Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar:
Hvernig ætli sú hugmynd hafi fæðst hjá stjórnvöldum að nefna lélegt fjármálalæsi hjá almenningi sem eina af helstu skýringum á fjárhagsvandræðum fólks? Þetta er einmitt gert í greinargerð frá fjármála- og efnahagsráðherra með fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Svona skýring á fjárhagsvanda er vægast sagt furðuleg. Hún gæti verið til vitnis um yfirgripsmikla vanþekkingu á aðstæðum fólks, sem er alls ekki ólíklegt. En hún gæti allt eins verið enn eitt dæmið um einbeittan vilja til að afvegaleiða umræðuna og beina sjónum að allt öðru en því sem máli skiptir.
Rétt er að taka fram, að út af fyrir sig er það ekki vitlaus hugmynd að stjórnvöld stuðli að því að bæta fjármálalæsi almennings. En að það sé ein helsta áskorunin á sviði fjölskyldumála á sama tíma og ákveðnum þjóðfélagshópum er haldið í fátæktragildru er fáránlegt. Opinber framfærsluviðmið, sem til að mynda umboðsmaður skuldara miðar við, sýna svo ekki verður um villst, að bætt fjarmálalæsi þeirra sem eru á lægstu launum myndi engu breyta um möguleika þeirra. Laun ákveðins hóps fólks duga einfaldlega ekki fyrir framfærslu. Svona hefur þetta verið í langan tíma. Og svona virðist þetta eiga að vera enn, að minnsta kosti næstu árin. Það hefði mátt halda að flestir vissu þetta.
Skýringar fjármálaráðherra í tengslum við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar varðandi fjárhagsvandræði fólk, og ekki síður yfirlýsingar hans um það hve lágmarkslaun öryrkja og aldraðra hefðu hækkað mikið á umliðnum árum, sem var reyndar hreint og klárt bull af hans hálfu, eru ósannfærandi. Skrif og yfirlýsingar einhverra af aðstoðarmönnum ráðherrans, og annarra áhangenda hans, á samfélagsmiðlum og víðar, hafa því miður verið af svipuðum toga. Ein úr þessu liði greindi til dæmis frá því um daginn, að þegar hún keypti sína fyrstu íbúð, á meðan hún var í námi, þá hefði hún þurft að aka um á gamalli bíldruslu. Þetta hlýtur að hafa verið svakalegt, eða hvað? Svona fáránleiki dregur oft athyglina að öðru.
Ef þeir sem stjórna hugsa í alvörunni eins og orð og yfirlýsingar þeirra eru til vitnis um, í sambandi við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og reyndar einnig við ýmis önnur tækifæri í gegnum tíðina, er þá hægt að búast við miklum skilningi úr þeirri áttinni á þörfum fólks almennt? Varla. Þetta virðist eiga við varðandi bætur og laun öryrkja, elllilífeyrisþega og láglaunahópa almennt, kjarasaminga ýmissa mikilvægra hópa fólks og aðstæður á húsnæðismarkaði sem og hvað annað sem snýr að brýnustu þörfum almennings. Enda hefur komið skýrt fram að undanförnu, að sumir stjórnmálamenn, að minnsta kosti, eiga ákaflega auðvelt með að ýta prinsippum til hliðar. Það er ekki við miklu að búast af slíku fólki.
Með því að beina sjónum að meintu lélegu fjármálalæsi hjá almenningi, sem einni helstu skýringunni á fjárhagsvandræðum fólks virðist vanþekking stjórnvalda á raunverulegum aðstæðum fólks vera staðfest. Hins vegar verður ekki annað séð en að viljinn til að hafa þetta svona sé einbeittur.
Óháð því á hvaða stigi fjármálalæsi almennings er þá er ljóst, nú eins og alltaf áður, að á meðan til er fólk sem hefur ekki nægjanleg laun til framfærslu þá verða fjárhagsvandræði. Það er voðalega vinsælt á meðal þeirra sem vilja ekki ræða um hinn raunverulega vanda í þessu sambandi að vísa til einhverra kannana eða rannsókna sem sýni að dregið hafi úr launamun hér að landi á umliðnum árum. Það skiptir akkúrat engu máli fyrir þá sem eru á lægstu laununum. Hvort sem laun toppanna eða meðallaunin í samfélaginu eru fimm sinnum, tíu sinnum eða jafnvel hundrað sinnu hærri en lágmarkslaunin, þá verða þeir sem eru á lægstu laununum í fjárhagsvandræðum, svo lengi sem laun þeirra duga ekki fyrir framfærslu. Svona einfalt er þetta. Orðagjálfur breytir þar engu um.