Erfiðustu verkefni lífsins

Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, hefur tekist á við erfiðustu verkefni lífsins undanfarið ár. Gunna konan hans virta og dáða lést úr krabbameini á gamlársdag skömmu eftir að hann hafði sjálfur greinst með krabbamein og farið í uppskurð. Gunna lést en Gísli er nú laus við krabbameinið og á fullu í endurhæfingu. Verkefnin hafa verið mörg. Þetta hefur ekki verið auðveldur tími.

Gísli og Gunna á góðri stundu. Mynd úr einkasafni

“Það hefur gengið á ýmsu í einkalífinu síðasta hálfa árið,” segir Gísli Víkingsson. “Gunna konan mín [Guðrún Ögmundsdóttir, fv. alþingismaður og borgarfulltrúi með meiru] greindist með lungnakrabbamein í maí í fyrra. Þetta var frekar vond tegund af lungnakrabba og ekki skurðtæk þannig að hún var í stífum meðferðum með litlum hléum þar til hún lést á gamlársdag. Í lok nóvember uppgötvaðist fyrir algjöra tilviljun að ég var með blett á lunga sem læknirinn taldi rétt að skoða betur. Í ljós kom að þetta var lungnakrabbi. Þetta var önnur og betri tegund hjá mér og sennilega frekar nýtilkomið. Skorið var burt eitt blað af þremur í hægra lunga og síðan fóru fram ýmsar rannsóknir. Krabbamein fannst ekki annars staðar þannig að það má segja að ég sé krabbameinsfrír en verð undir miklu eftirliti næstu fimm árin,” segir Gísli.

Hann var heppinn að krabbameinið uppgötvaðist svo fljótt. Hann komst líka fljótlega í uppskurð sem er stórt inngrip þó minna sé en var fyrir nokkrum árum. “Það er ótrúlegt að læknarnir geti fjarlægt svona stóran hluta lungans með nokkrum götum í stað þess að opna brjóstkassann algjörlega,” segir hann. Uppskurðurinn fór fram á versta tíma, 4. desember, því Gunna var veik og henni fór versnandi. Gísli var á spítalanum í 10 daga, heldur lengur en ætlað var. Komið var fast að jólum þegar hann loksins komst heim.

Margt í móðu

Gísli og Gunna haustið 2019. Mynd úr einkasafni

“Tveim vikum síðar var Guðrún dáin. Þegar ég greindist var henni að byrja að hraka. Það tók mjög á,” segir Gísli. En einhvern veginn komst hann í gegnum þetta. Kannski með því að fresta eigin veikindum ef svo má segja og bægja þeim frá. Hann reyndi að vera sem mest hjá Gunnu og svaf á líknardeildinni nóttina sem hún dó en segir að margt sé eins og í móðu frá þessum tíma, það sé talið algengt í sambandi við sorg. “Ingibjörg dóttir mín var til dæmis að ræða við mig um daginn um símtalið þegar ég kynnti þeim andlátið. Það símtal mundi hún betur en ég, hún mundi öll smáatriðin,” segir hann.

Eftir andlát Gunnu tók við skipulagning á umfangsmikilli útför. en Gísli segir að það hafi verið stór og góður hópur sem kom og hjálpaði til. Þetta var auðvitað mikið áfall fyrir börnin okkar, Ögmund Viðar og Ingibjörgu Helgu en þau stóðu sig frábærlega í þessum erfiðu aðstæðum. Þarna kom sér líka vel að eiga stóra og góða og samheldna fjölskyldu, en þar að auki var hreint ótrúlegt að fylgjast með “her” kvennalistans” undirbúa erfidrykkjuna. Útförin fór fram frá Hallgrímskirkju 10. janúar.

Á Reykjalundi og í Ljósinu

Aðgerðin gekk vel og Gísli þurfti hvorki að fara í lyfjameðferð né geislameðferð í kjölfarið heldur bara í fjögurra vikna endurhæfingu á Reykjalundi í byrjun ársins. Hann var búinn með tvær vikur þegar covid brast á. Endurhæfingin varð því tvær vikur og tvær vikur með löngu covid-hléi. Hann er nú búinn með endurhæfinguna á Reykjalundi og stundar endurhæfingu í Ljósinu. Hann mætir líka í karlafræðsluhópinn í Ljósinu og sækir aðra þjónustu Ljóssins.

