Í ár minnast menn þess á Spáni að fimmtíu ár eru síðan einræðisherrann Francisco Franco lést. Hægri menn þar í landi eru alls ekki sáttir við að þessir tímar séu rifjaðir upp og voðaverk falangistastjórnarinnar dregin fram. Ef við getum ekki lært af sögunni erum við dæmd til að endurtaka hana eða orð í þá vegu eru eignuð heimspekingnum George Santyana. En hvort hann eða einhver annar hefur mælt þessi vísdómsorð hafa þau aftur og aftur sannað gildi sitt.
Það er ekkert nýtt að mannkynið reyni að sópa skítnum undir mottuna, gleyma því hversu grimmir, gallaðir, leiðitamir og dómgreindarlausir forfeður okkar voru. Margir ungir Þjóðverjar hafa til að mynda kosið að afneita helförinni fremur en að horfast í augu við það að afar þeirra og langafar hafi tekið fullan þátt í voðaverkum nasista. Á Írlandi eru menn rasandi yfir nýrri sjónvarpsþáttaseríu, Say Nothing. Þar er sögð saga systranna Dolours og Marian Price sem bjuggu í Belfast þegar írsku vandamálin eða „The Troubles“ stóðu yfir. Báðar voru fylgjandi írska lýðveldishernum og tóku fullan þátt í þeim hryðjuverkum sem hann skipulagði. Báðar höfðu upplifað og séð ýmislegt tengt kúgun mótmælenda í krafti hervalds og með stuðningi breskra yfirvalda. Eins og alltaf voru hér mörg grá svæði innan um svört og hvít.
Þótt nú séu liðin næstum þrjátíu ár frá því friðarviðræður hófust og vopnahléi komið á tveimur árum síðar eru sárin enn ógróin á írskri þjóðarsál. Þeir eru margir sem telja að aldrei hafi tekist að gera upp að fullu þau glæpaverk sem framin voru á báða bóga né heldur að sætta að fullu stríðandi fylkingar. Hér sé því um að ræða pott sem stilltur er á lágan hita en fyrr eða síðar nái að suðan að koma upp og jafnvel að sjóða upp úr. Þetta er ekkert ólíkt því sem Suður-Afríkumenn hafa talað um. Að þeirra mati gerði sannleiksnefndin ekki meira en að klóra yfirborð þeirra skelfinga sem leiddar höfðu verið yfir þeldökka í landinu og brýn þörf væri fyrir meiri, dýpri og skýrari umræður og uppgjör þar sem hinir seku væru látnir sæta ábyrgð fyrir gerðir sínar. Nú hillir vonandi undir vopnahlé á Gaza en hvað bíður eftirlifenda þar og borgara í Ísrael sem einhvern tíma munu þurfa að horfast í augu við aðgerðir stjórnar Netanyahu og gera upp þá glæpi sem hún hefur framið gegn Palestínumönnum?
Margt óuppgert á Íslandi líka
Við Íslendingar erum heppnir. Við höfum ekki barist blóðugum bardögum, hvorki gagnvart hvorum öðrum né öðrum þjóðum frá því á miðöldum en það þýðir ekki að þjóðarsálin sé hrein eða ekki þurfi neins uppgjörs við. Bókin, Himintungl yfir heimsins ystu brún, fjallar um Baskavígin svokölluðu. Versta og ógeðslegasta hryðjuverk Íslandssögunnar. Lengi var aldrei um þetta rætt og Ari í Ögri jafnvel hylltur sem hetja fyrir framgang sinn gagnvart illa stöddum eftirlifendum sjóslyss. Ógeðslegt, já sannarlega og hið sama má segja um margt annað sem er nær okkur í tíma.
Hvað með börnin sem vistuð voru á vistheimilum á vegum íslenska ríkisins og hafa vitnað um það ofbeldi sem þau máttu þola þar? Sum hafa hlotið viðurkenningu á að á þeim hafi verið brotið og einhvers konar bætur fyrir. En margt er þarna órætt og óuppgert. Hið sama gildir um framkomu og framgang kerfisins gagnvart fötluðum og stærsta réttarfarsslys Íslandssögunnar er enn ekki til lykta leitt. Fyrir jólin kom út bók, Leitin að Geirfinni, eftir Sigurð Björgvin Sigurðsson. Þar er varpað fram algjörlega nýrri kenningu um hvað hafi komið fyrir Geirfinn og hvers vegna hann hafi horfið. Telft er fram vitnisburði sem ekki var tekið mark á þegar rannsókn málsins hófst og bent á margs konar aðstæður er kynnu að hafa skapað ástæður til að skaða Geirfinn. Þar er um að ræða vísbendingar sem að mati bókarhöfundar var ekki fylgt eftir fyrir handvömm lögreglu eða vegna hagsmunatengsla.
Hvernig sem því er varið þá er nauðsynlegt að gera upp þetta gamla sakamál, rétt eins og okkur er nauðsynlegt að finna leið til að veita þeim saklausu börnum sem þjáðust á vistheimilum ríkisins einhver konar bætur. Við þurfum að horfast í augu við að íslenskt félagsmálakerfi brást gersamlega skjólstæðingum sínum og dómskerfiði sannaði í Geirfinnsmálum að þar er sannarlega ekki óbrigult. Þess vegna er mikilvægt að rannsaka hvarf Geirfinns ofan í kjölinn.
Hvað gerðist á Súðavík?
Þann 16. janúar síðastliðinn voru liðin þrjátíu ár frá snjóflóðunum í Súðavík. Allt frá þeim degi hafa margir aðstandendur þeirra sem létust kallað eftir rannsókn á aðdraganda hamfaranna og hvort yfirvöld hafi brugðist rétt við bæði fyrir og eftir flóðin. Ýmist hefur þetta fólk notið stuðnings eða verið sakað um árásir gegn saklausu fólki sem hafi verið að gera sitt besta og ósanngirni því enginn geti jú reiknað út náttúruna eða spáð fyrir um hvernig hún muni hegða sér. En er það svo? Nú hefur verið skipuð rannsóknarnefnd til að fara ofan í kjölinn á þessum málum og það er brýnt. Ekki vegna þess að við viljum leiða fólk, lífs eða liðið á höggstokkinn heldur til að átta okkur á hvernig og hvar megi gera betur.
Sagan kennir okkur nefnilega að rétthöld í Nürnberg, bæling sannleikans, þögn, sannleiksnefndir, vistheimilanefndir eða hvað annað sem menn kjósa til að skapa sátt um glæpi, voðaverk og hrylling ná ekki tilgangi sínum nema sannleikurinn sé leiddur í ljós í eitt skipti fyrir öll og menn horfist í augu við hann af hugrekki og sjálfsgagnrýni. Síðan þarf að taka til við enduruppbyggingu, læra og skapa traust að nýju. Þótt hér séu tekin aðskiljanleg og ólík dæmi er kjarninn þó sá að það þarf ævinlega að skoða erfið mál ofan í kjölinn, leiða sannleikann í ljós og þeirri visku sem fæst þegar litið er í baksýnisspegilinn.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.