Eru sykurlausir gosdrykkir skaðlausir?

Margir kjósa að drekka sykurlausa gosdrykki og sódavatn með bragðefnum og telja að þar með séu þeir að velja hollari kost. Þeir innihalda vissulega ekki sykur en sumir eru ríkir af sýru sem skemmir tennurnar. Ýmislegt bendir einnig til að venji menn sig á að drekka eingöngu kolsýrt vatn fari vatnið úr krananum að virðast minna spennandi en hér á Íslandi er það hollasti drykkur sem býðst.

Sýra getur skemmt glerung tanna og þegar fólk eldist er glerungurinn þegar tekinn að eyðast og skemmast og súrir drykkir geta flýtt fyrir því ferli. Þar fyrir utan er ekkert sem bendir til þess að gosdrykkir eins og Pepsi Max og sykurlaus Coca-Cola séu heilsuspillandi en þó ber að benda á að nokkrar rannsóknir hafi sýnt fram á tengsl á milli gosdrykkjaneyslu og offitu. Vísindamenn hafa túlkað þær niðurstöður þannig að of þungt fólk velji gosdrykki fram yfir sykraða drykki til að halda þyngd sinni í skefjum, ekki að gosdrykkir í sjálfu sér leiði til offitu.

Sumir hafa haldið fram að sætuefnin í sykurlausum gosdrykkjum séu krabbameinsvaldandi en nýjustu rannsóknir hafa hrakið þær staðhæfingar. Á hinn bóginn er ýmislegt að sem bendir til að þau geti breytt þarmaflórunni. Á rannsóknarstofum hefur verið sýnt fram á að þau hafa þau áhrif á mýs og rottur en hingað til hafa samssvarandi prófanir ekki verið gerðar á mönnum. Þær breytingarnar leiða svo til glúkósaóþols sem veldur sykursýki og eykur hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum og offitu. Allt útlit er þó fyrir að mjög stóra skammta af sætuefnunum þurfi til að þau nái að hafa þessi áhrif.

400 lítrar á dag

Aspartam er gervisætuefni sem er 200 sinnum sætara en sykur. Frá því að það kom á markað á níunda áratugnum hafa verið um það deildar meiningar. Því hefur verið haldið fram að það valdi krabbameini, heilaskaða, vitglöpum, offitu, insúlínviðnámi og hjartasjúkdómum, svo eitthvað sé nefnt. Aspartam er gervisæta og svo langt frá því að vera náttúrulegt að margir neytendur eru mjög efins um gæði þess og hollustu. En einmitt vegna þess hve tortryggilegt það er hafa margar og margvíslegar rannsóknir verið gerðar í á því mörg ár, til að reyna að leiða í ljós hvort það geti verið hættulegt fyrir okkur mennina. Allar benda þær í eina átt, að menn þurfi að drekka sykurlaust gos í stjarnfræðilegu magni til að aspartamið í þeim nái að verða þér skaðlegt.

Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hefur skilgreint að allt að 40 mg á hvert kíló sem einstaklingur vegur daglega sé innan hættumarka. Ef einstaklingur er 60 kíló að þyngd jafngildir þetta 2.400 mg af aspartami eða 4-5 lítrum af gosdrykk á dag. Þetta þýðir að menn þurfa að drekka að minnsta kosti 400 lítra af gosdrykk á hverjum degi til að aspartamið í þeim fari að vera þeim hættulegt og sú neysla þarf að vara í nokkurn tíma. Það er því sennilegt að menn látist af öðrum orsökum áður en aspartamið nær að kveikja hættulega sjúkdóma.

Stuðlar að þyngdartapi

En svo er það umræðan um þarmaflóruna. Við höfum orðið sífellt meðvitaðri um áhrif hennar á almennt heilsufar okkar á undanförnum árum. Ættum við þá ekki að hafa áhyggjur af henni ef við neytum sykurlausra gosdrykkja? Ekki ef marka má nýjustu samtektir næringafræðinga. Þarmaflóran breytist við allar breytingar á mataræði. Það er sama hversu litlar þær breytingar eru. Bara það að borða fremur hafragraut á morgnana en egg setur af stað ákveðnar breytingar á flórunni. Næringarfræðingar hafa mun meiri áhyggjur af því hversu lítið af trefjum flestir nútímamenn borða. Það er nokkuð algengt að fólk segist vera háð gosdrykkjum, einkum Pepsi Max og Coke Zero og það er því allt útlit fyrir að það sé saklaus munaður sem hægt er að leyfa sér. Hins vegar ættu menn að skipta yfir í sykurlausu útgáfuna séu þeir að drekka mikið af Coca Cola með sykri eða sykruðu Pepsi. Það stuðlar að þyngdartapi og flestir léttast um allt að 10 kg á ári við þá breytingu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 14, 2024 15:16