Í ár eru hundrað þrjátíu og eitt ár frá því að Nína Sæmundsson fæddist í Nikulásarkoti í Fljótshlíð. Afmælisdagurinn hennar er 22. ágúst og að því tilefni var afsteypa af styttunni hennar Afrekshugur – Spirit of Achievement afhjúpuð á Hvolsvelli. Þessi stytta er meðal fallegustu listaverka íslensks listamanns að mati þeirrar sem þetta skrifar, enda vann hún samkeppni um listaverk sem skreyta átti framhlið nýs hótels sem opnaði dyr sínar 1. október 1931 eða sjálft Waldorf-Astoria-hótelið við Park Avenue í New York. Styttan stóð yfir innganginum fyrstu árin og var svo glæsileg að eftir var tekið. Seinna var hún tekin niður og komið fyrir í móttöku hótelsins. Einnig voru gerðar litlar afsteypur af henni og þær meðal annars skreyttu bíla sem notaðar voru til að keyra gesti hótelsins, en þeir voru ekki í hópi þeirra verst settu í samfélaginu, um New York. Í dag eru þessar styttur safngripir og seljast fyrir góðar upphæðir á uppboðs- og sölusíðum.
Það er vel við hæfi að Afrekshugur fái heimili á Hvolsvelli en það er næsti bær við bernskuheimili hennar. Nikulásarhús voru ekki stórbýli og eiginlega má segja að það beri vott um mikinn afrekshug að Nína hafi náð jafnlangt og raunin var. Bæði tókst henni að brjótast til mennta en einnig að ná frama í höggmyndalist sem hennar samtíð taldi ekki á kvenna færi. Ekki þótti almennt við hæfi að konur væru að vasast í myndlist en helst var vatnslitamálun talin vera miðill sem konur gætu náð valdi á.
Foreldrar Nínu vildu að hún lærði matreiðslu og yrði kokkur en til allrar lukku fór hún ekki eftir ráðleggingum þeirra. Nína stundaði nám í Kaupmannahöfn en þar nam hún m.a. við hina Konunglegu listaakademíu. Ekki leið á löngu þar til verk Nínu voru sýnd á sýningum bæði hér heima og erlendis. Árið 1921 dvaldi Nína í Róm en nokkrum árum seinna bauðst henni að sýna í New York og þá varð ekki aftur snúið, næstu þrjá áratugina bjó Nína og starfaði í Bandaríkjunum. Þar naut hún mikilla vinsælda sem portrettlistamaður auk þess sem hún vann mörg stór verkefni og má m.a. nefna Prómþeif í Los Angeles og minnisvarða um Leif Eiríksson.
Víða á Íslandi er að finna verk eftir Nínu t.d. er Móðurást í Lækjargötu í Reykjavík, Maríumynd í Selfosskirkju, Rökkur á Sólheimum í Grímsnesi, Ung móðir við Hlíðarendakirkju í Fljótshlíð og fyrir nokkrum árum var Litlu hafmeyjunni eftir hana komið fyrir í Reykjavíkurtjörn en frummynd þeirrar styttu var sprengd í loft upp á nýársnótt árið 1960. Helsta ástæðan fyrir því var að á þessum árum var nútímalist að ryðja sér til rúms hér á landi miklar deilur voru milli þeirra er skipuðu sér í raðir uppreisnarmanna gegn hefðinni og hinna sem töldu list eiga fylgja hefðum og ákveðnum kröfum um raunsæi. Auk þess var Nína samkynhneigð og vera kann að fordómar hafi haft ýmislegt með þetta að gera. Vitað er að Nína tók eyðileggingu styttunnar ákaflega nærri sér og hugsanlegt að hún hafi þess vegna kosið að setjast að í Bandaríkjunum. Hún var fulltrúi nýklassískar hefðar í höggmyndalist og ákaflega fáguð í vinnubrögðum sínum. Það að afsteypa af Afrekshug sé komin heim er kannski til marks um að menn séu að enduruppgötva Nínu.
Til gamans má líka geta þess að Nína gerði brjóstmynd af Oscari Tschirky, yfirkokki Delmonico-veitingahússins og stjórnanda Waldorf-Astoria-hótelsins. Oscar er helst þekktur fyrir að vera höfundur Waldorf-salatsins sem varð til undir hans stjórn á hótelinu og Þúsundeyjasalatsósunnar en hún varð til á Delmonico.
Nína hélt alla tíð íslenskum ríkisborgararétti sínum og síðustu árin sýndi hún bæði höggmyndir og olíumálverk hérlendis. Hún lést árið 1965.