Erum ekki að berjast fyrir þá sem hafa það ágætt

Björgvin Guðmundsson hefur á síðustu árum verið einn ötulasti baráttumaðurinn fyrir bættum kjörum eldri borgara og öryrkja. Hann heldur úti bloggi og hefur skrifað fjölda blaðagreina um þetta efni.  Nýlega sendi hann svo frá sér bókina Bætum lífi við árin sem hefur að geyma úrval greina hans.   „Ég myndi segja að undirrótin að þessari baráttu minni sé að ég er verkamannssonur og ólst upp við fátækt“, segir Björgvin í samtali við Lifðu núna.  „Ég fékk strax í barnæsku áhuga á að vinna að bættum kjörum verkafólks og þeirra sem minna mega sín. Þess vegna varð ég jafnaðarmaður og gekk í Félag ungra jafnaðarmanna þegar ég var 17 ára.  Ég barðist mikið í borgarstjórn fyrir bættum hag aldraðra og langlegusjúklinga. Barðist meðal annars fyrir byggingu B-álmu Borgarspítalans.“

Björgvin 3ja ára með foreldrum sínum, Kristínu Jónsdóttur og Guðmundi M Kristjánssyni

Björgvin 3ja ára með foreldrum sínum, Katrínu Jónsdóttur og Guðmundi M Kjartanssyni

Börn finna fyrir fátækt

Björgvin ólst upp í vesturbænum, fyrst á Nýlendugötu og seinna á Hringbraut. Foreldrar hans voru Guðmundur Kjartansson og Katrín Jónsdóttir, en þau voru bæði úr Árnessýslu. „Pabbi frá Stokkseyri en hún úr Ölfusinu“, segir Björgvin.  Fyrstu æskuminningar hans eru frá þeim tíma þegar faðir hans var atvinnulaus.  „Ég man það eins og það hafi gerst í gær, þegar pabbi fór að „trolla“ kol niður á höfn. Það  gekk þannig fyrir sig, að handtroll var notað til þess  trolla  kol af botninum.  Menn seldu svo kolin fyrir mat“.  Þrátt fyrir kröpp kjör segir Björgvin að fjölskyldan hafi aldrei soltið, en maturinn var fábreyttur. „Við borðuðum alltaf margarín. Þegar ég fór að búa vildi ég ekki smjör og það tók konuna mína tíma að venja mig á það. Börn finna alveg fyrir því ef það er fátækt, þess vegna er það veigamikið baráttumál að útrýma henni“, segir hann.

Leigðu út stofuna í íbúðinni

Björgvin var í Miðbæjarskólanum, en fjölskyldan flutti í fyrstu bæjarblokkina við Hringbraut þegar hún var byggð. Þá var hann 11 ára. „Borgin reisti þessa blokk fyrir barnmargar fjölskyldur og við vorum fjögur börnin. En þegar foreldrar mínir áttu að taka við íbúðinni veiktist pabbi af berklum og fór á Vífilstaði. Þau ákváðu því að þrengja að sér og leigðu út stofuna í íbúðinni og þakherbergið sem fylgdi, til að kljúfa greiðslurnar fyrsta árið, á meðan pabbi var á Vífilstöðum“, rifjar hann upp.  Eftir barnaskólann fór Björgvin  í Gagnfræðaskóla Austurbæjar þar sem hann tók landspróf.

Var sendill og peningarnir fóru í íbúðakaupin

Hann byrjaði snemma að vinna til að létta undir með heimilinu, fór 9 ára að vinna sem sendill í fiskbúð. „Ég var búin að safna peningum þegar íbúðin á Hringbraut var keypt og þeir fóru allir í íbúðakaupin“.  Þegar faðir hans veiktist sótti hann um sumarvinnu hjá Vatnsveitu Reykjavíkur. Þá var hann 13 ára og vann þar fulla verkamannavinnu á sumrin, á fullu kaupi.  Hann segist telja að það hafi verið gert svona vel við sig, vegna veikinda föður hans.

