Febrúar er annar mánuður ársins samkvæmt rómverska og gregoríska dagatalinu. Nafn hans er dregið af latneska orðinu februum en það þýðir hreinsun, enda var það venja Forn-Rómverja að halda hreinsunarathöfn þann fimmtánda þess mánaðar. Upphaflega hafði febrúar aðeins 24 daga en dagatalið var endurbætt nokkrum sinnum og þegar júlíanska dagatalið varð til fékk hann sína 28 daga og einn til þegar hlaupár urðu á fjögurra ára fresti.
Rómverjar tengdu febrúar ekki bara við hreinsun heldur einnig sáningu, iðkun ýmiss konar siða til að tryggja uppskeru og þann 22. febrúar var haldin hátíðin Caristia en þá héldu menn upp á kærleikann og fjölskylduna. Fólk kom saman, borðaði góðan mat og gaf hvert öðru gjafir, ekki ólíkt okkar jólum nú. Kannski er það þess vegna sem ástin fékk sína daga í febrúar samkvæmt gregoríska dagatalinu. Valentínusardagurinn er þann 14. febrúar en dýrðlingurinn sem hann er nefndur eftir var einmitt Rómverji að uppruna og drepinn þann dag. Hann var kristinn og sætti ofsóknum fyrir trú sína.
Valentínus var uppi á þriðju öld eftir Krist og var annað hvort prestur eða biskup. Kládíus keisari hafði sett lög er bönnuðu ungu fólki að giftast. Að hans mati var ást, tryggð og einkvæni meðal fáránlegra hugmynda þessara nýju trúarbragða kristni sem hann ætlaði ekki að líða. Valentínus gifti hins vegar pör í trássi við bann keisarans og mátti líða fyrir það. Einnig var sagt að hann hafi verið tekinn höndum af dómara nokkrum í Róm og sá sagt að ef hann gæti læknað dóttur sína af blindu myndi hann láta skírast ásamt öllu heimilisfólki sínu. Valentínus tókst að lækna stúlkuna. En flestar sögur af Valentínusi eru til í nokkrum útgáfum og í einni þeirra situr hann í haldi dómarans, læknar stúlkuna af blindu og verður ástfanginn af henni. Það bjargar honum þó ekki frá bráðum bana og hann skrifar henni bréf nóttina fyrir aftöku sína og undirritar það, your Valentine og lagði þar með grunninn að Valentínusarkortunum sem Bretar og Bandaríkjamenn senda gjarnan sínum heittelskuðu þennan dag.
Íslendingar eiga sína eigin rómantísku hefð tengda febrúar mánuði. góa byrjar á bilinu 18.-24. febrúar og fyrstu dagur þess mánaðar var nefndur konudagur en þorri byrjaði á bóndadegi. Sú venja myndaðist snemma að á bóndadegi gerðu konur vel við bændur sína og þeir á móti gerðu eitthvað fyrir konur sínar á konudegi. Konurnar áttu að fagna góu og hafa yfir þessa vísu:
Velkomin sértu góa mín
og gakktu í bæinn;
vertu ekki úti vindinum
vorlangan daginn.
Á sjötta áratug síðustu aldar byrjaði sú venja að karlmenn færðu konum sínum blóm þennan dag.
Í Orkneyingasögu má lesa um uppruna heitisins þar segir frá Fornjóti konungi í Finnlandi og Kvenlandi. Hann átti soninn Þorra sem aftur átti dótturina Gói og tvo syni, Nór og Gór. Þorri var mikill blótmaður og hélt á miðjum vetri ár hvert blót sem kallaðist þorrablót. Það bar til tíðinda á einu slíku blóti að Gói hvarf og fannst ekki þótt víða væri leitað. Þremur vetrum síðar, þegar Gói var enn ófundin, strengdu bræður hennar þess heit að leita hennar, Nór um löndin en Gór um útsker og eyjar. Leituðu þeir víða og lengi um það land sem nú heitir Noregur. Loks komast þeir að því að Hrólfur nokkur úr Bjargi á Heiðmörk, sonur Svaða jötuns norðan úr Dofrum, hafði numið Gói á brott og heldur Nór til fundar við hann. Þegar Hrólfur fréttir af Nór fer hann til móts við hann og Nór býður honum til einvígis. Þeir börðust lengi og hafði hvorugur betur. Þeir sættust þá, Nór fékk systur Hrólfs en Hrólfur Gói og hafði Nór í leitinni að systur sinni lagt undir sig Noreg.
Febrúar er auðvitað stysti mánuðurinn og því hugsanlegt að tungl verði aldrei fullt í febrúar ef þannig stendur á kvartilaskiptum. Hér áður gættu menn vel að veðri fyrstu daga góumánaðar því ef þá var rysjótt veður og vont vissi það á gott sumar. Um það vitnar eftirfarandi vísa:
Ef hún Góa öll er góð,
öldin má það muna,
þá mun Harpa hennar jóð
herða veðráttuna.
Þorri og góa þóttu jafnan erfiðustu vetrarmánuðurnir og oft farið að ganga á hey og matarbirgðir þegar þorra lauk og góa gekk í garð. Þess vegna var talað um að menn þreyðu þorrann og góuna.
Stjörnumerkið vatnsberinn er ríkjandi til 18. febrúar en daginn eftir taka fiskarnir við og þeirra tími stendur til 20. mars.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.