Lágmarkslífeyrir verði 425 þúsund á mánuði

Björgvin Guðmundsson

„Hvað þarf lífeyrir aldraðra að vera hár til þess að hann dugi til framfærslu? Að mínu mati er lágmarkslífeyrir þessi: 425 þúsund kr. á mánuði fyrir skatt. 311 þúsund kr. á mánuði eftir skatt,“ segir Björgvin Guðmundsson í grein í Fréttablaðinu, Björgvin segir:  „Ekki á að gera mun á einhleypum og giftum eldri borgurum að því er lífeyri varðar. Framangreindur lífeyrir er algert lágmark til þess að eldri borgarar hafi fyrir nauðsynlegustu útgjöldum. Þetta dugar þó tæplega, ef eldri borgarinn þarf að greiða mikið í húsnæðiskostnað, til dæmis háa húsaleigu eða miklar afborganir og vexti af íbúð. Einnig er ókleift að kaupa og reka bíl af lífeyri, sem eingöngu er frá TR. Hann hrekkur ekki til þess.

Þeir sem hafa lágan lífeyri úr lífeyrissjóði eru lítið betur settir en hinir, sem eingöngu hafa lífeyri frá almannatryggingum. Húsnæðiskostnaður skiptir gífurlega miklu máli fyrir eldri borgara. Þeir, sem eiga skuldlaust eða skuldlítið húsnæði, eru miklu betur staddir en hinir. Þeir geta veitt sér meira á efri árum. Þeir, sem hafa góðan lífeyrissjóð, eru einnig betur settir en hinir sem hafa engan lífeyrissjóð eða mjög lélegan en þeim svíður, að ríkið skuli refsa þeim fyrir að hafa sparað i lífeyrissjóði.

Ríkið skerðir lífeyri aldraðra frá TR hastarlega, ef þeir hafa greitt í lífeyrissjóð. Það gengur í berhögg við yfirlýsingar, sem voru gefnar, þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir. En þá var sagt, að lífeyrissjóðirnir ættu að vera hrein viðbót við almannatryggingar. Þessu lýsti m.a. ASÍ yfir 1969. Þegar ríkið skerðir tryggingalífeyri eldri borgara frá TR í dag finnst umræddum eldri borgurum sem þeir hafi verið sviknir.

Haukur Arnþórsson

Það er brýnt að afnema skerðingu tryggingalífeyris vegna lífeyrissjóða sem fyrst. Margir álíta að afnema eigi skerðingarnar í einum áfanga, þar eð ríkið hafi haft mikinn ávinning af skerðingum svo lengi og þessar skerðingar eigi ekki rétt á sér,“ segir Björgvin og segir að dr. Haukur Arnþórsson hafi reiknað út að það kosti 35 milljarða fyrir ríkið að afnema allar skerðingar. Haukur sem um er rætt skrifar grein í Morgunblaðið í dag  þar sem hann segir að hætta þurfi skerðingum á lífeyri og skattauppgjörinu sem því fylgir. Haukur segir „Nú er það svo að lífeyrisþegar sem fylla tímanlega inn nýjar upplýsingar, svo sem vegna aukinna eða minnkaðra tekna, vegna arfs eða annars, fá nálægt því rétt greitt. Hins vegar skilja fjölmargir í þessum hópi ekki sjálft kerfið eða komast ekki í gegnum tölvukerfi TR og hafa ekki heilsu eða þekkingu og þjálfun til þess að gera það. Og munum að hér er ekki um lítinn hóp að ræða, um 25 þúsund manns sem ráða ekki við kerfið. Þar af eru þúsundir skjólstæðinga sem hafa lífeyri sem er um 100 þúsund kr. lægri á mánuði en sem nemur framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins auk húsnæðiskostnaðar.

Þetta kerfi á sér fáar hliðstæður í íslenskri stjórnsýslu og enga sem tekur til svo margra og viðkvæmra skjólstæðinga. Þannig er einkennilegt, eða á ég að segja óviðfelldið, að lífeyrisþegar búi við það. Óhjákvæmilega þarf að leggja það niður, ef ekki af mannúðarástæðum, þá af þeirri ástæðu að um ótæka stjórnsýslu er að ræða.

Lausn málsins er að hætta skerðingum á lífeyri og létta þessu skattauppgjöri af TR. Skatturinn á einn að gera skattauppgjör. Þá á jöfnuðurinn milli einstaklinga ekki að vera hluti af félagsmálapökkum. Því þurfa lífeyrisgreiðslur að vera jafnar fyrir alla og TR á að greiða þær út, en ekki hafa önnur hlutverk. Skatturinn þarf síðan að sjá um jöfnuðinn sem eðlilegt er að fylgi málinu, þ.e. að þeir sem hafa miklar tekjur greiði meira til samneyslunnar en hinir og að þeir greiði með hækkuðum tekjum síaukinn hluta lífeyris síns aftur til baka til ríkisins.

Ef ekki er pólitískt mögulegt að taka upp almennan stighækkandi tekjuskatt eins og flest nágrannaríki búa við kæmi til mála að þeir sem eru 67 ára og eldri og öryrkjar byggju við sérstakt skattkerfi sem væri lagað að aðstæðum þeirra.

Í því efni væri hægt að fara margar leiðir og er lækkandi persónuafsláttur með hækkuðum tekjum og endurgreiddur vannýttur persónuafsláttur ein þeirra leiða sem stjórnmálamenn hafa bent á – og það er leið sem hægt væri að fara enda þótt aðeins væri eitt skattþrep (sem varla gengi í almennu skattkerfi), þar sem mikill meirihluti lífeyrisþega hefur lágar tekjur og svipaðar.“

Ritstjórn maí 31, 2018 13:32