Óhrædd við breytingar á miðjum aldri

 

Edda var komin á miðjan aldur þegar hún stofnaði eigið fyrirtæki.

Edda V. Sigurðardóttir flutti til Massachusetts í Bandaríkjunum 15. júní 1980 með þáverandi eiginmanni sínum og tveimur börnum þeirra fjögurra og 7 ára. Árið 1983 fæddist yngsta barnið þeirra. Edda hafði stundað nám í Myndlista- og handíðaskólanum, forvera Listaháskólans, þar sem hún nam grafíska hönnun eftir að móðurbróðir hennar, Kjartan Guðjónsson listmálari, ráðlagði henni að læra fag sem hún gæti framfleytt sér á síðar á ævinni og hafa myndlistina sem áhugamál. Það ráð kom sér vel þegar hún stóð uppi ein eftir skilnað.

Tölvutæknin ruddist fram

Edda ákvað að vera heimavinnandi með börnin fyrstu árin úti í Bandaríkjunum en þegar stefndi í að tölvan yrði aðalleikarinn í grafískri hönnun ákvað hún að nauðsynlegt væri fyrir hana að taka þátt og keypti sér tölvu og skjá. Edda hafði verið að vinna að grafískri hönnun í lausamennsku fyrir ýmis fyrirtæki í Boston á meðan börnin voru í skóla og var með aðstöðu heima. Hún tileinkaði sér þessa nýju tækni hratt og örugglega og var fljótlega komin upp á lagið. Hún hafði tekið að sér verkefni, aðallega fyrir bókaútgáfur og fyrr en varði bauðst henni starf hjá Houghton Mifflin bókaútgáfunni þar sem hún starfaði fyrst í hönnunarteymi en var fljótlega orðin hönnunarstjóri. Það þýddi að hún þrurfti að ferðast víða til að kynna tillögur fyrir kennurum og var mikið á ferðinni um öll Bandaríkin. Eftir þá vinnu segist hún vera viss um að grunnskólakennarar séu ein mikilvægasta starfsstétt hvers samfélags.

Tók skrefið fimmtug

Þegar Edda var fimmtug ákvað hún að fara í mastersnám í grafískri hönnun sem var eðlilegt framhald hjá henni. Á þessum tíma var Edda komin mest í stjórnun og fann að hún saknaði hönnunarinnar sjálfrar. Hún ákvað þá að gera það sem hún hefur gert svo oft, þ.e. að stökkva út í ólgusjó í þeirri vissu að eitthvað meira spennandi biði sín. Hún sagði upp föstu starfi hjá bókaútgáfunni sem hún var þá að vinna fyrir, leigði sér aðstöðu í Boston þar sem hún var ein með tölvuna sína og skissubækurnar og naut þess mjög.

Fer nú með Ísland með sér út

Í Brautarholti á Kjalarnesi.

Þegar hið örlagaríka ár 2007 rann upp var móðir Eddu orðin öldruð og farin að tapa sér nokkuð sem var aðalástæðan fyrir því að enn og aftur tók Edda stökkið og nú heim til Íslands. Hún átti góðar stundir með móður sinni þar til hún lést. Edda kom til Íslands með gífurlega reynslu og fannst hún hlyti að finna vinnu við hæfi en raunin var að ekki var sjálfsagt að 57 ára gömul kona fengi vinnu við hæfi þrátt fyrir mikla reynslu. Edda kom til landsins með allt sitt hafurtask í ágúst 2007. Nú er sléttur áratugur liðinn og hún er á förum í annað sinn. Hún segist samt hafa verið svo heppin að komast í samband við Áslaugu Pálsdóttur sem sá í Eddu hæfileika og var tilbúin að stofna með henni hönnunarfyrirtæki sem þær og gerðu og Port hönnun ehf. varð til. Edda hefur rekið það fyrirtæki í tæpan áratug, allt þar til nú og nú fer hún með Port hönnun út með sér því nokkrir af viðskiptavinum hennar vilja gjarnan að hún sjái um hönnun þeirra áfram. Dæmi um slíkan viðskiptavin er Vatnajökulsþjóðgarður sem henni þykir mjög vænt um. Segja má að hún fari því með part af Íslandi með sér í því verkefni.

