Lífið er fortíð

Það er stundum sagt að vanþekking sé hin dýpsta hamingja, vegna þess að hún geti veitt okkur svo mikið sjálfstraust. Það er skiljanlegt. Manneskja sem rúllar klósettrúllu eftir gólfinu og heldur í alvöru að hún hafi fundið upp hjólið, fyllist auðvitað gleði, stolti og já, sjálfstrausti. En að sama skapi verða vonbrigðin gríðarleg þegar hún uppgötvar að hún er árþúsundum á eftir tímanum.

Þess eru vissulega dæmi að fólk leggur út á einhverja spennandi en erfiða braut með lítið annað en viljann að vopni og tekst eftir alls konar mistök og árekstra að komast með miklum sóma á leiðarenda, en segir svo að það hefði jafnvel látið ógert að prófa, ef það hefði vitað fyrir fram allt það sem það lærði með ærnum tilkostnaði á leiðinni. Í slíkum tilfellum er það hins vegar í raun ekki vanþekkingin sem skóp velgengnina, heldur einmitt viljinn til að læra af eigin mistökum og árekstrum í stað þess að gefast upp.  Eftir stendur svo iðulega sú staðreynd að unnt hefði verið að ná sama árangri með minni tilvistarlegum tilkostnaði með því að nýta sér upplifanir, reynslu og þekkingu annarra.

Það má segja að hlutskipti okkar í lífinu sé einmitt af þessu tagi. Við öðlumst það eins og undursamlegt tækifæri án eigin frumkvæðis og framlags og höfum eðli málsins samkvæmt enga reynslu eða þekkingu til að byggja á í byrjun, en verðum bara sjálf að læra að nýta það. Við erum þó ekki alveg ein og óstudd og njótum – einkum framan af – reynslu og þekkingar annarra til að feta okkur áleiðis. Sjálfsagt má segja við hefðum getað lært upp á eigin spýtur og af eigin biturri og marblettóttri reynslu að gera okkar stykki bara á viðeigandi stöðum og hjóla án hjálpardekkja, en ekki er ég viss um að sú aðferð hefði veitt okkur meiri hamingju, þótt við hefðum ugglaust brosað fallega gegnum bæði tárin og sárin.

Það er líka stundum sagt að við eigum ekkert nema núið. En það er alls ekki rétt. Það eina sem við eigum í raun og veru er fortíðin. Fortíðin er líf okkar. Líf okkar er fortíð. Hún er auðvitað bæði misjöfn frá einu okkar til annars og líka alls konar, hver fyrir sig – skin og skúrir og allt það –  en hún er það sem hefur gert okkur að þeim sem við erum. Hún hefur fært okkur þær upplifanir, þá reynslu og þekkingu sem við búum yfir. Því meiri fortíð, þeim mun fleiri upplifanir, meiri reynsla og meiri þekking. Það er sannkallað ríkidæmi Auðlegð sem ber engan erfðafjárskatt.

Vonandi berum við sem samfélag gæfu til þess á leið okkar til að skapa góða fortíð, að þræða hinn gullna meðalveg milli þess að þurfa sjálf að reka okkur á alla hluti og detta í alla pytti og hins, að nýta okkur reynslu og þekkingu þeirra sem eiga hana. Færri tár og færri sár. Fleiri bros.

-Eftir Sveinbjörn I. Baldvinsson

Ritstjórn júní 4, 2020 07:14