Gunna talaði líka um að fara í Ljósið. Hún nefndi Ljósið og Unicef sem tvö samtök til að styðja. Í Ljósinu var því stofnaður Gunnusjóður með peningum sem Kvennalistakonur og Exedra-hópurinn söfnuðu. Þessi sjóður rennur til þeirra sem hafa ekki efni á að nýta sér þá þjónustu sem kostar í Ljósinu eins og til dæmis að fara í nudd.

Þá er skemmtilegt að segja frá því að kvenkyns bruggmeistarar ætluðu að standa fyrir árlegri kvennabjórhátíð í mars og óskuðu eftir leyfi fjöskyldunnar til að tileinka Guðrúnu sérstakan bjór þetta árið.. En svo skall covid á. Bjórinn var bruggaður í brugghúsinu Bryggjunni sem fór á hausinn þannig að bjórinn lenti í allskonar hremmingum áður en konurnar náðu honum loks út úr þrotabúinu, settu hann á dósir og gáfu nafnið Gunna Ö. Þessi eina lögun af bjórnum Gunna Ö er víst um það bil að klárast.

Gegndarlaus ofveiði

En hver er þessi Gísli Víkingsson sem flestallir Íslendingar kannast við sem einn helsta hvalasérfræðing landsins? Hann er Reykvíkingur í húð og hár, alinn fyrst upp í Hlíðunum en fluttist svo til Svíþjóðar með fjölskyldunni þar sem faðir hans fór í framhaldsnám í læknisfræði. Heimkomin bjuggu þau sér heimili í Hvassaleiti og þar bjó Gísli fram á fullorðinsár. Hann lærði líffræði til BS-gráðu hér heima og fór svo til framhaldsnáms í dýrafræði í Danmörku. Þar kynntist hann Gunnu 1979 og bjuggu þau í Danmörku í sex ár. Heimkominn stoppaði hann örstutt í Blóðbankanum en hefur starfað hjá Hafró síðan.

“Þegar ég kom á Hafró 1986 var verið að auka mjög hvalarannsóknir. Jóhann Sigurjónsson, var þá eini hvalasérfræðingur landsins og var að ráðast í stórt hvalrannsóknaverkefni sem krafðist fleiri líffræðinga. Hann var síðar ráðinn forstjóri Hafró þannig að ég tók við að vera yfir hvalarannsóknunum,” útskýrir Gísli.

Hnýðingur er algengasta tegund höfrunga við Ísland. Mynd úr einkasafni

Spurður um hvað hafi komið mest á óvart í starfinu svarar Gísli “pólitíkin” kringum hvalina. Hvalavísindi séu raunvísindi sem eigi að vera hlutlaus og óháð en allt sem viðkemur hvalarannsóknum litist  mikið af pólitík. Ýmsar skýringar hafi verið nefndar á þessu, svo sem að hvalir séu dularfull og tilkomumikil dýr sem lítið sé vitað um, en þarna komi örugglega líka við sögu ljót saga hvalveiða sem rekja megi margar aldir aftur í tímann. Í lok 19. aldar opnuðust tæknilegir möguleikar að nýta reyðarhvalina og þá hófst gegndarlaus ofveiði á þeim, fyrst í Atlantshafi og svo í Kyrrahafi og Suðurhöfum þannig að fyllsta ástæða hafi verið til að taka hart á þessum málum á þeim tíma.

Stóru hvalirnir fóru illa

Um 80 tegundir af hvölum lifa í höfunum og sumar segir hann að séu í ágætis ástandi, hafi aldrei verið ofveiddar og þá sérstaklega smærri hvalirnir. “En stóru hvalirnir fóru illa á síðustu öld. Þeir hafa margir náð sér vel á strik núna, til dæmis þessir hvalir sem við höfum verið að veiða. Langreyður og hrefna eru einu tegundir sem Hafró hefur ráðlagt aflamagn á undanfarna áratugi. Ráðagjöf byggir á alþjóðlegum úttektum færustu vísndamanna á þessu sviði og við myndum aldrei mæla með veiðum á hvölum sem væru í hættu, eða ef vafi léki á sjálfbærni. En síðan er miklu fleira sem kemur inn, ekki bara líffræðin. Ef menn vilja veiða hvali þá er spurning um pólitískan vilja og efnahag. Svo er líka umræðan um hvort hvalveiðar hafi slæm áhrif á aðrar atvinnugreinar. Það sem ruglar líka umræðuna er að oft eru margir óháðir stofnar af hverri tegund. Langreyður, sem er næststærsta tegund í heimi, er til dæmis í góðu ástandi hér í Norður Atlantshafi en stofninn í Suðurhöfum hefur það ekki jafn gott,” segir Gísli.

