Tekjur eldri borgara hafa lækkað í samanburði við aðra

Tekjur eldri borgara hafa hvorki haldið sjó gagnvart lágmarkslaunum né öðrum samfélagshópum á undanförnum árum, þrátt fyrir það jákvæða skref sem stigið var með kerfisbreytingunni 2017. Þannig er kjörum eldri borgara lýst í nýrri skýrslu sem Landssamband eldri borgara hefur látið gera um ellilífeyri og afkomu eldri borgara. Þetta kom fram á landsfundi eldri borgara sem nú stendur yfir á Hótel Sögu, en brýnt þykir að fá kjörin leiðrétt.

Í útdrætti úr skýrslunni segir að hækkanir ellilífeyrisréttinda almannatrygginga hafi ekki orðið í takt við aðrar hækkanir launa, hvorki í prósentum né krónum. Hefði ellilífeyrir hækkað um 105% eins og lágmarkslaun frá árinu 2010 væri hann kominn í rúmar 322 þúsund krónur á þessu ári í stað þess að vera ríflega 256 þúsund krónur. Í skýrslunni kemur líka fram að þingfararkaup hefur á þessum tíma hækkað um 125%, heildarlaun á vinnumarkaði hafi hækkað um 82% en ellilífeyrir án heimilisuppbótar hafi hækkað um 63%.

Nokkuð var um það rætt á fundinum í morgun hversu hægt gengur að leiðrétta kjör eldri borgara, þrátt fyrir ítrekuð loforð stjórnmálamanna úr öllum flokkum. Var því meðal annars varpað fram hvort breyta þyrfti baráttuaðferðunum og einn fundarmanna, Halldór Gunnarsson í Holti gekk svo langt að vilja samþykkja vantraust á stjórn LEB vegna lítils árangurs í kjarabaráttunni síðustu 10 ár. Sú krafa hans fékk ekki miklar undirtektir en ályktanir fundarins verða samþykktar síðdegis.

 

 

 

 

 

Ritstjórn júní 30, 2020 14:40