Feimni blaðamaðurinn og stelpan á símanum

Stefán og Lilja á gangi við Tjörnina í Reykjavík árið 1971/ Kristinn Ben tók myndina

Stefán og Lilja á gangi við Tjörnina í Reykjavík árið 1971/ Kristinn Ben tók myndina

Feimni blaðamaðurinn og stúlkan á símanum á ritstjórn Morgunblaðsins þekktust ekkert þegar þau hittust á Mogganum fyrir 45 árum. En Kristinn Benediktsson ljósmyndari, sat stundum á kvöldin og spjallaði við símastúlkuna Lilju Jónasdóttur á meðan hann beið eftir því að að myndirnar framkölluðust. Hann sagði henni að blaðamaðurinn feimni, Stefán Halldórsson, væri frábær og svo skemmtilegur. Hann hvatti hana eindregið til að tala við hann. Á móti sagði hann Stefáni að hann ætti að spá í Lilju og bjóða henni á árshátíðina eða eitthvað. Stefán bauð henni á árshátíð Moggans og þau urðu par.

Hefðu kannski ekki orðið par

Stefán í vinnunni hjá Arnarflugi

Stefán í vinnunni hjá Arnarflugi

Þau áttuðu sig ekki á því fyrr en 35 árum síðar að Kristinn hefði verið lykilmaður í að koma þeim saman. Þá þótti þeim þetta mjög fyndið. Lilja sagði að líklega hefðu þau aldrei kynnst, ef Kristinn hefði ekki ýtt á þau, því Stefán hefði verið fremur feiminn við stúlkur.   Stefán skrifaði poppsíðuna í Morgunblaðinu á sínum tíma og Kristinn sem nú er látinn myndaði. Stefán fór síðar að vinna sem kennari, sjónvarpsmaður, flugrekstrarmaður hjá Arnaflugi, stjórnandi í fjármálafyrirtækjum, stjórnendaráðgjafi og árin liðu. En leiðir þeirra Kristins lágu síðar saman á ný og það varð úr að þeir myndu vinna saman ljósmyndabók sem kemur út í haust.

Myndabók úr skemmtanalífinu 1966-79

„Bókin á að heita Öll mín bestu ár, sem er tilvitnun í dægurlagatexta eftir Þorstein Eggertsson við lag sem hljómsveitin Brimkló flutti“, segir Stefán sem heldur útgáfunni til streitu þrátt fyrir fráfall Kristins. „Þessar myndir Kristins eru úr skemmtanalífinu á árunum 1966-79“, segir hann. „Þetta eru svarthvítar myndir af merkilegum tónleikum, dansleikjum, útihátíðum, tískusýningum, fegurðarsamkeppnum og fleiru. Þarna eru hljómsveitir eins og Hljómar, Flowers, Trúbrot, Ævintýri og Roof Tops“.   Hér fyrir neðan má sjá sýnishorn af þessum myndum, en þær eru allar teknar árið 1968.

 

Lilja lærði hjúkrunarfræði og vann í því fagi alveg þar til hún fór á eftirlaun. Hún sá fram á það með tilhlökkun, að geta farið á eftirlaun rúmlega 61 árs. Hún hafði alltaf verið heilsuhraust og vildi

Lilja á síðasta degi í vinnunni á Landsspítalanum

Lilja á síðasta degi í vinnunni á Landsspítalanum

hætta að vinna á meðan hún héldi góðri heilsu og sá fram á margvíslega möguleika. En þá greindist hún með brjóstakrabbamein. Hún segir að hún hafi viljað ljúka meðferðinni og koma aftur til starfa í eitt ár til að undirbúa eftirmann sinn áður en hún hætti aðvinna, sem og hún gerði. Örlögin höguðu því þannig að þegar hún veiktist var hún búin að vinna í mörg ár á dagdeild blóð- og krabbameinsdeildar Landsspítalans og hafði byggt þar upp stuðningsþjónustu við sjúklinga og ættingja þeirra.

Notaði aðferðir sem hún þekkti

Ég var að hjálpa fólki að aðlagast breyttum aðstæðum, kenndi slökun og notaði dáleiðslu, hugræna atferlismeðferð og aðrar aðferðir þar sem unnið er með samspil hugsana, tilfinninga og líkama“ segir Lilja „en við sem vinnum á sjúkrahúsunum veikjumst líka“. Hún segir að sér hafi fundist það styrkur að búa yfir þeirri þekkingu sem hún hafði. Hún hafi notað aðferðirnar sem hún þekkti. „Ég hreyfði mig daglega, því mér var ljóst hvað hreyfingin skiptir miklu máli til að halda þreki og ég notaði dáleiðslu til að slaka á og byggja mig upp. Þannig vann ég með lyfjunum og geislunum“ segir hún en hún fór fyrst í skurðaðgerð vegna meinsins. „Það var líka styrkur að ég þekkti deildina og vissi hversu faglega þar er unnið“.

Öðruvísi að upplifa krabbameinið á eigin skinni

Lilja segir að hún hafi verið vongóð, enda séu batahorfur góðar hjá fólki með hennar tegund af krabbameini. 85-90% þeirra sem fá það læknast. „Stefán var aldrei kvíðinn því ég var svo staðföst í því að allt yrði í lagi“, segir hún. En það hafi verið skrítið að vera sjúklingur og reyna á eigin skinni allt sem hún hafði verið að kenna öðrum. „Það er allt öðru vísi að upplifa sjálfur hvað þreytan er yfirþyrmandi, í stað þess að tala um það“, segir hún „það er líka óþægilegt að missa stjórnina á eigin lífi og geta ekki farið og verið innan um fólk eins og kannski var búið að reikna með, vegna þess hvað ég var lág í hvítum blóðkornum. Ég vissi aldrei hvernig ástand mitt yrði“.

