Hlýddum þríeykinu í einu og öllu

Frá því í mars hefur COVID faraldurinn haft áhrif á allt líf fólksins í landinu, sem hefur breyst á margvíslegan hátt, eins og líf nánast allra jarðarbúa. Að heilsast með handabandi hefur til að mynda að mestu verið aflagt og margir faðma ekki lengur vini og ættingja. Lifðu núna hafði samband við sjö einstaklinga til að forvitnast um áhrif COVID á líf þeirra. Þeir áttu það allir sammerkt að hafa ekki veikst af veirunni.

Covid-skeiðið hefur verið eitt það sérstakasta í mínu lífi, líkt og margra annarra. Ég fylgdist náið með fréttum af þessum vágesti sem breytti daglegu lífi fólks um alla heimsbyggðina. Ég þurfti að hugsa margt upp á nýtt, hvað varðaði daglegt líf og faraldurinn leiddi huga minn inn á nýjar brautir.

Sagði einn viðmælenda en annar sagði að faraldurinn hefði lítið snert sig.

En ég hef ríka samúð með þeim sem veiktust, þeim sem höfðu lítið stuðningsnet í kringum sig og þeim sem þurftu að hírast í litlu rými og halda börnum sínum innandyra. Í kringum mig var það bara bróðir minn sem fékk COVID með vægum einkennum.

Maður var uppteknari af áhyggjum annarra en sjálfs sín“, sagði annar.

Verandi frískur og hreyfanlegur væsti ekkert um mann og lífið á okkar aldri er orðið einfaldara en oft fyrrum. Hremmingar annarra og áhrif á atvinnulíf og efnhag voru og eru manni stöðugt umhugsunarefni. Annars hefur manni lærst sú lífsregla að láta hverjum degi nægja sína þjáningu og hafa ekki of miklar áhyggjur af sínum persónulegum afdrifum. Súrast var að geta ekki umgengist nýfædda dótturdóttur eftir að Covid brast á og missa svo af margboðaðri skírn Vöndu litlu á Hofi í Vopnafirði vegna nýrra takmarkana í ágúst.

Faraldurinn hafði mikil áhrif allt í kringum mig og breytti hegðun á margan hátt, sagði annar viðmælandi og enn annar lýsti því þannig, hvernig faraldurinn snerti hans líf:

Það var í lok febrúar þegar við hjónin vorum á leið til Kanaríeyja að við fréttum af fyrsta Covid 19 smitinu á Íslandi. Fylgst var með fréttum og senn barst veiran til Gran Canary og eftir tvær vikur var öllu skellt í lás  nema apótekum og matvöruverslunum. Farið var að safna löndum okkar í vélar til heimferðar og við hjónin fylgdum straumnum og fórum heim fyrr en ætlað var í tveggja vikna sóttkví. – Þegar heim var komið þá sendum við börnum okkar lista yfir matvöru, sem þau færðu okkur heim að dyrum. Samskipti urðu ágæt. Við keyrðum til þeirra og röbbuðum um daginn og veginn ýmist fyrir framan svalir eða útidyr. Hræðsla var ekki inn í myndinni en auðvitað þurftum við að passa okkur. Við hlýddum þríeykinu í einu og öllu.

„Þetta er ansi stór spurning“, sagði einn viðmælenda aðspurður hvernig COVID hefði snert hans líf.

Ég get þó ekki annað sagt en að í upphafi snerti Covidið mig illa og skapaði áhyggjur, óöryggi og jafnvel hræðslu. Þegar fyrstu smitin fóru að berast hingað til lands og ljóst var að faraldurinn væri í alvöru að fara að geisa hér, skapaði það óöryggi hjá mér. Mér fannst þó fljótt að málin væru tekin föstum tökum og miklum og góðum upplýsingum og leiðbeiningum komið til fólks frá stjórnvöldum og fagfólki sem maður treysti strax og þá hvarf hræðslan. Það var þó erfitt að fylgjast með fréttum af mikið veiku fólki og dauðsföllum. Ég þekki þó engan sjálf sem varð verulega veikur en afleiðingar faraldursins hafa snert mig með þeim hætti að fólk í fjölskyldunni hefur misst vinnuna.

