Að tengjast barnabörnunum sterkum böndum

Margir halda því fram að lífið verði betra eftir því sem við eldumst. Við eignumst flest börn og barnabörn. Flesta langar að tengjast barnabörnunum sínum sterkum böndum og það er ýmislegt sem við getum gert til að styrkja tengslin, jafnvel þó barnabörnin búi í útlöndum eða í öðrum landshluta. Hér eru nokkrar tillögur um hvernig hægt er að styrkja böndin milli afa og ömmu og barnabarnanna.

Afar og ömmur ættu að deila eins miklu og þau geta úr lífi sínu með barnabörnunum. Segið þeim hvað gladdi ykkur og hvað ykkur þótti gaman að gera þegar þið voruð á þeirra aldri. Segið þeim frá í hvaða leikjum þið lékuð ykkur, hvaða bíómyndir ykkur þóttu skemmtilegar og hvaða tónlist þið hlustuðuð á. Hafið uppá gömlum bíómyndum sem ykkur þóttu skemmtilegar og horfið á þær með krökkunum. Það sama getið þið gert með öll gömlu uppáhaldslögin, þið getið hlustað á þau með barnabörnunum.  Börnum finnst oft ótrúlega gaman að fá að heyra um hvernig lífið var í gamla daga.

Þegar þið eruð búin að segja þeim frá ykkar eigin æsku, vonum, draumum og því sem ykkur þótti skemmtilegt er kominn tími til að þau kenni ykkur. Fáið þau til að kenna ykkur á nýjustu snjallsímana, fara með ykkur til að horfa á uppáhaldsbíómyndirnar þeirra og hlustið saman á nýjustu lögin. Segið þeim að það sé aldrei of seint að læra eitthvað nýtt.

Börnum finnst oft mjög gaman að fá að gista hjá afa og ömmu. Það er ekki úr vegi að afar og ömmur í samráði við pabba og mömmur ákveði að börnin gisti öðru hvoru hjá afanum og ömmunni og það sé einhver regla á því. Það gefst lika góður tími fyrir afann og ömmuna að gera eitthvað skemmtilegt með barnabörnunum eins og horfa á eina og gamla og góða bíómynd. Fáið börnin líka til að koma með uppástungur að skemmtilegu kvöldi með afa og ömmu.

Ef landfræðileg fjarlægð er mikil á milli barnbarna og afa og ömmu getur verið erfiðara að viðhalda góðum tengslum en þá kemur tæknin til sögunnar. Það er til dæmis hægt að spila tölvuleiki við barnabörnin í gegnum netið.  Það er bara að leita og finna leiki sem allir ráða við. Á vefnum er fjöldi slíkra leikja og svo er hægt að kaupa þá. Flestum börnum finnst gaman að fá að leika sér við afa og ömmu.  Það getur vissulega verið erfitt að fylgjast með barnabörnunum frá degi til dags sorgum þeirra og gleði ef fólk býr fjarri hvort öðru. Sé svo er hægt að taka myndir, ekki uppstilltar myndir heldur af daglegu bardúsi, því sem fjölskydan er að fást við á degi hverjum. Myndirnar er hægt að geyma í skýi sem allir hafa aðgang að. Svo er hægt að senda myndir í tölvupósti eða í gegnum fésbók og skoða þær hvenær sem er.

Það er líka hægt að fara á skype og tala við börnin. Það er mikilvægt fyrir þau að vita hvernig rödd afa og ömmu hljómar eða annarra náinna ættingja. Hafið í huga að það getur verið gott að taka frá ákveðinn tíma nokkrum sinnum í viku til að tala saman. En þrátt fyrir alla tækni þá er samt sem áður ekkert sem kemur í stað þess að hittast og eiga notalega stund saman.

Ritstjórn maí 25, 2018 10:21