Það sem skiptir máli

Ellilífeyrisþegar eru stór markhópur í nútímasamfélagi. Öldruðum fjölgar stöðugt með bættri heilsu og aukinni velsæld. Hillur í apótekum svigna undan kremum og bætiefnum fyrir gamalt fólk. Óteljandi sjálfshjálparbækur hafa verið skrifaðar um heilsu og líf þessa hóps. Allir eru að leita að eilífri æsku.

Ég horfði á sjónvarpsviðtal við jafnaldra minn á dögunum. Spyrillinn hafði á orði hversu unglegur maðurinn væri og spurði hver væri galdurinn. Maðurinn hélt stutta ræðu um svefn, næringu og líkamshreyfingu. Þetta var bæði fyrirsjáanlegt og frasakennt og sagði mér lítið.

Sturlunga hefur um langt skeið verið mín uppáhaldsbók. Þrettánda öldin einkenndist af stöðugum ófriði. Stór hluti söguhetjanna er drepinn eða deyr voveiflega innan við þrítugt í fjölskylduátökum. Nokkrir ná þó háum aldri og ég ákvað að athuga þann hóp. Hvað ræður um langlífi á tímum borgarastyrjaldar?

Guðmundur Arason Hólabiskup varð fjörgamall. Hann var ofsóttur af veraldlegum höfðingjum og sætti svívirðilegri meðferð. Langlífi Guðmundar stafaði af trúarhita og stefnufestu. Hann hefði aldrei látið auglýsingamenn breyta ásýnd Krists til að þjóna skammtímasjónarmiðum.

Sighvatur Sturluson komst á sjötugsaldur vegna þess að hann var alltaf samkvæmur sjálfum sér. Hann var óhræddur og baðst aldrei vægðar. Sighvatur gekk á móti óvinum sínum á Örlygsstöðum í opinn dauðann en hikaði hvergi.

Sturla Þórðarson sagnaritari varð gamall maður og átti friðsælt andlát. Sturla var flókinn persónuleiki sem hugsaði alltaf fyrst og síðast um eiginn hag. Hann kunni að haga seglum eftir vindi og nýtti sér greind sína og hæfileika.

Gissur Þorvaldsson varð sextugur. Hann átti sér það markmið að verða æðstur allra á Íslandi og lét ekkert stöðva sig.

Þorvaldur Vatnsfirðingur Snorrason dó tæplega sjötugur. Hann kvæntist í ellinni 45 árum yngri konu og eignaðist með henni 2 börn.

Þetta er lærdómur fyrir alla eldri borgara sem vilja verða hamingjusamir í ellinni.

  1. Treysta Guði og trúa á handleiðslu hans eins og Guðmundur góði. Sumt þarf ekki að betrumbæta. Ritningin er kannski gamaldags en hún hefur dugað okkur vel til þessa.
  2. Vera samkvæmur sjálfum sér og hræðast ekki álit annarra eins og Sighvatur. Það borgar sig aldrei að biðjast griða.
  3. Kunna að haga seglum eftir vindi eins og sagnaritarinn og átta sig á því að ekki eru allir viðhlæjendur vinir.
  4. Setja sér markmið eins og Gissur og hvika aldrei frá þeim.
  5. Rækta lífsnautnina eins og Þorvaldur Vatnsfirðingur. Kynlíf er öflugur lífselexír.

Menn geta síðan lesið sér til óbóta af sjálfshjálparbókum um hreyfingu, næringu og svefn en þetta er það sem skiptir mestu máli.

 

Ritstjórn september 9, 2020 08:44