Eru Norðmenn blóðheitari en Íslendingar?

Norskir ferfætlingar taka meira að segja þátt

Norskir ferfætlingar taka meira að segja virkan þátt

Eftir að hafa tekið þátt í hátíðarhöldum Norðmanna á 17.maí, er hugsunin um hátíðarhöldin á 17.júní hér hjá okkur áleitnari en oft áður, hjá tíðindamanni Lifðu núna.  Norðmenn flykktust prúðbúnir út á göturnar, ótrúlega margir í þjóðbúningum og þáttaka fólks á öllum aldri var áberandi.  Egill Helgason skrifaði skemmtilegan pistil um þjóðhátíðardaga Norðmanna og Íslendinga á blogginu sínu 17. Maí og bar þetta saman. Veltir því fyrir sér hvers vegna stemmingin í Noregi á  17.maí sé svo miklu meiri, en hérna á Íslandi, þar sem honum finnst þjóðhátíðardagurinn fremur dauflegur.  Hérna kemur orðrétt tilvitnun í pistilinn.

Menn hafa gert því skóna að ein ástæðan sé sú að Íslendingum sé svo ógjarnt að flíka tilfinningum sínum – en það dugir varla, Norðmenn eru ekkert sérlega blóðheitir heldur. Fáninn hefur reyndar aldrei öðlast sama sess hjá okkur og hjá Norðurlandaþjóðunum. Þjóðsöngur Norðmanna Ja vi elsker dette landet er ólíkt hentugri til söngs en Ó Guð vors lands.

En kannski er skýringanna fremur að leita í sögunni. Noregur var hernuminn af Þjóðverjum í stríðinu. Þá var bannað að halda 17. maí hátíðlegan. Norðmenn unnu frelsi sitt aftur, sumpart með hetjulegri baráttu. Þannig varð dagurinn í raun þrunginn merkingu eftir stríðslokin.

17. júní okkar Íslendinga er dálítið öðruvísi. Við Íslendingar fengum endanlega sjálfstæði frá Danmörku þegar við vorum á hersvæði Bandaríkjanna. Bandaríkin urðu nokkurs konar ábekingur lýðveldisins – og fyrsta þjóðin til að viðurkenna Ísland sem lýðveldi.

Strax eftir stríðið hófust harðar deilur um veru Bandaríkjahers á Íslandi. Þær skiptu þjóðinni í tvær fylkingar og deilurnar voru oft á tíðum mjög hatrammar. Landráðabrigslin gengu á víxl. Margir græddu vel á veru hersins hér, þegar hann loks fór snerist umræðan aðallega um peninga.

Samstaðan um hvað hið unga lýðveldi skyldi standa fyrir var í raun mjög lítil; það þurfti að fara alla leið aftur til Jóns Sigurðssonar til að finna eitthvað sem sameinaði, þótt hver stjórnmálahreyfing túlkaði Jón eftir sínu höfði.

 

 

 

 

Ritstjórn júní 17, 2016 13:29