,,Ólæknandi“ þýðir allt annað núna

Guðbjörg og Ásdís Rósa Baldursdóttir í göngu í Slóveníu 2022.

Guðbjörg Erla Andrésdóttir hefur verið að kljást við krabbamein frá því hún var 55 ára gömul. Brjóstið var þá tekið af henni en hún þurfti ekki lyf eða geisla því meinið hafði ekki dreift sér. Yngri systir hennar greindist hálfu ári áður en var ekki eins heppin en hún lést árið 2013. Guðbjörg segir að auðvitað hafi það verið reiðarslag þegar hún greindist aftur fyrir fjórum árum og henni var sagt að hún væri nú með fjórða stigs krabbamein en það þýðir ,,ólæknandi“. Síðan eru liðin fjögur ár og hún er byrjuð að safna kampavíni fyrir sjötugsafmælið sem veður í nóvember.

,,Heyrðu Guðbjörg, þú gleymdir að spyrja mig hvenær ég héldi að þú myndir deyja,“ kallaði læknirinn á eftir henni eftir einn viðtalstímann því í fyrstu tímunum hafði dauðinn verið henni ofarlega í huga. ,,Þessi læknir er kaldhæðinn eins og ég og  það hjálpar mér,“ segir Guðbjörg. ,,Ég er ekki hrædd við að deyja en ég er bara ekki tilbúin enn þá,“ bætir hún við. ,,Í þessum viðtalstíma var hjúkrunarfræðingur viðstaddur og setti upp spurnarsvip yfir þessum samræðum og þá sagði læknirinn: ,,Já, hún  er alltaf að spyrja mig hvenær hún muni deyja.“ Ég sagði þá við hann: ,,Ég ætla ekkert að fara að safna fullt af kampavíni fyrir afmælið mitt ef ég get svo ekki verið í partíinu sjálf,“ segir Guðbjörg og hlær.

Guðbjörg með börnum sínum, Guðmundi og Margréti.

,,Ég tók þá ákvörðun þegar ég var búin að jafna mig eftir sjokkið að reyna að vera eins bjartsýn og ég gæti þótt ég viti auðvitað að þessi sjúkdómur sé lífsógnandi. Það myndi hvorki hjálpa mér eða mínum nánustu að horfa á glasið hálftómt. Ég ákvað að reyna að taka þátt í öllu sem ég gæti og gera allt sem er skemmtilegt.“

Á við sálfræðitíma að  fara í göngutúra 

Guðbjörg segist finna gífurlegan mun á sér þegar hún kemst út að ganga og hreyfa sig. ,,Ef einhver biður mig að koma út að ganga, í golf eða á gönguskíði þá fer ég á meðan

Guðbjörg með Hrafnhildi Helgadóttur og Önnu Kristínu Einarsson á Úlfarsfelli.

ég get og ég get það vel enn þá, allt nema skíðin sem ég er hætt að stunda. Ég ætlaði til dæmis að ganga 69 sinnum á Úlfarsfell í fyrra af því að þá varð ég 69 ára en náði ekki nema 68 sinnum,“ segir hún og brosir. ,,Og nú er markið náttúrlega sett á 70 í ár. Ég geng yfirleitt með vinkonum en fer bara ein ef svo ber undir. Svo förum við alltaf á gott kaffihús þegar við komum niður sem er svona rúsína í pylsuendanum,“ segir Guðbjörg og brosir. ,,Ég læt aldrei happ úr hendi sleppa ef einhver stingur upp á skemmtilegheitum.“

Jákvætt viðhorf bjargar miklu

,Ég er mjög heppin að vera léttlynd að eðlisfari,“ segir Guðbjörg. ,,Það hjálpar alveg örugglega í þessum slag og eins líka að hafa allt þetta góða fólk í kringum mig. Ég er heppin bæði með vini og dásamlega ættingja.“ Hún er staðráðin í að láta sér líða eins vel og hægt er þrátt fyrir sjúkdóminn sem hún segir að sé aldeilis ekki það versta sem gæti verið að hrjá hana. ,,Í fjölskyldu okkar er CHEK2 krabbameinsgenið ættgengt en ég fékk að vita það þegar húðsjúkdómalæknirinn Kristín Þórisdóttir lagði til að ég og Margrét dóttir mín létum athuga hvort verið gæti að við bærum þetta gen. Þá fórum við öll systkinin í erfðarannsókn og í ljós kom að sumir báru genið en aðrir ekki. Margrét dóttir mín bar það og tók ákvörðun um þiggja ráð lækna og vera fyrri til svo hún þyrfti ekki í að lifa í stöðugum ótta en hún á tvo unga drengi.

Guðbjörg með flottu barnabörnunum sínum en þeir eru frá vinstri Grímur, Kári og Daníel Guðmundssynir og Gunnar Hrafn og Friðgeir Örn Baldurssynir.