Pólitík og blaðamennska

Með stúdentshúfuna 1953

Með stúdentshúfuna 1953

Björgvin fór í Menntaskólann í Reykjavík.  Hann var að velta fyrir sér að fara í Verslunarskólann, en þar voru skólagjöld sem ekki voru í MR og það réði úrslitum.   Hann útskrifaðist sem stúdent 1953 og fór í viðskiptafræði í Háskóla Íslands.  Hann lét til sín taka í stúdentapólitíkinni og var formaður stúdentaráðs HÍ um skeið. Hann byrjaði að vinna sem blaðamaður á Alþýðublaðinu strax eftir stúdentspróf.  Þar var hann í 10 ár, eða þar til hann réði sig sem blaðamann á Vísi. Gylfi Þ. Gíslason bauð honum síðan vinnu í viðskiptaráðuneytinu þar sem hann vann í næstum 20 ár, eða frá 1964-1981.  Eftir það var hann framkvæmdastjóri Bæjarútgerðar Reykjavíkur í tvö ár, þar til hann stofnaði útflutningsfyrirtæki með Rúnari syni sínum sem hét Íslenskur nýfiskur, en þeir fluttu út ferskan fisk í gámum.

Við myndun vinstri meirihlutans í borgarstjórn 1978

Við myndun vinstri meirihlutans í borgarstjórn 1978

Samheldin fjölskylda

Meðfram þessum störfum átti Björgvin sæti í borgarstjórn fyrir Alþýðuflokkinn.  Hann var borgarfulltrúi í 12 ár og varaborgarfulltrúi í 8 ár, þannig að hans pólitíski ferill spannar 20 ár. Hann var leiðtogi flokksins í borgarstjórn þegar vinstri meirihlutinn var myndaður árið 1978.  Hann kvæntist Dagrúnu Þorvaldsdóttur árið sem hann varð stúdent og þau eignuðust sex syni.  Börn þeirra, barnabörn og barnabarnabörn eru 28.  Þau stóðu saman í blíðu og stríðu í rúm sextíu ár, en Dagrún lést fyrir tæpu ári.  Björgvin segir að þau hafi haft gott samband við öll barnabörnin sín og fjölskyldan hafi alltaf verið samheldin og varið miklum tíma saman.  Hann segir fjölskyldutengslin skipta sig mestu máli í daglegu lífi.

Hætti að vinna á afmælisdaginn

Þegar Björgvin fór á eftirlaun sjötugur, ákvað hann að taka sér fyrir hendur að skrifa greinar í blöð um helstu baráttumál jafnaðarmanna, kvótamál, mannréttindamál og fleira..  „Ég var að vinna í utanríkisráðuneytinu og varð að hætta á afælisdaginn“, segir hann.  En sem jafnaðarmaður vildi hann berjast fyrir þá sem höllum fæti standa og honum þótti staðan í málefnum aldraðra ólíðandi. Hann fór að beita sér í málefnum þeirra, meðal annars í Félagi eldri borgara í Reykjavík þar sem hann var formaður kjaranefndar félagsins í átta ár. Þar sá hann strax að þeim var heldur naumt skammtað og það var ekki nokkur leið að lifa mannsæmandi lífi á kjörunum sem þeim var úthlutað.  Uppúr því fór hann að skrifa greinar til að vekja athygli á þessari stöðu.

Björgvin og Dagrún á brúðkaupsdaginn

Björgvin og Dagrún á brúðkaupsdaginn

Stjórnmálin áhugalaus um málefni aldraðra

„Eftir því sem ég kynnti mér málin betur, sá ég hvað þetta var vanræktur málaflokkur og hversu neikvæð stjórnvöld eru í garð aldraðra. Helgi Pé tók þetta líka upp. Það er alveg stórfurðulegt hvað stjórnvöld eru neikvæð og hvað stjórnmálamenn eru áhugalausir um þennan málaflokk. Ég hef fylgst með stjórnmálum lengi og undrast hvað þessi mál hafa verið þar lítið á dagskrá“, segir Björgvin en tekur fram að í fyrra hafi orðið mikil breyting þar á, sem hafi náð hámarki við afgreiðslu fjárlaga. Sjálfur hafi hann lagt málinu lið með því að skrifa harðar blaðagreinar. Meðal þess sem þá var rætt var að eldri borgarar og öryrkjar fengju sambærilega hækkun og launþegar, afturvirkt.  „Það varð mikil bylgja og mikill áhugi á þessu“, segir Björgvin.

