Erjur; Truman Capote tekst á við svanina

Margir muna eflaust eftir bráðskemmtilegri sjónvarpsþáttaröð um samkeppni og erjur þeirra Joan Collins og Bette Davis. Feud; Bette and Joan, hét sú en nú er komin önnur sería og að þessu sinni um Truman Capote og vinslit hans við svanina sína. Þeir voru hvorki meira né minna en þær konur sem fremstar stóðu í bandarísku hástéttinni á þeim árum.

Babe Paley, Slim Keith, C. Z. Keith, Lee Radziwill, Jackie Kennedy, Joanne Carson og Kerry O’Shea voru í þeim hópi. Þessar konur tilheyrðu sumar ríkustu fjölskyldum Bandaríkjanna, aðrar höfðu gifst iðnjöfrum, stjórnmálamönnum eða öðrum áhrifamikilum mönnum. Sumar höfðu starfað sem fyrirsætur eða leikkonur en allar þóttu þær með eindæmum glæsilegar.  Upp úr miðri síðustu öld var Truman Capote einn virtasti rithöfundur Bandaríkjanna. Hann hafði gefið út metsölubókina In Cold Blood en þegar fréttist um hvað hans næsta bók átti að fjalla tók að hrikta mjög í stoðum vináttunnar.

Sú skáldsaga kom hins vegar aldrei fyrir almenningssjónir. Hún átti að verða svanasöngur Trumans sem höfundar og hann lagði sál sína í verkið. „Bókin heitir Answered Prayers (Bænheyrsla) og ef allt fer vel verður hún svarið við mínum bænum,“ skrifaði Truman í bréfi til útgáfustjóra síns hjá Random House. Þetta var sumarið 1958 og Truman dvaldi á Grikklandi við skriftir. Hann sagði einnig að bókin ætti að sín útgáfa af In Search of Lost Time (Í leit að týndum tíma) eftir Marcel Proust og að stundirnar sem hann varði með vinum sínum við drykkju og skemmtanir væri hann við efnisöflun. Þegar hann lést tuttugu og sex árum síðar á heimili Joanne Carson, vinkonu sinnar, fannst hins vegar hvorki tangur né tetur af handritinu.

Gloria Guiness var ein svananna hans Trumans.

Má rithöfundur skrifa um raunverulegt fólk?

Það varð útgefendum hans dýrt því þeir höfðu þá greitt honum eina milljón dollara í fyrirframgreiðslu út á þessa væntanlegu metsölubók og enn í dag er mönnum hulin ráðgáta hvort handritið hafi nokkru sinni klárast eða almennt verið meira og stærra í sniðum en tveir kaflar. Þá hafði Truman birt í tímaritinu Esquire árið 1975 og 1976. Sá fyrri fékk yfirskriftina Mojave og var byggður á stormasömu hjónabandi vina hans, Williams S. Paley og Babe Paley. Hann lýsti framhjáhaldi, drykkju, tilfinningalegum uppþotum og fleiru en skrifin fengu lítil viðbrögð. Sá síðari, La Côte Basque 1965, vakti hins vegar bæði umtal og hneykslan, enda snerist hann um líf og hegðun nokkurra ríkustu kvenna Bandaríkjanna. Í kjölfarið fór af stað mikil umræða um hvað höfundar gætu leyft sér að ganga langt í lýsingum á raunverulegum persónum og atburðum.

Sú deila er svo sem ekki ný af nálinni. Truman hafði áður byggt á raunveruleikanum í In Cold Blood. Hann heimsótti bæinn Holcomb í Kansas þar sem fjölskylda hafði verið myrt á heimili sínu og talaði við lögreglustjórann og bæjarbúa áður en hann hóf að skrifa. Margir þeirra voru honum reiðir eftir á og sögðu að hann hefði farið mjög frjálslega með það sem hann upplifði og heyrði. Í La Côte Basque 1965 gekk hann enn lengra. Hann skrifaði margar vinkvenna sinna, inn í söguna, m.a. Jaqueline Kennedy Onassis, Lee Radziwill, Gloriu Vanderbilt, Slim Keith, Gloriu Guiness og Carol Matthau. Í mörgum tilfellum hafði hann ekki einu sinni fyrir því að breyta nöfnum þeirra og viðraði ýmsar beinagrindum úr lokuðum skápum. Þarna var talað um framhjáhald mannanna þeirra, morð á einum eiginmanni, mennina sem sluppu og eiginmennina sem þær voru búnar að gleyma, pilluát þeirra og skuldir. Þetta var í raun félagslegt sjálfsmorð. Allir vinir hans sneru við honum baki og Truman átti ekki annað svar en að drekkja sorgum sínum í aukinni áfengis- og eiturlyfjaneyslu.