Mikil andstaða er við hvalveiðar úti í heimi óháð því hvort hvalastofnar þoli veiðar eða ekki. Gísli telur eðlilegt að ferðaþjónustuaðilar hafi áhyggjur af því. En oft gleymist að fleiri en Íslendingar veiða hvali. Norðmenn veiða hrefnu, Færeyingar grindhval, Grænlendingar veiða langreyði, hrefnu og fleiri tegundir, frumbyggjar í Kanada veiða nokkrar hvalategundir og þá stunda frumbyggjar í Bandaríkjunum (Alaska)  og Rússar sömuleiðis hvalveiðar.

Vísindamaðurinn að störfum. Mynd úr einkasafni

“Þá erum við komin allan hringinn á norðurhveli. Allar þessar þjóðir stunda einhvers konar hvalveiðar en það er lítið talað um hvalveiðar Bandaríkjamanna og Rússa því það er meira umburðarlyndi gagnvart frumbyggjaveiðum. En líffræðilega skiptir það engu máli, það er bara stofnstærðin og hvað mikið er tekið úr sjónum sem skiptir þar máli,” segir hann. “En auðvitað skilur maður að taka þurfi fleira en líffræðina til greina.”

Fæddist í frönsku byltingunni

Hvalir eru merkilegar skepnur. Þeir voru taldir geta orðið 100-120 ára en með nýrri aðferð þar sem augnlinsan er efnagreind hafa menn upgötvað að sérstaklega sléttbakurinn sem Bandaríkjamenn veiða við Alaska, getur orðið yfir 200 ára. Greinst hefur sléttbakur sem var 230 ára eða nánast tvöfalt það sem áður var talið.

“Það er mjög hár aldur fyrir spendýr. Þá hefur sá hvalur fæðst í frönsku byltingunni. Þessi greiningaraðferð er ekki alveg viðurkennd af öllum en flestir hallast að því að þetta sé rétt og að hvalir geti orðið yfir 200 ára,” bendir hann á.

Á tímum loftslagsbreytinga er heldur ekki hægt að ræða um hvali án þess að spyrja um áhrifin á þá. Gísli skrifaði einmitt doktorsritgerð um breytingarnar á síðustu 30 árum og segir að með hlýnuninni hafi orðið töluvert miklar breytingar kringum Ísland. Mest áberandi sé kannski að hrefnan hafi minnkað mikið á grunnsævi og fært sig norðar í kaldari sjó. Hnúfubakurinn hafi tekið yfir en hann hafi verið sárasjaldgæfur við Ísland fyrir 30 árum.

Gísli er á batavegi. Mynd: Guðrún Helga Sigurðardóttir.

“Það má kannski segja að það sé ógnvekjandi að sjá svona miklar breytingar sem afleiðingar hlýnunar. En svo er það gott fyrir hvalaskoðunargeirann því hnúfubakinn er skemmtilegra að skoða en hrefnuna þegar hann stekkur upp úr sjónum. Þetta helst allt í hendur við víðtækari breytingar á vistkerfinu, til dæmis varðandi makríl og sandsíli, suðrænni tegundir koma inn í meiri mæli og kaldsjávartegundir eins og loðnan gefa eftir og fara,” segir hann.

Orkulítill og mæðinn

Ekki er hægt að ljúka viðtalinu við Gísla án þess að spyrja hann að lokum út í heilsuna og batann. Hann segist vera orkulítill ennþá og svolítið mæðinn. Hann veltir upp spurningunni um hvort þreytan og orkuleysið sé hluti af sorgarferlinu og öllu sem hefur gengið á undanfarið ár og það hljómar kannski ekki ósennilega þó varla sé það öll skýringin. Hann hefur góða og skilningsríka vinnuveitendur í Hafrannsóknastofnun og fær hjá þeim mikinn sveigjanleika, er aðeins byrjaður að fikra sig að því að vinna og þá á eigin forsendum eftir því sem hann vill og getur heiman frá sér. Allt er á réttri leið.

Gísli og Guðrún Ögmundsdóttir ásamt fjölskyldunni 2017. Birna Daníelsdóttir, eiginkona Ögmundar næst Guðrúnu vinstra megin á myndinni, þá kemur Jörundur Ögmundsson og svo dóttirin Ingibjörg Helga. Hægra megin við borðið er elsta barnabarnið Úlfur Ögmundsson, þá sonurinn Ögmundur Viðar Rúnarsson og loks Gísli lengst til hægri. Móeiður tveggja ára er ekki með á myndinni. Mynd úr einkasafni.

Ritstjórn júlí 3, 2020 07:28