Mega fá meira en lágmarkslaun

Björgvin er þeirrar skoðunar að eldri borgarar og öryrkjar þurfi ekki endilega að vera með jafn lág eftirlaun og lægstu taxtar verkalýðsfélaganna eru.“Mér finnst það ekkert sjálfsagt“ segir hann. „Þau mega alveg vera hærri. Það eru margvísleg rök fyrir því að eldri borgarar ættu að hafa betri kjör en þeir sem hafa lægstu launin í samfélaginu.  Þau mega ekki fara niður fyrir lágmarkslaun, en það er ekkert sem segir að kjör þeirra megi ekki vera betri“, segir hann. En allt fari þetta eftir því hversu duglegir menn séu að berjast.  Hann segir nauðsynlegt að virkja verkalýðshreyfinguna í baráttunni fyrir bættum kjörum eldra fólks.

Björgvin með langafastrákinn Aron Ísak

Björgvin með langafastrákinn Aron Ísak

Verkalýðshreyfingin berjist fyrir eldri borgara

Við beittum okkur fyrir því í Félagi eldri borgara, ég, Guðmundur Garðarsson og Ólafur Hannibalsson að virkja verkalýðshreyfinguna í að standa með kröfum eldri borgara. „Ég tel að það standi verkalýðshreyfingunni næst að berjast fyrir eldri borgara sem hafa hvorki samningsrétt né verkfallsrétt. Verkalýðshreyfingin átti þátt í að félög eldri borgara voru stofnuð á sínum tíma“. Björgvin og félagar áttu fundi með forystumönnum úr verkalýðshreyfingunni. „Verkalýðsfélögin í Reykjavík tóku dræmt í þetta og vildu beina þessu til ASÍ. En ég tel að verkalýðshreyfingunni beri skylda til að standa með eldri borgurum og baráttu þeirra fyrir bættum kjörum. Það er óeðlilegt að öll réttindi detti uppfyrir, þegar menn hætta að vinna. Fólki sem hefur verið í þessum félögum árum saman, finnst skrítið ef félögin vilja ekkert fyrir það gera, þegar eftirlaunaaldri er náð“.

Lagabreyting sem rýrði kjörin

Björgvin segir að gera þurfi nýtt átak í því að virkja verkalýðshreyfinguna fyrir aldraða. „Ef stuðnings þeirra nýtur ekki við, eiga eldri borgarar allt undir því hvernig liggur á stjórnvöldum hverju sinni. Hann segir að ákveðnar lagabreytingar sem gerðar voru í tíð Davíðs Oddssonar árið 1995 hafi stórskaðað kjör eldri borgara, en þá hafi verið skorið á það að þau fylgdu beint þeim kjörum sem um samdist á vinnumarkaði hverju sinni. „Það hefur verið reiknað út hversu mikið þetta hefur skert kjör eldri borgara og það eru 80 milljarðar fram til dagsins í dag“, segir hann. „Verkalýðshreyfingin samdi í maí í fyrra, en hækkun til eldri borgara kom ekki fyrr en um áramót. Þetta hefur gerst trekk í trekk“.