Vel undirbúinn fyrir eftirlaunaárin

Stefán er ekki komin á eftirlaun og er í hlutastarfi sem ráðgjafi. Hann segist byrjaður að taka smávegis af eftirlaununum, en hann reikni með að fara á eftirlaun 67 ára gamall. Hann vann í 9 ár hjá lífeyrissjóði og þekkir því lífeyrismálin til hlítar. Hann vinnur núna við að veita ráðgjöf, ekki síst um lífeyrissjóðina og lífeyrismál. Hann er því vel undir það búinn að fara á eftirlaun, en verður var við það í sínu starfi að fólk hefur áhyggjur af því höggi sem verði í tekjuöfluninni þegar það fer á eftirlaun.

Þrengir að þegar tekjur lækka

„Fólk er með ákveðin laun og hefur tamið sér ákveðinn lífsstíl“, segir hann „ og óttast að það þrengi verulega að þegar tekjurnar lækka. Margir reyna að vinna eins lengi og þeir geta til að halda óbreyttum tekjum“. Hann segir að það fari hins vegar alveg eftir því hvernig fólk hafi hagað sínum lífeyrissparnaði, hvernig tekjurnar verði þegar það er komið á eftirlaun. „Þeir sem eru að fara á eftirlaun næstu árin eru síðustu árgangarnir sem byrjuðu ekki strax að greiða í lífeyrissjóði“, segir hann, en það var árið 1974 sem sett voru lög um að allir vinnandi menn skyldu greiða í lífeyrissjóði.

Hafa ekki safnað nægum lífeyri

Það er þannig að þeir sem hafa einungis greitt í lífeyrissjóði hluta af starfsævinni standa ver að vígi en þeir sem hafa byrjað að greiða strax. „Þeir eru ekki búnir að safna jafn miklum réttindum og hinir sem greiða inn í kerfið alla sína starfsævi“, segir Stefán sem stjórnaði viðamikilli rannsókn á högum fólks á eftirlaunaaldri, sem var gerð í fyrra, en þetta var fjölþjóðarannsókn á vegum OECD. Ísland var eitt átta landa í rannsókninni.

Ísland kom vel út í erlendum samanburði

„Ísland kom vel út í þessum samanburði, aðallega vegna öryggisnetsins hér, því að almannatryggingakerfið sér til þess að fólk sé ekki undir fátækramörkum“, segir Stefán. Hann segir það að vísu grundvallaratriði að fólk sé skuldlaust þegar það fer á eftirlaun. Hann þekki dæmi þess að fólk sem af ýmsum ástæðum er með skuldir á bakinu þegar það fer á eftirlaun, eigi erfitt. Líka þeir sem búi í leiguhúsnæði og konur sem hafi ekki haft tök á að vinna sér inn lífeyrisréttindi. „En það er ekki lífeyrissjóðakerfinu að kenna“, segir hann.

Frelsi til að gera hlutina öðruvísi

Geisladiskar Lilju

Geisladiskar Lilju

Ritstjóri Lifðu núna ræddi við þau Stefán og Lilju heima hjá þeim í Skaftahlíð í Reykjavík. Þar hafa þau búið í 25 ár. Þau eiga þrjár dætur og fimm barnabörn. Lilja starfar enn við að hlúa að þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt. Hún býður uppá einkatíma heima fyrir þá sem glíma við streitu, kvíða, verki eða aðra vanlíðan og byggir á því sem hún hefur lært og áratuga reynslu í samtölum og stuðningsviðtölum. Hún kennir fólki að nýta sér sál-líkamlegar aðferðir eins og slökun og dáleiðslu til að hafa áhrif á eigin heilsu. Þá hefur hún gefið út tvo geisladiska. „Annar er um slökun og hann hefur reynst mörgum vel“, segir Lilja. Fyrir tveimur mánuðumgaf hún út út annan disk fyrir fólk sem getur ekki sofið, vegna þess að hugsanir trufla svefninn.

Gefandi störf

Þau Stefán og Lilja eru mjög ánægð með sinn starfsferil. Lilja segir að starf hjúkrunarfræðingsins sé mjög fjölbreytt og skemmtilegt, sérstaklega fyrir þá sem hafi áhuga á mannlegum samskiptum. „Þar er alltaf verið að styrkja fólk í mismunandi aðstæðum. Það er mjög gefandi “, segir hún. Stefán segir að kennslustarfið hafi verið mest gefandi af þeim störfum sem hann hafi sinnt og það sé líka einstaklega skemmtilegt að fá að skapa eitthvað nýtt. Í raun hafi hann svo meira og minna verið að kenna eða miðla þekkingu í öllum þessum störfum.

Rými til að sinna barnabörnum og foreldrum

Það styttist í að þau verði bæði komin á eftirlaun. Þau eiga barnabörn eins og áður sagði og bæði eiga foreldri á lífi. „Það er eitt af því sem ég er svo þakklát fyrir“ segir Lilja „að hafa rými til að sinna foreldrum og tengdamóður og vera ekki í vinnu og alltaf þreytt”. Þau eru líka dugleg við að njóta lífsins og og hreyfa sig. Nú í sumar fóru þau í nokkurra daga hjólreiðaferð á landamærum Póllands og Þýskalands.

Stefán og Lilja með dætrum sínum, tengdasonum, barnabörnum og foreldrum Lilju

Stefán og Lilja með dætrum sínum, tengdasonum, barnabörnum og foreldrum Lilju

Ritstjórn ágúst 21, 2015 12:55