Truman Capote og Lee Radziwill, systir Jackie Kennedy

Ekki alltaf rétt með farið

Velgengni In Cold Blood veitti Truman aðgang að bandarísku elítunni. Hann kynntist eiginkonum verksmiðjueigenda og auðjöfra og var heimagangur hjá ameríska aðlinum en það eru fjölskyldur á borð við Kennedy, Vanderbilt, Rockefeller og fleiri kallaðar þótt enginn titill fylgi. Hann eignaðist margar vinkonur meðal þessar kvenna og kallaði þær svanina sín. Hann hélt þeim boð og fór með þeim í hádegisverð tvisvar í viku. Hann sagði þeim sögur og baðaði þær í aðdáun. Þetta voru konurnar sem hann síðar skrifaði svo um í La Côte Basque 1965.

En hann var ekki bara besti vinur kvennanna. Hann umgekkst stjórnmálamenn, listamenn og kvikmyndastjörnur.  Það er þess vegna ekkert undarlegt að útgefendur hafi verið tilbúnir til að borga honum góða summu fyrirfram fyrir bók byggða á sögum af þessu fólki. Þessir tveir fyrstu kaflar bentu að minnsta kosti til þess að meira feitt kjöt væri á beinunum. En árin liðu og ekkert bólaði á handritinu. Tíu árum eftir að hann skrifaði bréfið um svanasöng sinn til útgefandans var mönnum tekið að lengja eftir að bókin kæmi fyrir almenningssjónir. Hann var þó alls ekki verklaus því hann skrifaði handrit að sjónvarpsþáttum og smásögur. En hélt áfram að ýja að því að von væri á stórvirki. Í viðtali á bandarískri sjónvarpsstöð sagði hann: „Þetta er það sem ég er að skrifa um, elskan. Ég er að skrifa um alla sem ég hef hitt um ævina svo gætið ykkar.“

Babe Paley talaði aldrei við Truman eftir að kafli úr Answered Prayers birtist í tímariti.

Babe Paley talaði aldrei við Truman eftir að kafli úr Answered Prayers birtist í tímariti.

Úr þúsundum karaktera að velja

Árið 1969 var hann kallaður á fund hjá Random House og þeir sömdu við hann um að hann skilaði þeim þremur bókum fyrir lok september 1973 og þar á meðal hinni margumtöluðu Answered Prayers. Hann fékk 750.000 dollara greidda fyrirfram í höfundarlaun og þurfti því ekki að svelta. Hann ræddi um það leyti um Answered Prayers og kallaði bókina aðalverk sitt og sagði: „..nánast allt í henni er dagsatt. Ég hef úr þúsundum karaktera að velja. Bók mín á eftir að gera fyrir Ameríku það sem Proust gerði fyrir Frakkland.“  Þar var hann auðvitað að vísa í Leit að týndum tíma.

En september 1973 leið án þess að Truman skilaði nokkru af sér. Hann skrifaði kvikmyndahandrit byggt á skáldsögu F. Scott Fitzgerald, The Great Gatsby en því var hafnað af kvikmyndaverinu. Út kom smásagnasafn sem fékk fremur blendnar viðtökur gagnrýnenda. Um leið varð það að útiloka Truman Capote viðtekin venja. Þótt margt af því sem kom fram La Côte Basque 1965, væri velþekkt og hefði áður komið fram í slúðurdálkum blaðanna litu menn samt almennt þannig á að Truman hefði brugðist trausti sinna allra nánustu vina og honum væri því ekki treystandi.

Hvers vegna hann gerði það hefur verið mönnum tilefni til vangaveltna síðan hann lést. Sumir segja að hann hafi skrifað á þennan illkvittna hátt um þessar konur vegna þess að hann hafi verið orðinn þreyttur á að vera leikfang þeirra eða hirðfífl. Aðrir vilja meina að hann hafi einfaldlega ekki gert sér grein fyrir að skrifunum yrði tekið á þennan hátt. Hann hafi haldið að flestir vissu þetta þegar og því væri varla um neina goðgá að ræða. Kelleigh Greenberg-Jephcott höfundur Swan Song, skáldsögu um Truman Capote og útskúfun hans telur að alla ævi hafi hann notfært sér sögur annarra og fléttað þeir inn í skáldskap sinn. Hann hafi ávallt fengið mikið hrós fyrir þetta allt frá því hann, tíu ára, vann verðlaun fyrir smásöguna Old Mr Busybody. Þetta hafi þess vegna alls ekki virst neitt öðruvísi í hans huga.

