni verði allt önnur við þetta og unnt sé að bæta heilsu fjölmargra. Þá sparist einnig miklir peningar við skömmtunina, þar sem hún eykur stórkostlega nýtingu á lyfjum.

Geta fengið ársskammt í stað þriggja mánaða skammts

Það er fólk á ýmsum aldri sem fær lyfjaskömmtun og Arndís María Einarsdóttir lyfjafræðingur hjá SA-lyfjaskömmtun sem skammtar fyrir Lyf og heilsu og Apótekarann, segir að þetta sé til dæmis þægilegt fyrir foreldra með börn sem þurfi ofvirknilyf. Ef þeir fái lyfið skammtað, gildi skömmtunin í eitt ár, en fái menn lyfið í apóteki á hefðbundinn hátt, sé einungis hægt að fá þrjá mánuði í senn.   „Sumir eru með eitt lyf í skömmtun og aðrir með 10“, segir hún. „Þetta er mjög þægilegt fyrir eldra fólk sem þarf kannski að taka sex tegundir lyfja fjórum sinnum á dag“. Arndís María segir SA-lyfjaskömmtun leggja mikið uppúr öryggi og góðri þjónustu. Yfirleitt geti fólk fengið lyfjaskammtinn sendan heim samdægurs, eða daginn eftir að haft er samband.

Það kostar 600 krónur í Lyfjaveri að fá lyfjaskömmtun í mánuð.

Heimsendingin frá Lyfjaveri kostar svo 980 krónur en lyfin eru sent hvert á land sem er.

Mánaðarlyfjaskammtur frá Lyfju kostar 1500 krónur og heimsending fyrir lífeyrisþega er ókeypis.

Heimsending fyrir aðra er 795 krónur og ókeypis í öll apótek Lyfju hvar sem er á landinu, en öll apóekin taka við beiðnum um lyfjaskömmtun.

Skömmtunargjald hjá SA – lyfjaskömmtun er breytilegt eftir fjölda lyfja, en er að hámarki 1400kr fyrir mánaðarskammt.

Þeir senda lyfin ókeypis til viðskiptavina sinna, hvert á land sem er.

 

 

Ritstjórn febrúar 18, 2016 11:21