Á vef stjórnarráðsins er að finna fréttatilkynningu og myndir frá Haustdegi Gott að eldast. Margt fólk tók þátt í deginum en þar var farið yfir árangur undanfarinna ára og verkefni framundan:
Haustdagur Gott að eldast fór fram á dögunum en þar kom saman fólk héðan og þaðan af landinu sem tekur þátt í þróunarverkefnum um samþætta heimaþjónustu. Sex heilbrigðisstofnanir og 22 sveitarfélög voru í fyrra valin til þátttöku í verkefnunum og á haustdeginum hittist fólk af öllum svæðunum í fyrsta skipti.
Með aðgerðaáætluninni Gott að eldast taka stjórnvöld utan um þjónustu við eldra fólk með nýjum hætti. Ein meginaðgerð áætlunarinnar er að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum. Markmið þróunarverkefnanna er að finna góðar lausnir hvað þetta varðar og flétta saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin. Öll þjónusta fyrir eldra fólk í heimahúsum er þá á hendi eins aðila.
Haustdagurinn var fyrir starfsfólk þeirra svæða sem taka þátt í þróunarverkefnum um samþætta þjónustu og kynnti það hvert fyrir öðru hvernig gengið hefði og hvað væri fram undan í vetur. Þá fluttu ráðherrar Gott að eldast ávörp en það eru þeir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.
Eldra fólk virkara og hraustara en nokkru sinni fyrr
„Haustdagurinn gekk afar vel og það var magnað að sjá og heyra hvernig gengur að samþætta heimaþjónustuna vítt og breitt um landið. Aldurssamsetning þjóðarinnar breytist nú hratt og eldra fólk er virkara og hraustara en nokkru sinni fyrr, auk þess að búa miklu lengur heima en áður. Þjónusta við eldra fólk þarf að þróast í takt við þetta og að því vinnum við nú hörðum höndum ásamt breiðfylkingu af fólki út um landið,“ segir Berglind Magnúsdóttir, verkefnastjóri Gott að eldast.
Á haustdeginum voru einnig flutt erindi um heimaendurhæfingu, vitundarvakningu um félagslega einangrun, tölfræði frá KPMG, áhugaverðar áherslur í þjónustu við eldra fólk og framtíðarsýn Gott að eldast. Þá sýndi starfsfólk Gott að eldast myndband með yfirliti yfir áfanga síðustu mánaða.
Haustdeginum lauk með hraðstefnumóti þar sem þátttakendur kynntust fólki frá öðrum svæðum á landinu og eignuðust vini í verkefninu.
- Sjá nánar: Dagskrá haustdagsins 2024
Fundarstjórar voru þau Líney Úlfarsdóttir og Svavar Knútur.