Ástæðan fyrir því að Sylvía Guðmundsdóttir gat ekki hugsað sér að bíða eftir mjaðmaliðskiptaaðgerð í heilbrigðiskerfinu er að hún hafði reynslu af því að vera á biðlista í tæp tvö ár eftir sams konar aðgerð á hinni mjöðminni fyrir nokkrum árum. Þegar hún fékk það staðfest að biðin á Landspítalanum yrði aftur hátt í tvö ár ákvað hún að fara í aðgerð hjá Klíníkinni í Ármúla í júní síðastliðnum og greiða fyrir það sjálf.
Gat hvorki gengið né sofið fyrir verkjum
„Ég fann orðið svo mikið til að ég gat ekki hugsað mér að fara aftur í gegnum sömu þrautargöngu og árið 2015. Þá var ég orðin þannig að ég gat hvorki gengið né sofið fyrir verkjum og var farin að staulast um með tvær hækjur“, segir Sylvía sem segir að þjónustan á sjúkrahúsinu hafi verið góð en það hafi bara verið svo erfitt að komast að og líka að fá að vita hvenær maður kæmist að. Hún segist hafa hringt mikið á meðan hún beið til að grennslast fyrir um stöðuna.„En það var ekki hægt að segja mér hvort ég væri númer 20 í röðinni eða 120“, rifjar hún upp, „bara að það væru margir í sömu stöðu og ég“.
Fyrst bið eftir lækni síðan 18 mánaða bið
Síðastliðið vor þegar Sylvía leitaði til heilsugæslunnar vegna verkja í mjöðminni var erindi hennar sent til bæklunardeildar Landspítalans. Í segulómun hafði komið í ljós að það var mikið slit í mjöðminni og yfirvofandi drep. Eftir hringingar og tölvupósta fékk hún loksins svar: Það væri 3-5 mánaða bið eftir að komast að hjá bæklunarlækni og eftir það væri biðin eftir aðgerð 18 mánuðir. Aðgerðirnar eru gerðar á þremur stöðum hér á landi, í Reykjavík, á Akureyri og Akranesi. Sumir hafa farið í aðgerðir erlendis sem Sjúkratryggingar greiða fyrir það og enn aðrir fara á Klíníkina og borga sjálfir fyrir aðgerðina, sem kostar í dag frá 1.200.000 krónum.
Betra að láta gera aðgerðina hér heima
Sylvía segist hafa ákveðið að fara á Klíníkina og þar komst hún fljótt að vegna þess að sjúklingur afboðaði sig og henni var boðinn tíminn. „Ég fór í aðgerðina og allt gekk mjög vel. Mér fannst ég öruggari með að láta lækni hér á landi gera aðgerðina. Ef eitthvað kæmi uppá er eftirfylgnin auðveldari“, segir hún. „Ég ákvað þetta úr því ég átti fyrir því. Það er hræðilegt að vita til þess að fólk bíður hér mánuðum saman eftir aðgerðum og sárt að horfast í augu við, að til þess að komast fljótt að þurfa menn að borga.“
Slæmt að fólk þurfi að eiga peninga til að fá þjónustu
Reynslan af biðlistanum árið 2015 var nokkuð sem Sylvía gleymir ekki. „Og vera endalaust að reyna að finna út hvenær ég kæmist að, ég gat ekki hugsað mér að upplifa það aftur. Tíminn er dýrmætur, ekki síst á okkar aldri, og það kostar sitt að vera þannig mánuðum saman að geta ekki stigið í fótinn. Þau sem komast í aðgerðir í opinbera kerfinu fá góða þjónustu enda snýst málið ekki um það, heldur um biðina. Mér finnst mjög slæmt að heilbrigðiskerfið okkar sé þannig að fólk skuli þurfa að eiga peninga til að fá þessa nauðsynlegu þjónustu fyrr en eftir langa og oft kvalarfulla bið. Þetta er ólíðandi mismunun þó ég hafi ekki lausn á því hvernig samstarfið ætti að vera milli einkarekinna stofnana og ríkisins. Þarna er um að ræða meinsemd sem yfirleitt er hægt að bæta og gjörbreyta þannig lífi fólks. Fjármagn eða rekstrarform mega ekki standa í veginum fyrir því.“