Áfengið var gert upptækt

„Útisamkomur um verzlunarmannahelgina fóru mjög vel fram og áfengisvandamál var sáralítið, að sögn lögreglunnar, og virðast tímarnir nokkuð breyttir til batnaðar hvað þetta snertir, því oftast nær á undanförnum árum hafa heyrzt hneykslunar- og varnaðarraddir að lokinni hverri verzlunarmannahelgi,“ segir dagblaðið Tíminn að aflokinni verslunarmannahelginni árið 1976. Dagblöðin fjölluðu um verslunarmannahelgina og þá eins og nú voru helstu fréttirnar af umferðinni, fjölda gesta á hverjum stað og áfengisneyslu ungmenna.

Flestir fóru á hátíðina á Úlfljótsvatni þar sem hátíðin Rauðhetta ´76 var haldin. „Fjölmennasta útisamkoman var við Úlfljótsvatn, þar sem saman munu hafa verið komin um 5000 ungmenni. Engin áfengisleit var og bar því lítið eitt á ölvun. Þeir sem sáust þannig á sig komnir voru látnir hvíla sig um stund í þar til gerðri endurhæfingarstöð eða þurrkhúsi, eins og skátarnir, sem héldu mótið, kölluðu það,“ segir í sömu frétt Tímans.

Dagblaðið segir að mótið í Galtalæk hafi farið fram með mestu prýði en þangað komu um 3000 manns. „Sást sáralítið vín á mönnum og við áfengisleit, sem gerð var, kom lítið áfengi í ljós. Fólk virtist alls ekki koma með því hugarfari að hafa vín um hönd,“ sagði lögreglan á Hvolsvelli í samtali við Dagblaðið.  Sveinn H. Skúlason einn af aðstandendum Galtalækjarmótsins segir í samtali við Morgunblaðið að allt hefði farið vel fram hjá þeim, aðeins einum manni hefði þurft að vísa frá mótsstað, en reglan er sú að þeim sem voru með víni var vísað frá staðnum. Við leit fundust aðeins 5 flöskur af áfengi og tók Sveinn það fram að sárafáir virtust reyna að brjóta þær reglur sem þeir settu á þessum mótum. Þau hafa verið haldin allt frá árinu 1967 og kvað Sveinn það fólkinu sjálfu að þakka hvað allt fór vel fram, mótin væru fyrst og fremst sómi þeirra sem sæktu þau, en ekki þeirra sem sæju um þau.

Það var líka haldin útihátíð í Húsafelli sem gekk sömuleiðis vel og töldu menn að þar hefðu komið um 3000 manns. Þar mátti ekki hafa áfengi um hönd. Gerð var áfengisleit á mótsgestum og fundust um 50 flöskur. „þeir sem höfðu aldur til fengu það svo afhent er þeir fóru. Lögreglan þurfti að hafa afskipti af þrem eða fjórum drukknum ungmennum og verður það að teljast í lágmarki,“ segir í frétt Dagblaðsins um hátíðina.  Það var semsagt samdóma álit flestra að verslunarmannahelgin árið 1976 hefði farið vel fram þrátt fyrir mikla umferð á vegum landsins.  Endum þessa yfirferð svo á klausu úr frétt Morgunblaðsins.

„Á flestum stöðum fór allt vel fram þrátt fyrir erfið veðurskilyrði á köflum en nokkuð rættist þó úr því og var víðast á landinu gott veður þegar líða tók á helgina. Sigurður Agústsson hjá Umferðarráði sagði að umferðin hefði gengið greiðlega og mjög lítið verið um slys. Mest var umferðin sunnanlands þar sem nokkur þúsund manns söfnuðust saman í Galtalækjarskógi og við Ulfljótsvatn en einnig var mikil umferð við Mývatn, á hestamannamótinu á Vindheimamelum og á Eiðum en þar voru um eitt þúsund manns um helgina. Sigurður sagði að í Skaftafelli hefðu verið talin um 214 tjöld, u.þ.b. 700 manns og á Þingvöllum 120 tjöld. Þá var og margt manna á Laugarvatni en færra í Þórsmörk og Landmannalaugum. Umferð var mest í kringum þessa staði og var hún að mestu slysalaus eins og fyrr sagði,“ sagði í frétt Morgunblaðsins.

 

Ritstjórn júlí 29, 2016 10:00