Demi Moore leikur Ann Woodward í Feud: Capote vs. the Swans. Chloë Sevigny, Calista Flockhart og Naomi Watts leika hinar.

Lögsóttur fyrir meiðyrði

En Truman var greindur maður og það þarf svo sem ekki snilling til að reikna út samhengið. Hann mátti varla við því að tapa fleiri vinum og stjórnmálamenn eru ekki þekktir fyrir að taka því þegjandi sé að þeim vegið á opinberum vettvangi. Það var því góð og gild ástæða fyrir því að hann skilaði ekki af sér handriti þrátt fyrir ótal setta skiladaga um tveggja áratuga skeið. Hann var líka niðurbrotinn maður þótt hann héldi áfram að tala digurbarkalega um bókina sem öllu myndi breyta. Babe Paley, besta vinkona hans, talaði aldrei við hann eftir að La Côte Basque 1965 birtist og hún lést úr lungnakrabba þremur árum síðar. Truman var ekki boðið að koma í jarðarförina. Honum þótti það ofboðslega leitt og lokaði sig af í þakíbúð sinni í Manhattan með gluggatjöldin dregin vandlega fyrir og hafði ekki samband við neinn.

Um þetta leyti fór Truman að sækja næturklúbbinn Studio 54. Þar var diskótónlistin allsráðandi og Andy Warhol gekk um með hirð af alls konar fólki í kringum sig. Hann og vinir hans voru ævinlega með birgðir af kókaíni, hugbreytandi pillum og öðrum vimuefnum meðferðis og Truman tók þátt í partíinu af lífi og sál. Hann birti einn kafla enn úr Answered Prayers, yfirskrift hans var Unspoiled Monsters og birtist í maí 1976. Sá vakti litla athygli en Truman hafði brátt um annað að hugsa. Hann hafði sagt frá því í viðtali við Playgirl að rithöfundinum Gore Vidal hefði eitthvert sinn verið hent út úr boði í Hvíta húsinu vegna ölvunar og andstyggilegrar hegðunar. Gore Vidal hóf lögsókn á hendur starfsbróður sínum og vildi fá milljón dollara í skaðabætur fyrir meiðyrði. Söguna hafði Truman eftir Lee Radziwill en hún skrifaði undir eiðsvarna yfirlýsingu þar sem hún kannaðist ekkert við að hafa séð nokkuð þessu líkt til Gore í þessu boði. Að lokum var gerð sátt í málinu og það fór aldrei fyrir dóm.

Eftir lát Trumans hófst leit að handritinu að Answered Prayers og einhver brot fundust. Þau voru gefin út árið 1986 Answered Prayers: The Unfinished Novel en þetta var lítið meira en kaflarnir þrír sem þegar höfðu verið birtir. Joanne Carson segist hafa lesið þrjá kafla í viðbót sem Truman hafi sýnt henni skömmu áður. Truman hafði einnig fengið henni lykla að öryggishólfi og sagt að þar væri að finna fleiri kafla úr bókinni. Fleiri hafa fullyrt að þeir hafi séð fullbúið handrit, fengið að halda á því og lesa suma kafla. En margir vina hans bera þetta til baka og segja að hann hafi einfaldlega aldrei getað komið sér að verki og klárað. Hann var auðvitað langt leiddur fíkill. Að vísu fannst enn einn kafli, Yachts and Things, meðal annarra pappíra í skjalasafni Trumans í New York Public Library og var birt í Vanity Fair árið 2012. Ráðskona hans bjargaði einnig skáldsögunni Summer Crossing úr ruslafötunni á heimili hans og hún var gefin út eftir lát hans. En hann var mikill fullkomnunarsinni og því mjög líklegur til að eyðileggja heilu handritin ef þau voru að hans mati ekki nægilega góð. Margir telja að það hafi einmitt gerst með Answered Prayers. Höfundurinn hafi ekki verið nægilega ánægður og þess vegna hent handritinu, fremur en að vinna frekar að bókinni. Hafi hann hins vegar lokið bókinni og unnið hana af sömu snilli og sínar fyrri sögur er aldrei að vita nema vinir hans hefðu þakkað honum fyrir að gera sig ódauðlega fremur en að móðgast yfir trúnaðarbresti hans.

Ritstjórn desember 11, 2023 20:24