Vilja ráðast í endurskipulagningu á málaflokki eldra fólks

„Aldur skiptir ekki máli, heldur einstaklingurinn,“ segir í kosningastefnu Framsóknarflokksins í málefnum eldri borgara. Flokkurinn vill ráðast í endurskipulagningu á málaflokki eldra fólks með hliðsjón af reynslunni af endurskipulagningu opinberrar þjónustu við börn sem unnin var á kjörtímabilinu. „Lykilatriðið er aukin samvinna innan kerfisins,“ segja framsóknarmenn.

Í stefnuskránni kemur fram að Framsókn vilji afnema reglur um að fólk fari á eftirlaun eða hætti störfum við ákveðinn aldur. „Þeir sem vilja áfram vera virkir á vinnumarkaði eiga að hafa kost á því ef vilji bæði launafólks og vinnuveitanda stendur til þess.“

Framsóknarmenn leggja áherslu á að almenna frítekjumarkið hækki í skrefum og að lífeyrisskerðingar vegna atvinnutekna verði afnumdar. Flokkurinn vilji mæta þeim verst stöddu og horfi þá sérstaklega til húsnæðismála. „Flestir þeir sem búa við bág kjör búa í mjög skuldsettu húsnæði eða greiða háa leigu.“

Þá ljær Framsókn máls á því að útfæra hlutdeildarlán fyrir fleiri hópa en fyrstu kaupendur og vilja þeir líta sérstaklega til eldra fólks í því sambandi.

Flokkurinn vill gera átak í uppbyggingu heimahjúkrunar og dagþjálfunarrýma, fjölga endurhæfingarúrræðum og skapa fjölbreyttari þjónustu sem styður eldra fólk til að búa sem lengst heima hjá sér. „Með því móti getur það haldið sjálfstæði sínu, sjálfræði, reisn og virðingu m.a. með fyrirbyggjandi aðgerðum.“

Þá segist flokkurinn leggja áherslu á aukna og samhæfða heimaþjónustu, sveigjanleg dagþjálfunarúrræði, aukna tæknivæðingu og markvissan stuðning við aðstandendur eldra fólks. „Stórefla þarf samstarf milli félags- og heilbrigðisþjónustunnar m.a. svo að þjónustan sé persónumiðuð og sé að mestu veitt á heimilum fólks.“

Framsókn vill jafnframt stórefla heilbrigðisþjónustu utan sjúkrastofnana, sérstaklega fyrir eldra fólk. „Finnar hafa náð þar eftirtektarverðum árangri við að hjálpa eldra fólki að varðveita sjálfstæði sitt og virka samfélagsþátttöku. Hugsa þarf þjónustuna í samræmi við aðstæður, möguleika og vilja hvers og eins,“ segir í kosningastefnunni.

Sigurður Ingi Jóhannsson er formaður Framsóknarflokksins og skipar efsta sætið í Suðurkjördæmi. Flokkurinn býður fram undir listabókstafnum B í alþingiskosningunum 25. september næstkomandi.

Nálgast má kosningastefnu Framsóknarflokksins í heild með því að smella á eftirfarandi slóð: framsokn.is/malefnin.

Ritstjórn september 21, 2021 11:00