Talið eðlilegt að afi og amma séu alein heima að djúsa

Guðrún Jóhannsdóttir

Guðrún Jóhannsdóttir

„Rannsóknir sýna að það þyki eðlilegt að eldra fólk dragi sig til hlés. Það hringja engar viðvörunarbjöllur. Það þarf að upplýsa þá sem sinna öldruðum um merki áfengissýki og birtingarmyndir hennar. Það þarf líka að upplýsa eldra fólk um hvaða áhrif áfengisneysla þess getur haft á líklamlega og andlega líðan,“ segir Guðrún Jóhannsdóttir sem er að ljúka grunnnámi við Háskóla Íslands í félagsráðgjöf. Hún bætir við að fólk geri sér oft ekki grein fyrir því hvaða áhrif áfengisneysla hefur á heilsu þess. Það sé enginn að tala um boð eða bönn, það þurfi að koma til móts við eldra fólkið og mæta því á þeim stað það sem það er.

Talið eðlilegt að vera gamall og einn

„Þegar ung manneskja einangrast vegna þunglyndis eða neyslu er brugðist við. Fjölskylda, vinir og aðrir leggja sig fram um að rjúfa einangrun viðkomandi. Það er allt annað upp á teningnum þegar gamalt fólk á í hlut, þá er oft talið eðlilegt að það sé eitt,“ segir Guðrún. Lokaverkefni hennar fjallar um aldraða og áfengissýki. Guðrún segir að það hafi vakið athygli hennar hversu mikil umræða er um yngri fíkniefnaneytendur og hvaða afleiðingar neysla  hefur fyrir þá. „Ég tók eftir að það var lítið sem ekkert fjallað um eldra fólk og fíknir, það eru fáar rannsóknir til og lítið sem ekkert hefur verið skrifað um þann hóp,“ segir hún og ákvað í kjölfarið að hella sér út í að skoða málið. „Það vakti forvitni mína hvers vegna þessi hópur stóð út af,“ bætir hún við.“Margir aldraðir glíma við einmannaleika í kjölfar missis, eða eru áhyggjufullir vegna erfiðrar fjárhagsstöðu. Eldra fólk er oft eitt heima heilu dagana,“ segir Guðrún. Margir fara þá að misnota áfengi. Fólk er að fela drykkju sína og einangrast enn frekar í kjölfarið. En það bregðast fáir við. Guðrún segir að það sem hafi komi henni mest á óvart þegar hún var að vinna lokaverkefnið var hversu lítið þeir sem koma að ummönnun aldraðra eru að tala saman.

Ekki skimað eftir áfengissýki

„Það er í lögum að allir eigi að vera sem lengst heima. Fólk á svo rétt á aðstoð frá hinu opinbera. Það er fjöldi fólks sem kemur að ummönnun aldraðra, læknar, hjúkrunarfólk, fólk í heimahlynningu og fjölskyldan. Aldraðir veikjast, detta og slasa sig. Ástæðan er oft ofnotkun á áfengi. Það er hins vegar enginn af þeim sem sinna um aldraða sem skimar eftir áfengisfíkn,“ segir Guðrún og bætir við að það sé alltaf verið að fást við afleiðingar neyslunnar en ekki orsakirnar.„Það á ekki að tala niður til fólks í þessum aðstæðum, það á að sýna fólki virðingu og fræða það,“ segir Guðrún. Hún segir að erlendar rannsóknir hafi sýnt að um leið og fólki sé til dæmis sagt hvað sé óhætt að drekka til dæmis með lyfjum án þess að það skaði þá dragi úr áfengisneyslu þess.  „Það þarf oft svo lítið til að breyta þessu mynstri,“ segir hún. „Fólk finnur muninn ef það sleppir því að drekka og því líður betur. En það þarf að ræða áfegisvanda þessa fólks eins og hvað annað,“ segir hún að lokum.

Ritstjórn júní 14, 2015 10:19