Ég var heppin þegar brjóstið var tekið þegar ég greindist fyrst því þá hafði krabbameinið ekki dreift sér. Ég þurfti því ekki að fara í lyfjameðferð eða geisla þá heldur bara skurð. Svo líður og bíður þangað til fyrir fjórum árum að ég fer að finna fyrir sting í síðunni. Þá héldu læknar að ég væri með botnlangakast og ég var send í aðgerð. Ég hélt að ég væri að fara í botnlangaskurð en í aðgerðinni kom í ljós að ég var með krabbamein í ristli og að sést hefði blettur í lunga sem væri líka krabbamein. Þá var ég verulega slegin því ég hef aldrei reykt og alltaf hugsað vel um mig. Ég var sett í aðgerð og 40 sm bútur af ristlinum tekinn. Svo var ég látin í alls konar rannsóknir til að finna á hvaða stigi krabbameinið var og í ljós kom að það var á fjórða stigi. Það þýðir að meinið var búið að sá sér með meinvörpum víðar og það hljómar óneitanlega illa. Þeir fundu til dæmis meinvarp við setbeinið á mér sem var  skýringin á verknum í síðunni. Síðan hef ég verið í lyfjameðferð samfellt og alltaf er fylgst reglulega með árangri af lyfjunum. Ég var til dæmis sett á líftæknilyf í eitt ár en þá kom í ljós að það var ekki að gera gagn lengur. Þá var ég sett á annað lyf og af því varð ég svo veik eftir gjöf að ég óskaði sjálf eftir að fá að hætta á því. Nú er ég á fjórðu tegundinni og síðast þegar ég fór í skoðun hafði allt staðið í stað sem er góðs viti svo ég er látin halda áfram að taka þá tegund. Og þá get ég haldið áfram að fara í golf og ganga eins og mig lystir, sem sagt að gera allt sem er skemmtilegt,“ segir Guðbjörg brosandi.

Hvílir sig nú um miðjan daginn en fer líka í göngur

Guðbjörg er þannig úr garði gerð að hafa aldrei haft fyrir sið að hvíla sig um miðjan dag þótt hún hafi fundið fyrir þreytu en segist nú vera farin að gera það. ,,Fólkið mitt hefur oft áhyggjur af því að ég sé að ofgera mér, sérstaklega þegar ég kveinka mér vegna meinvarpsins í mjöðminni svo nú finn ég að mér þykir gott að hvíla mig stundum yfir daginn. Sérstaklega dagana sem ég er í lyfjagjöf. Svo fer ég í sundleikfimi hjá Hörpu Helgadóttur sem gerir mér mjög gott. Ég veit núna að hvíldin er góð og ég get tekið þátt í fleiru dagana sem ég er ekki eins þreytt.“

Jómfrúarhópurinn í golfi i Húsafelli en í honum  eru auk Guðbjargar Hrafnhildur Tómasdóttir, Jóhanna Þórðardóttir, Guðný Eiríksdóttir, Ásdís Rósa Baldursdóttir og Steinunn Helga Björnsdóttir. Þessi hópur og makar hittist á Jómfrúnni í hádeginu fyrsta mánudag i í mánuði.

Kvíðir dauðanum ekki

 Guðbjörg segist finna mikið fyrir því hvað allt tal um dauðann sé mikið feimnismál. ,,Ég var til dæmis í jarðarför fyrir skömmu og þar var ég spurð hvort ég treysti mér virkilega að fara í jarðarför. Ég svaraði því til að það viti enginn hver verður næstur og þá gildi að taka þátt í lífinu en flýja það ekki. Og um fram allt að verja tíma sínum ekki í leiðindi! Og verst þykir mér þegar fólk horfir á mig með vorkunnarsvip og vill helst vera til staðar og hugga mig. Ég þarf ekki á því að halda núna. Ég þurfti sannarlega á því að halda þegar ég missti barnið mitt en þessi veikindi eru allt annars eðlis.“

Sonarmissir

Guðbjörg á tvo syni og eina dóttur með fyrrum eiginmanni sínum en þau skildu. Annar sonurinn, Kristinn, lést fyrir 14 árum en hann var þroskahamlaður og hafði búið á sambýli eftir að hann náði fullorðinsárum. Guðbjörg hefur velt því fyrir sér hvort áfallið við sonarmissinn gæti hafa veikt mótstöðuafl líkama hennar þannig að hann hafi verið ver í stakk búinn að verjast krabbameininu. ,,Það vita allir að barnsmissir er það erfiðasta sem hægt er að lenda í,“ segir Guðbjörg. ,,Við fáumst öll við slíkan missi á mismunandi hátt en ég held að maður jafni sig aldrei á því, sama á hvaða aldri barnið er þegar það deyr. Ég var lengi föst í því að ég hefði getað gert eitthvað og ekki bætti úr skák að við vorum stödd erlendis þegar þetta gerðist. Ég fékk auðvitað aðstoð við að sjá að ég gat ekkert gert þótt ég hefði verið á landinu en áfallið var samt rosalegt.“ Nú horfir Guðbjörg fram á veginn staðráðin í að fá sem mest út úr lífinu á meðan hún getur og er þegar farin að undirbúa sjötugsafmæli sitt. Hún er þakklát fyrir allar framfarirnar í læknavísindum sem gefa henni góða von um að geta verið sjálf í því boði.

Fjölskyldumynd: Hér er Guðbjörg með fjölskyldunni í ferð til Tenerife sem var farin í beinu framhaldi af fréttinni af seinni greiningunni. Lengst til vinstri er Kári Guðmundsson, þá Hildur Björk Hafsteinsdóttir, Guðmundur sonur Guðbjargar, Baldur Hrafn tengdasonur, Guðbjörg, Margrét dóttir hennar og Daníel Guðmundsson, elsta barnabarn. Fyrir framan standa Gunnar og Friðgeir Baldurssynir og Gímur Guðmundsson.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 24, 2023 07:00