Ég færi þér fjöll eftir Kristínu Marju Baldursdóttur er saga um ástina. Hvernig hún kviknar, endist eða endist ekki og hvernig minningarnar geta ýmist fegrað eða afbakað raunveruleikann. Hér koma líka við sögu fjölskyldutengsl og togstreita innan fjölskyldna. Hvernig allir hafa sín markmið og skoðanir og eru mislagnir við að troða þeim upp á aðra og stjórna fólkinu í kringum sig.
Þau Sigyn og Manuel hittast þegar hún er við spænskunám í Valencia ung að árum. Þau verða ástfangin og ætla að giftast og fara burtu saman og byrja nýtt líf. Af því verður ekki. Manuel bíður eftir Sigyn en þegar hún kemur er hann farinn. Hún snýr þá heim til Íslands í djúpri sorg en minningin og manninn sem hún elskaði fylgir henni upp frá því. Hið sama á við um Manuel. Hann nær aldrei að tengjast annarri konu sömu böndum og þegar hann á miðjum aldri upplifir tómrúm í lífi sínu ákveður hann að heimsækja Ísland. Á sama tíma er Sigyn á leið til Spánar og þau mætast á flugvellinum án þess að átta sig á hver er á ferð.
Síðar kemur að í ljós að fyrir furðulega tilviljun er Sigyn búin að leigja airbnb-íbúð af systur Manuels og hann airbnb-íbúð af móður hennar og stjúpa. Það er óhjákvæmilegt að komi til uppgjörs og nú spurning hvort elskendurnir nái saman að lokum. Kristín Marja kann vel að segja sögur og þarna koma fyrir skondin atvik og skrýtnar persónur sem skreyta hverja frásögn.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.