Frábærlega ofin saga um ástir og mögnuð örlög

Hekne-vefurinn er önnur bókin í því sem höfundurinn Lars Mytting hefur gefið út að sé trílógía. Sagan fjallar í meginatriðum um prestinn Kai Schweigaard sem í fyrri bókinni Systraklukkunum, réðst til Bútanga í Guðbrandsdal og var ætlað það hlutverk af biskupi sínum að aðstoða við að taka niður forna stafkirkju, selja hana til Þýskalands og byggja nýja kirkju yfir söfnuðinn. Kai er ungur, sannfærður í trúnni og ætlar að útrýma hjátrú í þessu afskekkta byggðarlagi. Áform hans verða hins vegar að engu þegar kirkjan, klukkurnar í turni hennar og sögur af samvöxnum, dverhögum tvíburasystrum verða æ stærri hluti tilveru hans.

Sysurnar voru upp á sextándu öld og voru listavefarar. Þegar þær dóu var faðir þeirra, Erik Hekne svo trylltur af sorg að hann bræddi alla málma sem hann komst yfir og eyddi nær öllum ættarauðnum í að steypa tvær kopar klukkur, blandaðar silfri og gaf stafkirkjunni fornu til minningar um dætur sínar. Fólkið í dalnum trúir að það viti ekki á gott að taka klukkurnar niður og aðskilja þær. Það er engu að síður gert en ekki vill betur til en svo að önnur klukkan fellur ofan í stöðuvatnið í dalnum og engin leið að ná henni upp eða sagan segir að til þess þurfi tvo bræður af Hekne-ætt sem engin systkini komi á milli.

Kai verður einnig ástfanginn en Astrid Hekne, en síamstvíburasysturnar voru af hennar ætt. Astrid endurgeldur ekki ást hans því ungur þýskur arkitekt á hug hennar allan. Þessi ástarþríhyrningur getur ekki endað vel og í lok Systraklukknanna fæðir Astrid tvíbura. Hún segir Kai að annað barnið hafi dáið í fæðingu en hann fer heim með hinn drenginn og lofar að gæta hans vel. Þegar Hekne-vefurinn hefst hefur Jehans Hekne slitið öllu sambandi við Kai. Presturinn saknar hans og óskar þess heitast af öllu að gróa megi um heilt milli þeirra. Hann vill umfram allt bæta fyrir sinn þátt í að kirkjan og klukkurnar voru teknar niður og standa við loforð sem hann gaf Astrid á dánarbeði eða líta eftir drengnum hennar.

Hjátrú, iðrun og guðsótti

Kai er góður maður, vissulega brenndur í afli lífsins og sú reynsla hefur mýkt hann en ekki hert. Trúna hefur hann misst þótt hann haldi áfram að gegna embættisverkum. Hann þráir heitt að finna Hekne-vefinn, síðasta listaverkið sem systurnar ófu áður en þær dóu og er sagt sýna heimsenda. Sagt var að þær systur sæju fyrir hið óorðna og að þær væfu sýnir sínar í vefmyndirnar í vefstólnum. Auk þess að draga upp Skraparotsnóttina eða heimsenda er sagt að Hekne-vefurinn sýni hvernig síðasti prestur á Bútanga láti lífið.

Jehans Hekne á hinn bóginn langar en á erfitt með að teygja fram sáttahönd til prestsins. Hann býr hjá leiguliðum á óðalinu Hekne, sem móðurbróðir hans stýrir. Oswald sýnir Jehans frænda sínum ekkert annað en hatur og lítilsvirðingu. Jehans er snjall veiðimaður og reynir að veita hreindýr til að greiða leiguna. Uppi á heiðinni kynnist hann skoskum veiðimanni, Victori Harrison, sem á sér norska móður. Þeir smella saman og það er eins og að milli þeirra liggi einhver djúp taug.

Sagan flyst reglulega milli þessara þriggja manna og lesandinn fylgir þeim frá aldamótum tuttugustu aldar og fram yfir fyrri heimstyrjöld. Nútíminn hefur innreið sína á Bútanga og það er Jehans Hekne sem leiðir hann. Rafmagnið lýsir upp húsin og léttir mjólkurstúlkunum störfin. Victor heillast af fluginu og skömmu eftir að Wright-bræður fljúga sinni flugvél í fyrsta sinn eignast hann sína eigin vél. Hann gerist orrustuflugmaður en Kai heldur áfram leit sinni að vefnum og heldur í vonina um að verði klukkunni lyft af botni vatnsins boði það betri tíð fyrir dalabúa, Jehans, Victor og hann sjálfan.

Hekne-vefurinn eins og Systraklukkurnar er frábærlega ofin saga. Persónurnar eru sérlega lifandi og áhugaverðar og þráðurinn milli sextándu aldar samvaxinna systra og þeirra atburða sem bækurnar hverfast um er margslunginn og skemmtilegur. Þetta er miðjubók í þríleik og stundum er það svo að fyrsta bókin og sú síðasta ná að skyggja á þá í miðið. Nú vantar lokahnykkinn á þessa seríu en það er erfitt að sjá að Hekne-vefurinn geti orðið sístur þeirra því hann gefur Systraklukkunum ekkert eftir og er hreinlega mögnuð bók. Það er varla hægt að leggja hana frá sér því svo spenntur er lesandinn að vita hvernig fer fyrir þessum mönnum sem allir berjast við einmanaleikann, það vantar eitthvað í líf þeirra allra, yfir þeim vofir óklárað verk eða þörf til að binda aftur bönd sem hafa verið slitin. Þetta er frábær bók og allir unnendur góðra skáldsagna ættu að lesa hana en ef þeir eiga Systraklukkurnar eftir þá endilega byrja þar því það er þess virði.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júlí 17, 2024 07:00