Er kominn tími til að hætta að keyra?

Það er mjög einstaklingsbundið hvenær fólk hættir að keyra. Á Heilsuveru er að finna forvitnilega grein um þetta efni. Þar segir að lendi fólk í þeim aðstæðum sem hér er lýst ættu þeir að huga að því að stíga skrefið og hætta að keyra.

 • Þú lendir oft í því að vera næstum því búinn að keyra á.
 • Óvenju margar beyglur og rispur eru á bílnum eða á bílskúrshurð.
 • Þú átt erfitt með að meta bil á milli bíla á gatnamótum og í umferðinni.
 • Aðrir bílstjórar flauta oft á þig við aksturinn.
 • Þú villist í umferðinni.
 • Þú átt erfitt með að sjá vegbrúnina þegar horft er beint fram.
 • Viðbragðstími er hægari en áður.
 • Þú átti í erfiðleikum með að færa fótinn af bensíngjöfinni á bremsuna eða ruglast á fótstigum.
 • Þú átt erfitt með að einbeita þér við aksturinn eða fipast auðveldlega.
 • Þú átt erfitt með að snúa höfðinu þegar bakkað er.
 • Þú átt erfitt með að fylgjast með umferðinni á samhliða og aðliggjandi akreinum.
 • Þú færð ítrekaðar viðvaranir frá lögreglu undanfarin tvö ár.
 • Aðstandendur lýsa áhyggjum af akstri þínum.
 • Foreldrar vilja ekki að þú keyrir barnabörnin.

En hvað tekur við ef við þurfum að hætta að keyra? Þá þarf að huga að því hvernig fólk ætlar að komast leiðar sinnar og í greininni á Heilsuveru er bent á nokkra kosti í stöðunni:

 • Strætó. Þeir sem hafa færni til að nota strætó geta gert það. Fólk 67 ára og eldri fær verulegan afslátt í almenningssamgöngur.
 • Þeir sem eru 67 ára og eldri geta sótt um akstursþjónustu til félagsþjónustu síns sveitarfélags. Þessa þjónustu þarf að panta með ákveðnum fyrirvara sem verið getur mismunandi eftir sveitarfélögum. Í flestum tilvikum greiðir fólk lágt gjald fyrir þessa þjónustu.
 • Leigubílar. Þegar fólk hættir að reka bíl sparast miklir fjármunir. Hægt er að sjá hvað rekstur bíls kostar á heimasíðu Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Fyrir þær upphæðir má fara allnokkrar ferðir í leigubíl.
Ritstjórn október 7, 2021 07:00