Fyrir marga er hófdrykkja betri en bindindi

Margir eru þeirrar skoðunar – ekki síst vímuefnaráðgjafar – að eina leiðin til að ná stjórn á áfengisneyzlu sé að hætta henni alfarið. Enda er það vissulega svo að kerfi byggð á bindindi, eins og tólfsporaprógramm AA sem dæmi, hafa hjálpað ótal manns til heilsusamlegra og betra lífs. Fyrir suma þá sem þykir sopinn góður er það líka ótvírætt heillavænlegasta leiðin: algert bindindi.

En hófdrykkja er samt það sem höfðar meira til anzi margra, það er fólks sem ekki hefur átt í vandræðum með sína drykkju. Að sögn George F. Koob, forstöðumanns bandarísku áfengisvandastofnunarinnar NIAAA, sem heyrir undir bandaríska landlæknisembættið í Bethesda í Maryland (National Institutes of Health, NIH) hefur öguð hófdrykkja gert fjölda fólks kleift að umgangast áfengi af ábyrgð og án þess að stofna heilsunni í hættu. „Það er þannig sem allir ættu að umgangast áfengi, ef þeir drekka þá á annað borð. Það er hluti samfélagsins sem vill alls ekki fá áfengi inn fyrir sínar varir, og þá afstöðu ber að virða. En allir hinir ættu að kappkosta að drekka í hófi,“ hefur vefurinn AARP.org eftir Koob.

Að drekka í hófi er mikilvægt fyrir alla aldurshópa, en þetta mun alveg sérstaklega eiga við um eldra fólk. Þegar við eldumst verða ensímin sem hjálpa til við að brjóta niður áfengi í maganum og lifrinni minna virk. Þetta er liður í hægari efnaskiptum í líkamanum, sem eru óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að eldast. Viljirðu draga úr neyzlu áfengra drykkja en ert ekki með á hreinu hvernig bezt er að bera sig að við það eru hér nokkur ráð til að styðjast við í þeirri viðleitni:

  1. Vertu heiðarleg/ur

Margir læknar spyrja ekkert út í áfengisneyzlu. Geri þeir það er algengt að fólk svari ekki hreinskilnislega heldur hafi tilhneigingu til að segja ósatt um hversu mikil neyzlan er í raun. Fyrsta skrefið í ábyrgri umgengni við áfengi er því að viðurkenna fyrir sjálfum sér hver neyzlan er, undanbragðalaust.

  1. Skráðu neyzluna

NIAAA mælir með því að hámarksneyzla á sólarhring fyrir karlmenn séu fjórar einingar (glös), og þrjár fyrir konur, og vikuhámarkið fyrir karla sé 14 drykkir en sjö fyrir konur. Neyzla umfram þessi viðmið telst vera óhófleg og til þess fallin að geta verið heilsuspillandi. Og eins og að framan greinir þarf eldra fólk að setja sér lægri mörk en þessu nemur. Skilvirkasta leiðin til að halda sig innan þessara marka er að skrá neyzluna samvizkusamlega, að minnsta kosti í huganum. Maki eða vinur/vinkona geta hjálpað til við að halda sig innan markanna. Einstæðingum er ráðlagt að gera t.d. strik á blað fyrir hvern innbyrtan drykk.

  1. Hægðu á

Ef þú ert vanur/vön því að opna bjór kl. 5 síðdegis á hverjum degi, prófaðu að bíða með það til kl. 7. Þegar þú mætir á mannfögnuð og ert vanur að panta þér drykk strax, prófaðu að byrja á svaladrykk, og njóta síðan áfenga drykksins sem þú færð þér eftir það. Og fara svo aftur í gosið.

  1. Borðaðu

Það er aldrei góð hugmynd að drekka áfengi á fastandi maga. Með því að borða eitthvað um leið og maður drekkur, blandast áfengið við matinn í meltingarveginum og hægir á upptöku þess í blóðið.

  1. Hafðu áfengismæli meðferðis

Áfengismælar eru ekki bara fyrir lögregluna. Það er auðvelt að nálgast handhæga áfengismæla (sem blásið er í) í apótekum og á netinu. Suma mæla er hægt að tengja við app í símanum. Þannig getur maður fylgzt með því hve mikið áfengi skilar sér út í blóðrásina.

  1. Nýttu tímann í annað

Þar sem áfengisneyzla er oft viðbragð við leiðindum er mælt með því að finna sér eitthvað spennandi að gera. Fara í sund, hitta fólk. Það eru ótal leiðir til að finna sér eitthvað skemmtilegt að gera, án áfengis.

  1.  Lyf

Það eru til lyf sem hjálpa fólki að draga úr áfengisneyzlu. Flest virka þau þannig að þau draga úr löngun í áfengi, með því að minnka ánægjuupplifunina sem neyzla þess að öðru jöfnu gefur manni.

  1. Leitaðu meðhöndlunar við kvíða og þunglyndi

Sumir leiðast út í óhóflega áfengisneyzlu vegna andlegra kvilla eins og kvíða eða þunglyndis. Það er miklu betra að fá viðeigandi meðhöndlun við þeim kvillum en reyna að „drekkja sorgum sínum“.

  1. Taktu eftir líðaninni

„Ef þú minnkar neyzluna og líður betur, þá er það að segja þér eitthvað,“ segir Koob. Skýrari hugsun og betri svefn getur fylgt minni áfengisneyzlu, og þannig betri almenn líðan. Þar með skapast hvati til að drekka minna.

  1. Leitaðu aðstoðar

Að fá makann eða vin í lið með þér til að draga úr neyzlu áfengis, eða til hvatningar, getur hjálpað. Ráðgjöf er víða að fá, svo sem hjá SÁÁ.

Ritstjórn maí 26, 2022 07:00