Það var söguleg stund þegar 19 manna hópur Íslendinga gekk inn á Pétustorgið í Róm þann 25.október 2017 eftir 150 km göngu á 7 dögum. Leitast var við að fara í fótspor Nikulásar ábóta frá Munkaþverá sem gekk til Rómar um 1150 og gaf síðan út leiðarvísi fyrir pílagríma sem nefnist Leiðarvísir og borgarskipan. Er það eitt af eldri íslensku ritum sem varðveist hafa. Lagt var upp í bænum Montefiascone og endað í Róm en hluti hópsins hafði áður farið svipað langa göngu frá Lucca til Siena. – Langþráðum draumi var náð.
Pílagrímagöngur á Spáni
Ég heyrði fyrst af pílagrímagöngum hjá vinkonu minni sem gekk til Santiago de Compostella á Spáni í lok síðustu aldar, löngu áður en slíkar göngur komust í tísku hér á landi. Eftir að hafa hlustað á skemmtilega ferðasögu hennar dró ég þá ályktun að slíkar göngur skyldi fara á eigin forsendum en ekki í skipulögðum gönguhópum. Það hvarflaði ekki að mér að bjóða upp á pílagrímagöngu þó ég hefði all lengi skipulagt göngufeðir á suðrænum slóðum eins og á Majorku,Ítalíu í Píreneafjöllunum og víðar undir nafninu Göngu Hrólfur. Íslendingar uppgötvuðu svo þessa pílagrímaleið í kjölfar útgáfu bókar Jóns Björnssonar Á Jakobsvegi sem út kom 2002 og nú hafa fjölmargir Íslendingar gengið til Santiago.
Nikulás ábóti
Um aldamótin síðustu kynntist ég Ítalska leiðsögumanninum Gianna sem skipulagði skemmtilegar gönguferðir um Apuan alpana fyrir Göngu Hrólf. Eitt sinn er við vorum stödd í bænum Lucca nefndi hann Nikulás ábóta frá Munkaþverá á Íslandi sem hefði gengið frá Íslandi til Rómar og síðan Jerúsalem um 1150. Nikulás lýsti leiðinni svo vel í ritinu „Leiðarlýsing og borgarskipulag“ að hægt er að fylgja henni enn í dag. Ég skammaðist mín fyrir að láta ítalskan leiðsögumann kenna mér íslenska sögu, kynnti mér málin og komst að því að auk Nikulásar og Guðríðar Þorbjarnardóttur sem margir vita að gekk til Rómar, voru íslensku Rómarfararnir svo margir að Páll Jónsson biskup sem dó 1211 á að hafa sagt að það þyrfti að draga úr suðurgöngum presta þar sem það væri að verða kennimannalaust í landinu.
Via Francigenga og Munkaþverárleiðin
Um 160 árum áður en Nikulás fór til Rómar gekk Sigeric erkibiskur í Kantaraborg þangað og skráði áfangastaði sína á leiðinni. Hann gekk um 1700 km, 20 km í 79 daga. Upp úr 1995 var hafist handa við að merkja leið Sigeric´s og gera hana aðgengilega nútíma pílagrímum undir nafninu Via Francigena eða franska leiðin. Leið Nikulásar nefnist Munkaþverárleiðin í Evrópu og koma þessar tvær leiðir saman í Sviss.
Magnús Jónsson vinur minn og sagnfræðingur og Jón Böðvarsson íslenskufræðingur höfðu farið í rútuferð í fótspor Nikulásar, byrjað í Þýskalandi og endað í Róm. Þegar við Magnús komumst að því að Matteo samstarfmaður og leiðsögumaður á Ítalíu þekkti hluta Via Francigena leiðarinnar og hafði farið með lítinn hóp Ítala milli Lucca og Síena fannst okkur spennandi að ganga þessa leið með honum. Við buðum hópi Íslendinga að koma með og njóta jafnframt fræðslu Magnúsar um pílagrímagöngur íslendinga á miðölum. Árið 2013 gekk svo fyrsti hópurinn með okkur milli þessara staða og síðan hafa tveir aðrir hópar gengið milli Lucca ogg Siena.
Ganga í tíma og rúmi
Í fyrstu pílagrímagöngunni með Magnúsi fann ég strax að þessi ganga var öðruvísi en aðrar gönguferðir sem ég hef farið. Á hverjum degi fengum við fróðleik um einn eða fleiri íslendinga sem fóru til Rómar á miðöldum. Við veltum fyrir okkur hvenær kirkjur sem við heimsóttum voru byggðar og hvort til dæmis Nikulás, Guðríður Þorbjarnardóttir eða Sturla Sighvatsson hafi séð þær. Litlu miðaldabæirnir sem við gistum í og fórum um voru lítið breyttir frá því þeir höfðu gegnt mikilvægu hlutverki fyrir pílagríma miðalda og götur voru jafnvel nefndar eftir þeim. Það var líka sérstakt að halda alltaf áfram, ganga frá einum bænum í annan gegnum fjölbreytt menningarlandslagið. Við fórum eftir Via Cassia sem er frá því fyrir krist, skoðuðum rómverskan leikvang og grafhýsi sem voru grafin inn í mjúka móbergskletta og heimsóttum safn með einstökum munum frá tímum Etrúska. Þannig var þetta ferðalag bæði í tíma og rúmi. Þegar við gengum eins og í leiðslu inn á Péturstorgið í Róm eftir að hafa lagt um 150 km að baki á 7 dögum vorum við þess meðvituð að forgöngumenn okkar íslenskir hefðu komið að annari og eldri Péturskirkju og öðru torgi en því sem mætti okkur. Eftir að hafa myndað hvort annað og hópinn þarna í sigurvímu var skundað á skrifstofu páfa og gegn framvísun á stimplum því til sönnunar að við hefðum gengið leiðina fengum við viðurkenningarskjal eða aflátsbréf páfa. Magnús minnti okkur þó á að ofmetnast ekki eins og Sturla Sighvatsson gerði forðum þegar hann hugðist stjórna Íslandi eftir ferðina. Það er engin hætta á að við gerum það, erum frekar glöð og þakklát.