Myndlistin er hennar  golf

Edda er stolt og ánægð með þá ákvörðun að taka stökkið aftur, nú 67 ára gömul. Hún er líka ánægð með tímann sem hún varði hér heima því hún segist vera reynslunni ríkari og hafa kynnst ótrúlega skemmtilegu og áhugaverður fólki á þeirri vegferð. „Þetta var mjög lærdómsríkur tími en nú er mál að slá í klárinn á ný og hefja næsta tímabil ævinnar,“ segir Edda og tekur fram að það sé ekki golf. „Myndlistin er mitt golf,“ segir hún og hugsar fallega til frænda síns sem ráðlagði henni heilt þegar hún var að velja sér starfsvettvang. Edda er búin að koma sér fyrir í vestur hluta Massachusett fylkis þar sem dóttir hennar býr og ætlar að láta drauminn sinn rætast þar, því nú er hún búin að finna vel þekkt grafíkfélag nálægt nýja heimilinu sínu þar sem hún er komin í samfélag sem verður ígildi golfíþróttarinnar sem svo margir jafnaldrar hennar hafa fallið fyrir.

Flutt á ný til Bandaríkjanna

Nú segir henni enginn fyrir verkum

Edda er búin að vinna með viðskiptavinum í áratugi þar sem hún hefur skilgreint og komið á framfæri áherslum sem til þarf svo að skilaboð þeirra verði skýr og afdráttarlaus. Þá er mikilvægt að kunna að hlusta og skilja þarfirnar. Nú er hún aftur á móti sinn eigin herra. „Sem myndlistamaður er mikilvægt að ráða hvernig ég ætla að meðhöndla þennan auða flöt sem er fyrir framan mig núna,” segir Edda sem er búin að koma sér fyrir á verulega skemmtilegum stað í tilverunni. Hún hefur kjark til að taka erfiðar ákvarðanir og kúvenda lífi sínu reglulega en tekur fram að það henti öruggega ekki öllum.

Börn Eddu búsett í Bandaríkjunum

Börnin þrjú hafa komið sér fyrir og skapað sína eigin framtíð í þremur mismunandi fylkjum í Bandaríkjunum. Börn Eddu, Tjörvi og Ylfa, námu læknisfræði og yngsti sonurinn Sölvi Steinn er listamaður og bóndi. Sennilega mun ekkert þeirra flytja til Íslands en nú er Edda komin mun nær þeim og barnabörnin orðin sex að tölu. Edda gætti þess vel að viðhalda íslenskunni hjá börnunum sínum og þau tala öll móðurmálið ágætlega og halda áfram með sín eigin börn.  Edda viðurkennir að oft hafi verið erfitt að krefjast þess að krakkarnir töluðu íslensku í uppvextinum “Ég var viss um að ég væri að gefa þeim mikilvæga gjöf með því að krefjast þess að þau tileinkuðu sér íslenskuna og í dag eru þau þakklát fyrir það,“ segir Edda.

Stafrófið í blómum

Lesið með barnabörnunum í blómabókinni.

Eitt er það verkefni sem Edda hefur unnið og er henni sérlega kært það er bókin Stafrófið í íslenskum blómum sem hún gaf út á sumardaginn fyrsta árið 2016. „Ástæðan fyrir því að ég fór út í þessa bókahönnun er sú að ég vann um langt árabil í bókaútgáfu í Boston þar sem ég var yfir teymum við hönnun námsbóka fyrir grunnskólaaldur. Þessi bók er að hluta til sprottin af þeirri þekkingu og einnig langaði mig til að vinna eigið verkefni sem minn hugur stóð til. Eftir að ég flutti til Íslands 2007 sótti ég mikið í að vera úti í náttúrunni, í göngum og ferðalögum um landið mitt. Ég tók þá eftir að ég var mjög illa að mér í íslenskri flóru og þannig kom þessi hugmynd til að velja eitt blóm með upphafsstaf bókstafa stafrófsins. Ásamt því valdi ég texta sem átti við, vísur, þulur og kvæði. Þar sem ég fann ekki viðeigandi skáldskap kom ég að smá fræðslumolum á þess þó að vera of kennslubókaleg,“ segir Edda að lokum.  Fyrir þá sem kynnu að hafa áhuga á að kynna sér bókina nánar þá er hér að finna fésbókarsíðu hennar https://www.facebook.com/blomastafrof/

Ritstjórn september 1, 2017 11:54