Ruth Galloway er réttafornleifafræðingur. Hún er auk þess, greind, sjálfstæð og fullkomlega sátt í eigin skinni þrátt fyrir að vera í yfirþyngd og hafa alla ævi fengið að finna fyrir fordómum annarra gagnvart útliti sínu. Hún er ófrísk eftir vin sinn, Harry Nelson, sem er giftur annarri og Ruth veit ekki hvernig hún á að segja honum hvernig komið er. Hún veit bara að þetta einnar nætur ævintýri þeirra skilaði þessu og hún er full hamingju og tilhlökkunar þegar hún hugsar til barnsins sem er í vændum.
Líklega þætti flestum þetta næg vandamál en það syrtir enn í álinn hjá Ruth þegar hún er kölluð til þegar bein barns finnast undir dyrahellu á byggingarlóð. Höfuð barnsins finnst á öðrum stað og hið sama á við um beingrind kattar sem einnig er grafin upp. Nelson er lögreglumaður og þegar í ljós kemur að beinin eru ekki frá tímum Forn-Rómverja kemur í hans hlut og samstarfsmanna hans að skoða sögu hússins og reyna að finna út hvaða barni beingrindin tilheyrði.
Bækurnar um Ruth Galloway eftir Elly Griffiths njóta gríðarlegra vinsælda í Bretlandi um þessar mundir. Þær gerast í saltmýrum Norður-Norfolk en þar er bæði að finna mikið af fornminjum og einstakt vistkerfi. Ruth Galloway elskar þetta umhverfi og vill hvergi annars staðar búa. Áður hafði komið út Mýrarstúlkan en þessi nýjasta heitir Janusarsteinninn. Það er sannarlega táknrænn titill fyrir efni bókarinnar því Ruth stendur á krossgötum. Framtíðin er fólgin í barninu sem hún ber undir belti og á sama tíma grefur hún í fortíðinni í leit að vísbendingum um söguna og einnig til að koma upp um gömul myrk leyndarmál. Latnesk setning kemur aftur og aftur fyrir í sögunni, hún stendur á steinboga sem byggður hafði verið við húsið þar sem beinin finnast, allt breytist, ekkert eyðist.
Elly Griffiths nær að skapa bæði skemmtilegar og trúverðugar persónur. Það er líka eitthvað heillandi og gott við að réttlætið sigri að lokum, að það sé sama hversu lengi menn geta logið og falið spor sín fyrr eða síðar komist upp um óþokka og þeir þurfi að taka afleiðingum gerða sinna.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.