Tengdar greinar

Vilhjálmur Egilsson fyrrverandi rektor Háskólans á Bifröst.

Vilhjálmur Egilsson er fæddur á Sauðárkróki 1952 og er því orðinn miðaldra. Í dag þýðir miðaldra allt annað en það gerði þegar kynslóðirnar á undan okkur voru uppi. 68 ára var fólk orðið gamalt eða í það minnsta mjög fullorðið. Og hvaða framtíð beið fólks eiginlega sem var komið á þennan stað í tilverunni? Í dag er öldin önnur og ánægjulegt að fá að fylgjast með hvernig aðrir haga lífi sínu lifandi þegar þessum aldri er náð.

Vilhjálmur hefur sinnt mörgum ábyrgðarmiklum stöfum um ævina sem væri of langt mál að telja upp hér en nú segist hann vera glaður að geta hægt á og notið lífsins. Síðasta fasta starfið sem Vilhjálmur sinnti var rektor háskólans á Bifröst en hann lét af því starfi í lok síðasta skólaárs.

Vilhjálmur er þó ekki alveg hættur að vinna því hann situr enn í tveimur stjórnum, þ.e. hjá VÍS og svo í fjárfestingarsjóðnum Innviðir. Síðan tók hann að sér að sitja í nefnd um kjarasamninga á vegum forsætisráðuneytisins. Saman segir hann að þetta sér u.þ.b. 40 – 50% starf.

Vilhjálmur og eiginkona hans, Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir skáld og sérkennari, fluttu upp í Borgarfjörð á meðan hann sinnti rektorsstarfinu á Bifröst í 7 ár. Svo tók það þau tíma að koma sér aftur fyrir á heimili þeirra í Reykjavík þar sem dóttir þeirra og fjölskylda hennar hafði búið í fjarveru þeirra. Þau voru svo heppin að hafa keypt húseign við Eyjahafið í Tyrklandi árið 2008 og gátu dvalist þar um tíma en dóttir þeirra flutti svo í sitt húsnæði.  Vilhjálmur segir brosandiað Pála hafi farið út til Tyrklands á miðvikudegi og verið búin að kaupa hús á sunnudegi. „Við vorum mjög heppin með þetta hús og okkur líður sérlega vel þar. Ætlunin er að vera í Tyrklandi í þrjá mánuði á ári og njóta Íslands þess á milli. Þangað koma börnin okkar og barnabörnin hafa verið dugleg að vera með okkur þar sem er óborganlegt fyrir okkur þótt hugsunin hafi til að byrja með að þar myndum við vera bara tvö. En þarna líður sannarlega öllum vel saman.”

Þau Vilhjálmur og Ragnhildur Pála tóku við sumarbústað sem  foreldrar Ragnhildar byggðu á Þingvöllum fyrir 1950 og hafa haldið honum við síðan en ekki breytt eða bætt að neinu leyti. Þau nota hann á sumrin en loka honum á veturna.

Varðandi áhugamál segir Vilhjálmur að hann njóti þess ríkulega að fylgjast með fótbolta, bæði íslenskum og amerískum, þótt hann spili ekki lengur sjálfur. Hann prófaði golf þegar þau bjuggu í Bandaríkjunum á sínum tíma en komst fljótlega að því að hann myndi ekki koma því inn í dagskrána því það sé tímafrek íþrótt. „Ég sé að mjög margir njóta þess ríkulega að spila golf en það ekki fyrir mig.”

Stærsta áhugamál Vilhjálms er lestur sagnfæðibóka og bóka um samfélags- og efnahagsmál. Hann fékk verulegan áhuga á sögu Miðausturlanda þegar þau fóru að dvelja í Tyrklandi. „Sagan segir okkur svo mikið,” segir Vilhjálmur. „Mannseðlið er nefnilega alltaf óbreytt og þá spyr maður hvenær förum við næst í stríð. Sagan gengur nefnilega alltaf í hringi. Við sjáum að eftir heimsstyrjaldirnar á síðustu öld kom tímabil í sögunni þar sem leit út fyrir að við hefðum lært af reynslunni og enginn vildi þetta ástand aftur. En nú eru komnar kynslóðir sem hafa ekki tengsl við þessa atburði og þessi vondi tími er víðs fjarri og þær taka ákvarðanir á allt öðrum forsendum en við gerðum. Mér þykir óþægilegt að sjá umræðuna núna vera að færast í áttina að því hvernig hún var fyrir fyrra stríð. Smám saman spruttu upp alls konar öfgar og það hefur bara verið að gerast núna að við heyrum fólk tala af fullkomnu ábyrgðarleysi. Það horfir ekki út fyrir sinn þrönga hóp og hlustar ekki út fyrir hann.  Skilningurinn á því að við þurfum alltaf að miðla málum til að halda friðinn virðist fara minnkandi. Það þarf svo lítið til að við slökkvum á siðmenningunni eins og við þekkjum hana. Mannskepnan hefur aflið til að gera svo hræðilega hluti og fá fylgjendur með sér. Það eru ekki nema 75 til 80 ár frá því nasistarnir óðu uppi. Í hvaða andrúmslofti nær til dæmis maður eins og Trump árangri þótt hann reyndar forðaðist stríðsrekstur meðan hann var endalaust að búa sér til andstæðinga? Þess vegna þykir mér svo áhugavert að lesa mannkynssöguna og bera saman við það sem er að gerast í nútímanum,” segir Vilhjálmur.

Nú er sólin farin að hækka á lofti og styttist í að hann og Ragnhildur Pála geti farið að njóta lífsins með barnabörnunum á Þingvöllum, í Tyrklandi eða annars staðar í heiminum.

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn febrúar 24, 2021 07:27