Annar viðmælandi sagðist í fyrstu hafa verið óviss um hvað væri í gangi. En síðan hefði fylgt öryggisleysi og ótti við að fara í sund eða vera í margmenni. Í hópnum sem við leituðum álits hjá, voru fjórir sjálfstætt starfandi einstaklingar sem vinna heima, eða hafa skrifstofuaðstöðu úti í bæ. COVID hafði takmörkuð áhrif á störf þeirra og sama gilti um fólk sem er hætt störfum vegna aldurs.

Jafnaðarlega sinnum ég og eiginkonan ýmsum verkefnum og viðfangsefnum heiman frá og höfum gert til margra ára. Við höfum til þess góðar aðstæður, bæði sérstakar skrifstofur, og gátum því að mestu haldið okkar rútínu. Svo er ég hér á Þórsgötu í miðborginni í göngufæri við ýmsa aðila sem ég er að vinna með og ég hef líka haldið þeirri rútínu að mestu að hitta þá þótt stærri fundir og samkomur hafi verið slegnar af. Skjáfundir mínir hafa því flestir verið inná fundum hjá samstarfsaðilum. Aðrir innan okkar fjölskyldu hafa lent í að þurfa að vinna að heiman við miklu þrengri aðstæður og barnastúss og það er ekkert grín. Millidóttir okkar við eldhúsborðið hér Reykjavík og sú elsta við sitt eldhúsborð í Ottawa þar sem hún er framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Kanada og hefur verið á látlausum skjáfundum síðan COVID byrjaði innan Kanada og Norður-Ameríku.

Einn viðmælandinn hafði eftirfarandi að segja um áhrif Covid.

Faraldurinn hafði áhrif á mitt daglega líf þannig að ég breytti ýmsum venjum samkvæmt  leiðbeiningum sóttvarnaraðila. Hugaði meira að hreinlætisaðgerðum, handþvotti og fleiru, var meira heima og minna á ferðinni meðal fólks, hafði minna samneyti við fjölskyldu og vini, fór í færri búðarferðir og menningarferðir, enda allt fellt niður. Hætti að vinna á þessum tíma og gat þá verið mikið heima við og fór nánast í sjálfskipaða sóttkví. Fannst það ekki verulega erfitt þar sem allir í kringum mig voru í sömu aðstæðum og mikil samkennd í gangi og allir að fara mjög varlega í öllum samskiptum.

Starfslok þessa viðmælanda urðu öðruvísi en stefnt hafði í fyrir Covid.

Ég hætti því í miðjum faraldri en mætti í vinnu fram að því. Gat til dæmis ekki almennilega kvatt vinnufélagana vegna breyttra reglna um samskipti og var það skrítið og leitt. Verkefni og innra skipulag á vinnustaðnum hafði þá mikið breyst en allir mættu til vinnu.

Annar viðmælandi stóð frammi fyrir því að vera á leið í verkefni erlendis. „Ég varð að gefa frá mér verkefni sem vinna átti í Kaupmannahöfn, þar sem mér hugnaðist alls ekki að fara utan“, sagði hann.  Enn annar viðmælandi sagði að sér hefði fundist meiri ró yfir öllu og minni pressa á Covid tímanum „Mér fannst ég ekki stöðugt þurfa að mæta einhvers staðar eða vera að gera eitthvað. Mér fannst þetta yndislegur tími“. Þessi viðmælandi sagði einnig:

Á þessum tíma þvoði maður sér oftar og betur um hendurnar og gætti meira hreinlætis en nokkru sinni fyrr. Ég spurði barnabörnin mín hvað þau hefðu lært af Covid. Yngsta barnabarnið sagði: “Ég lærði að þvo mér almennilega um hendurnar“

Hópurinn sem var svo vinsamlegur að leggja okkur lið í umfjölluninni um COVID er: Bjarki Bjarnason, Einar Karl Haraldsson. Hrafnhildur Schram, Kristín Erlingsdóttir, Kristín Jónsdóttir, Sigrún Ásmundsdóttir og Þorgeir Baldursson og kunnum við þeim öllum bestu þakkir.

Ritstjórn september 23, 2020 07:16