Ástin í lífi Coco Chanel

Arthur „Boy“ Capel var stóra ástin í lífi Coco Chanel. Margir telja að C-in tvö í merki tískuhússins standi fyrir Capel og Chanel en séu ekki upphafsstafir Coco, enda kom það seinna að hún fór að kalla sig því nafni. Þegar þau tvö hittust í franskri höll var hún enn kölluð Gabrielle og hinn frumlegi og flotti fatnaður Chanel enn bara draumsýn.

Almennt er talið að Boy Chapel hafi verið stóra ástin í lífi fatahönnuðarins en hann dó í bílslysi.

Boy var kafteinn í breska hernum og í heimsókn hjá vini sínum Etienne Balsan í höll hans Royallieu árið 1909. Etienne var elskhugi Coco svo hún var þar þegar hinn ungi glæsilegi póló-leikari og gáfumaður kom þangað. Dagarnir liðu við útreiðatúra, lautarferðir og strandlíf. Hún varð ástfangin af honum en samband þeirra byrjaði ekki fyrr en hún hélt til Parísar aftur. Henni var nauðugur einn kostur að vinna fyrir sér og þegar hún fór fann hann hve mjög hann saknaði hennar og fór á eftir henni. Hún vann þá sem hattagerðarkona og Boy ákvað að styrkja reksturinn og gera henni kleift að opna sína fyrstu búð í borginni.

Sagan segir að skömmu eftir að ástarsamband þeirra byrjaði hafi þau verið á kaffihúsi í París þegar Coco varð þess vör að ein krækjan í korseletti hennar sat pikkföst og þrengdi mjög að henni. Boy reyndi að hjálpa henni að losa hana en varð að gefast upp. Coco var neydd til að sitja í kápunni til að leyna því hvernig komið var fyrir henni og þá strengdi hún það heit með sjálfri sér að klæðast aldrei korseletti framar. Hún stóð við það og gerði enn betur. Hún losaði aðrar konur endanlega úr prísund lífsstykkjanna líka. Fjárstuðningur Boy gerði henni nefnilega kleift að byrja að hanna föt en eins og allir vita varð mikil tískubylting þegar þægilegir víðir kjólar hennar slógu í gegn og svo fylgdu síðbuxurnar í kjölfarið. Konur fóru að geta hreyft sig frjálslega og í fyrsta sinn gat þeim liðið vel í fötunum sínum.

Boy Bag frá Chanel en Coco fékk innblásturinn að þessari tösku þegar hún sá söðultösku Boy Chapel.

Fróður heimsmaður

Boy var ákaflega velmenntaður og fróður um margt. Hann var listunnandi og kenndi Coco að meta margskonar listir. Þau fóru saman á söfn og lásu heimsbókmenntirnar. Hann trúði að allt í náttúrunni ætti sér sál eða anda sem lifði eftir dauða verunnar og Coco var mjög móttækileg fyrir þeirri heimspeki og trúði á hana allt sitt líf.

Hann var upprunninn í breskri miðstétt. Faðir hans átti kaupskipaflota en móðir hans, Berthe Andrée Lorin var frönsk. Boy hafði auðgast mjög á kolasölu og var mun auðugri en foreldrar hans og heimavanur meðal breskra og franskra aðalsmanna. Hann var einnig mjög góður íþróttamaður og lék póló af mikilli list. Þótt hann fullyrti ætíð að hann elskaði Coco jafnheitt og hún hann var hann henni aldrei trúr og fór ekki leynt með ástarsambönd sín. Hún virtist á yfirborðinu sætta sig við þennan veikleika hans og sagt er að ein af ástkonum hans hafi gert kröfu um að hann sliti sambandinu við Coco. Svarið var: „Ég myndi heldur skera af mér fótinn.“ Og þar við sat. Þær urðu báðar að sætta sig við tilvist hinnar. Hann og Coco ferðuðust saman til vinsælla staða þar sem hinir ríku og frægu komu saman á þeim árum meðal annars í Deuville í Frakklandi.

Samband þeirra hélst meðan hann lifði. Árið 1918 kvæntist hann Diönu nokkurri Wyndham sem var af aðalsætt og eldri dóttir þeirra fæddist í apríl árið 1919. Boy lést í mótorhjólaslysi rétt fyrir jólin sama ár en þá var kona hans ófrísk af yngri dóttur þeirra. Sagan segir að Boy hafi verið á leið frá París til Cannes að hitta Coco og verja jólunum með henni þegar slysið varð. Yfirkomin af sorg innréttaði hún svefnherbergi sitt allt í svörtu en eftir fyrstu nóttina gafst hún upp og kvaðst ekki vilja búa í gröf. Eftir það voru hennar litir, rósrautt og gyllt. Ef hún hefur þurft sönnun fyrir ást hans fékkst hún þegar erfðaskráin var opnuð en Boy hafi arfleitt hana að húsnæðinu í Rue Cambon þar sem búðin var og 40.000 pundum að auki sem gerðu henni kleift að kaupa allt húsið.

 „Þótt hann fullyrti ætíð að hann elskaði Coco jafnheitt og hún hann var hann henni aldrei trúr og fór ekki leynt með ástarsambönd sín.“

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 27, 2024 07:00