Vilja sérstakan ráðherra eldri borgara og öryrkja

Nú þegar alþingiskosningar nálgast óðfluga skoðar Lifðu núna stefnuskrá stjórnmálaflokkanna í málefnum eldra fólks. Fyrstur í röðinni er Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, en hann býður fram undir listabókstafnum O í kosningunum laugardaginn 25. september næstkomandi.

Í stefnuskrá Frálslynda lýðræðisflokksins segir m.a. um málefni eldri borgara að flokkurinn vilji ekki skerða „lífeyrislaun“ þeirra vegna tekna úr lífeyrissjóði. Lífeyrissjóður sé okkar eign sem við höfum öll unnið fyrir og megi á engan hátt skerða með tekjutengingum vegna launa úr almannatryggingakerfinu. „Við lítum svo á að það sé þjófnaður á sparnaði fólks sem hafði ekki val um hvort það greiddi í þann sparnað eður ei. Eign í lífeyrissjóði var alltaf hugsuð sem VIÐBÓT við þau grunnlaun sem fólk ávann sér með sköttum í almenna kerfinu.“

Þá vill Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn að stofnað verði sérstakt ráðuneyti fyrir eldri borgara og öryrkja. „Það er skylda okkar og við verðum að hugsa vel um fólkið sem ruddi brautina og þá sem minna mega sín, en ríkisstjórnir fyrri ára hafa ekki náð tökum á vanda þessa fólks.“

Segir í stefnuskránni að þessir hópar hafi ekki fengið lausn sinna mála á þessu kjörtímabili og að það sé ekki á dagskrá núverandi stjórnarflokka að bæta hag þeirra.

Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn er nýr flokkur sem Guðmundur Franklín Jónsson hagfræðingur stofnaði fyrir ári. Hann er formaður flokksins og skipar fyrsta sætið í Reykjavík norður.

Glúmur Baldvinsson, sem skipar fyrsta sætið á lista flokksins í Reykjavík suður, skrifaði nýverið stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann vék að málefnum eldri borgara:

Vefur Frjálslynda lýðræðisflokksins er á slóðinni x-o.is.

Ritstjórn september 10, 2021 11:00