Jólahlaðborðin hafa útrýmt jólaglögginu

Jólahlaðborðið í Skrúð. Greinarhöfundur Wilhelm Wessman er lengst til vinstri á myndinni. Þá kemur Lilja Magnúsdóttir, Gunnar Steinn Pálsson og Ólöf Wessman

Jólahlaðborðið í Skrúð. Greinarhöfundur Wilhelm Wessman er lengst til vinstri á myndinni. Þá kemur Lilja Magnúsdóttir, Gunnar Steinn Pálsson og Ólöf Wessman

Wilhelm Wessman hótelráðgjafi skrifar

 

Jólaglögg og  Dansk Julefrukost á jóladag, báðum þessum siðum kynntist ég á bernskuheimili mínu.

Faðir minn Elof Wessman var ættaður frá Broby á Skáni í föðurætt og í móðurætt frá Kaupmannahöfn.

Hann lagaði alltaf jólaglögg í aðdraganda jólanna, en þeim sið kynntist hann á uppvaxtarárum sínum í Svíþjóð. Þar var til siðs að nota jólaglögg sem hitagjafa áður en lagt var að stað til kirkju snemma á jóladagsmorgun, en til þeirra ferða voru notaðir opnir hestasleðar. Hver fjölskylda átti sína uppskrift og var hennar vel gætt. Ég á þessa uppskrift og lagaði jólaglögg eftir henni og hafði á boðstólum á jólaföstu bæði þegar ég var í forsvari á Hótel Sögu og síðar á Holiday Inn ( nú Grand Hótel v/ Sigtún).

Ég man fyrst eftir jólaglöggi á Hótel Sögu í lok sjöunda áratugarins, en þá stóð Flugfélag Íslands fyrir jólafagnaði  síðdegis, síðasta laugardag fyrir jól í Súlnasalnum og bauð til fagnaðarins  viðskiptamönnum og  öðrum velunnurum félagsins.

Þessi siður breiddist fljótt út, en færðist af veitingahúsunum í matstofur fyrirtækja og í heimahús. Þetta urðu með tímanum hin verstu fyllerí, en með tilkomu Jólahlaðborðanna var þessum sið nánast útrýmt.

Jólahlaðborðin á veitingastöðum er danskur siður sem rekja má til stríðsáranna 1940-1945.   Á þeim árum var allur matur skammtaður og  erfitt að fá hráefni til að laga hátíðarrétti. Þá byrjuðu fjölskyldur,vinir eða heilu hverfin í Kaupmannahöfn að taka sig saman og slá í púkk, einn átti síld annar grísalæri sá þriðji reykta grísasíðu osfrv. Síðan var fengið félagsheimili eða veitingahús fyrir fagnaðinn, en gestir keyptu öl og snafsa af veitingamanninum.

Eftir stríð héldu veitingamenn í Danmörku þessum sið og buðu upp á julefrokost í desember.

Ég kynntist þessum sið fyrst í lok áttunda áratugarins, en þá var nánast útilokað að fá borð á veitingahúsum Kaupmannahafnar allan desembermánuð. Á sama tíma stóðu öll veitingahús í Reykjavík  tóm frá lok nóvember og fram á Þorra.

Ég tók þennan sið upp á Hótel Sögu og var fyrsta Jólahlaðborðið haldið í Grillinu 21. desember 1980 og stóð í tvo daga. Árið á eftir byrjaði ég viku fyrir Jól og gekk það vel.

Jólahlaðborðin áttu heldur betur eftir að slá í gegn

Jólahlaðborðin áttu heldur betur eftir að slá í gegn

Jólahlaðborðið var að dönskum sið. Við buðum meðal annars upp á síldarrétti, graflax, reyktan lax, grísasteik, reykt grísalæri, rifjasteik, heita lifrakæfu með beikoni og sveppum, grísasultu, ýmis salöt og ljúffenga eftirrétti. Við buðum líka upp á þjóðlega rétti eins og heitt og kalt hangikjöt, steikt lambalæri og sviðasultu.

Ég tók við veitinga-og ráðstefnurekstri Hótels Sögu 1982 og fékk  þá Gunnar Stein Pálsson markaðsmann í lið með mér til að markaðssetja Jólahlaðborð Hótel Sögu og lagði í þá herferð mikla peninga fyrir jólin 1982 og á árunum þar á eftir.

Við sendum til dæmis öllum húsmæðrum á höfuðborgarsvæðinu jólakort og fengum í kjölfarið mikið af fjölskyldufólki til okkar. Seinna bættust fyrirtæki í hópinn eftir að við sendum út bækling til  starfsmannafélaga. Bæklinginn kölluðu við Lítil Jóla Saga fyrir vinnufélaga.

Ég fullyrði að þessi mikla markaðssetning okkar hafi átt hvað stærstan þátt í útbreiðslu jólahlaðborða fyrstu árin og gert þau að föstum lið í jólahaldi landsmanna.

 

 

Ritstjórn nóvember 25, 2016 13:44