Gerður G. Bjarklind þulur

Það þekkir hvert mannsbarn sem komið er yfir miðjan aldur rödd Gerðar G. Bjarklind. Frægðarsól hennar hóf að skína þegar hún tók að sér að sjá um þáttinn Lög unga fólksins á Ríkisútvarpinu en um þann þátt sá hún frá árinu 1963 til ársins 1973. Þátturinn var einn sá vinsælasti á útvarpinu fyrr og síðar. Gerður réðst svo sem þulur á Ríkisútvarpið og var í því starfi til ársins 2012. Meðfram þularstarfinu sá hún um hinn sívinsæla þátt Óskastundina frá 1997.

Í dag segist hún fyrst og fremst vera að skemmta sér. „Mér og honum Sveini A. Bjarklind manninum mínum líður afskaplega vel. Það er ekki svo langt síðan við fluttum í nýja íbúð við Sléttuveg og þar unum við hag okkar vel. Fyrstu þrjá mánuði hvers árs dveljum við á Spáni þar sem við njótum þess að vera í hlýju loftslagi. Dögunum eyðum við í göngur, hittum annað fólk, borðum góðan mat og njótum þess að vera til. Á sumrum dveljum við svo langdvölum í sumarbústaðnum okkar í Grímsnesinu. Þar ræktum við bæði tré og blóm. Þegar okkur langar að lyfta okkur upp förum við í ferðalög um landið. Svo er það garðurinn á nýja staðnum. Við hlúum að honum ásamt öðrum íbúum. Þar gróðursetjum ég og nágrannakonur mínar sumarblóm og lauka. Svo það er nóg að gera við að skemmta sér,“ segir Gerður.

Gerður segist ekki sakna Ríkisútvarpsins ýkja mikið. „Þegar ég hætti sagði ég við sjálfa mig Nú er þetta búið og nýtt að taka við. En það var nú reyndar stundum mjög gaman á útvarpinu en það gat líka stundum verið erfitt. Þar vinnur fjölmargt gott fólk sem maður saknar stundum.“ Enn má heyra rödd Gerðar í ljósvakamiðlum. Hún er rödd verslunarinnar Geysis. „RÚV útbýr auglýsingarnar fyrir Geysi. Það þýðir að ég kem stöku sinnum í hljóðstofu og les inn á auglýsingarnar. Ég kann afskaplega vel við að lesa inn á auglýsingarnar þar, því ég þekki allt út og inn í Efstaleitinu.“

 

Ritstjórn nóvember 22, 2017 09:18