Á ekki að halda eldri borgurum við fátækramörk

„Það á ekki að vera þannig með kjör aldraðra að þeim sé haldið við fátækramörk og að þeir rétt skrimti“ segir Björgvin. „Fólk á að fá að lifa með reisn, það á ekki að vera afgangsstærð þannig að menn sjái til í lokin, hvort þeir eigi eitthvað að fá. Af hverju eru aldraðir einhver afgangsstærð? Ég vil breyta þessu“.  Hann segir að vissulega sé staðan misjöfn hjá eldra fólki. „Eins og ég hef alltaf sagt. Við erum að berjast fyrir þá sem búa við slæm kjör. Við erum ekki að berjast fyrir þá sem hafa það ágætt, sem er  útbreiddur misskilningur hjá ýmsum. Það er stundum að heyra eins og eldra fólk borgi ekki skatta og sé byrði á þjóðfélaginu.  En eldri borgarar hafa borgað skatta alla sína starfsævi og svo borga þeir skatt af öllu sem þeir fá. Það er ekki eins og þeir fái allt í vasann sem tekin er ákvörðun um að greiða þeim“.

Fjölskyldan samankomin á áttræðisafmæli Björgvins fyrir fjórum árum

Fjölskyldan samankomin á áttræðisafmæli Björgvins fyrir fjórum árum

Þetta  er hungurlús

Björgvin er þeirrar skoðunar að „ellilífeyrir“ eigi að vera skattfrjáls. „Ástandið er gott og nægir peningar til.  Ég er mjög óánægður með með nýju lögin um almannatryggingar. Þetta er alger hungurlús,sem þau færa þeim verst settu. Einhleypir hækka úr 207 þúsund krónum á mánuði eftir skatt  í 227 þúsund krónur, eða um 20 þúsund krónur. Og sambúðar-og hjónafólk hækkar úr 185  í 194 þúsund krónur á mánuði eftir skatt. Það skal tekið fram að þetta á við um þá sem fá eingöngu lífeyri frá almannatryggingum. Þetta er ekkert til þess að hrópa húrra fyrir. Það lifir enginn af þessu. Hvenær ætlar Alþingi og ríkisvald að manna sig upp í að búa öldruðum og öryrkjum mannsæmandi kjör? Skerðingar halda áfram og flækustigið jókst hratt við lokaafgreiðslu málsins á þingi. Þá gleymdist að einfalda átti kerfið. Félag eldri borgara hlýtur að taka þetta fyrir. Það gengur ekki að skilja þá eftir, sem eru í hjónabandi eða sambúð. Það stenst ekki.  Frá upphafi almannatrygginga hefur það verið þannig að þeir sem búa einir hafa fengið svokallaða heimilisuppbót og hana eiga þeir að fá áfram samkvæmt frumvarpinu“.  Björgvin segir ekki hægt að hækka lífeyri eingöngu hjá einhleypu fólki, þá neyðist eldri borgarar til að skilja. „Það er ekki löggjafarvaldsins að hafa skoðun á því hvort fólk býr eitt eða ekki“.

Geta ekki gengið á bak orða sinna

Það eru að mati Björgvins nokkrar meginástæður fyrir því að aldraðir eigi að fá myndarlegar kjarabætur núna. Í fyrsta lagi sá mikili dráttur sem hafi orðið á þeirra kjarabótum miðað við aðra.   Þeir hafi þurft að bíða í átta mánuði eftir kjarabótunum sem aðrir fengu í fyrra og hafi ekki fengið neitt á þessu ári síðan 1.janúar.  Í öðru lagi sé sú kjaragliðnun sem hafi orðið á krepputímanum, en hún nemi 23% eða sem svarar til 56 þúsund króna hækkunar lífeyris á mánuði. Stjórnarflokkarnir hafi báðir samþykkt það á sínum flokksþingum að leiðrétta þetta og gefið fyrirheit um það fyrir síðustu kosningar. „Þeir geta ekki gengið á bak orða sinna“, segir Björgvin að lokum og er hvergi nærri hættur baráttunni fyrir bættum kjörum eldri borgara, enda þurfi einnig nauðsynlega að fjölga hjúkrunarheimilum í landinu og bæta heimaþjónustuna.

Ritstjórn október 14, 2016 13:25