Ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttir hefur verið kynnt og hefur lagt fram stjórnarsáttmála. Þar er meðal annars fjallað um stefnuna í málefnum eldra fólks. Guðmundur Ingi Guðbrandsson frá Vinstri grænum fyrrverandi umhverfisráðherra er nýr ráðherra málaflokksins.
Í stjórnarsáttmálanum segir:
Ein stærsta breytingin á samsetningu samfélagsins næstu árin er fólgin í því að þjóðin er að eldast. Mikilvægt er að stuðla að heilbrigði og lífsgæðum fólks með áherslu á lýðheilsu og að fólki sé gert kleift að nýta hæfileika sína og krafta. Við ætlum að auðvelda eldra fólki að búa sem lengst heima með viðeigandi stuðningi og þjónustu. Áfram þarf að þróa fjölbreyttari búsetu- og þjónustuleiðir, svo sem sveigjanlega dagþjálfun, og nýta tækni og nýsköpun í þjónustu við eldra fólk. Sérstaklega verður lögð áhersla á heilsueflandi aðgerðir til að sporna gegn félagslegri einangrun og einmanaleika. Einnig viljum við horfa til aukins sveigjanleika í starfslokum hjá hinu opinbera.
Um stóru áskoranirnar í verkefnum ríkisstjórnarinnar er kafli um eldra fólk sem hljóðar þannig.
-
Stefna í þjónustu við eldra fólk frá 2021 verður grundvöllur vinnu við aðgerðaáætlun til fimm ára í samstarfi við sveitarfélög, samtök eldri borgara og þjónustuaðila, jafnt opinbera og sjálfstætt starfandi. Skipuð verður verkefnisstjórn í breiðu samráði til að vinna að þessum markmiðum og fylgja eftir þeirri vinnu sem unnin hefur verið, m.a. með drögum að frumvörpum og þingsályktun. Einstaklingurinn á að vera hjartað í kerfinu og hafa aðgang að samþættri þjónustu, heimahjúkrun og stuðningsþjónustu.
-
Áfram verða þróaðar fjölbreyttari búsetu- og þjónustuleiðir til að auðvelda eldra fólki að búa sem lengst heima, svo sem með sveigjanlegri dagþjálfun, og nýta tækni og nýsköpun í þjónustu við eldra fólk. Sérstaklega verður lögð áhersla á heilsueflandi aðgerðir til að sporna gegn félagslegri einangrun og einmanaleika.
-
Eldra fólki verður gert kleift að vera virkir þátttakendur á vinnumarkaði, m.a. með auknum sveigjanleika í starfslokum. Horft verður til aukins sveigjanleika í starfslokum hjá hinu opinbera.
-
Afkoma ellilífeyrisþega verður áfram bætt og sérstaklega litið til þeirra sem lakast standa. Almannatryggingakerfi eldri borgara verður endurmetið og frítekjumark atvinnutekna tvöfaldað um næstu áramót. Horfa þarf til þess að draga úr jaðaráhrifum tekjutenginga og tekjuskatts í almannatryggingum og gera kerfið gagnsærra og réttlátara.
-
Mæta þarf sérstaklega þeim sem búa við háan húsnæðiskostnað með auknum stuðningi og auka framboð af ódýru leiguhúsnæði fyrir aldraða í samstarfi við sveitarfélögin og samtök aldraðra, m.a. í almenna íbúðakerfinu.