Töffari verður sextugur

Alveg frá því í morgun hafa lög Bubba Mortens hljómað í útvarpinu, á öllum stöðvum.  Þau rifja ýmislegt upp fyrir þá sem eru komnir yfir miðjan aldur. Bubbi kom á sínum tíma  inní íslenska tónlistarheiminn eins og stormsveipur – ótrúlega flottur.  Alveg síðan hefur hann auðgað tilveru okkar hér á skerinu með frábærum lögum og textum, sem mörg eru orðin klassík.  Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur  sendir Bubba afmæliskveðju á Facebook í dag og segir:

Hann var einn svakalegasti töffarinn í hverfinu og ég vissi alltaf af honum; við áttum líka sameiginlega vini og svo sá ég hann einhvern tímann troða upp í skólanum. Maður frétti af honum í Eyjum þegar ég var þar og einhvern tímann átti ég leið um verbúð þar sem hann var að spila eitthvað og raula. Ég vissi alltaf að Bubbi var einstakur, öðruvísi, útvalinn. Og þegar platan hans kom út stökk ég út í búð og keypti hana (ó dagar þegar við gerðum slíkt!). Mig rak í rogastans; ég vissi alltaf að hann væri góður – en ekki svona rosalegur! Önnur eins rödd hafði ekki heyrst, orkan skall á manni, andrúmsloftið kringum hann og músíkina var hrátt og satt og greip mann heljartökum, textarnir voru með afbrigðum myndrænir („þúsund þorskar á færibandinu þokast nær“ er með flottari ljóðlínum 20. aldarinnar) og lagasmíðarnar vitnuðu um óvenju ríka gáfu til að búa til melódíur.

Guðmundur Andri lýsir Bubba sem fyrsta Íslendinginum sem söng blús eins og maður í lífsháska, gat beljað eins og Leadbelly. Þá hafi þunglyndisleg ljóðræna skandinavanna streymt frá honum og þegar sá gállinn hafi verið á honum hafi hann breyst í suðuramerískan andfasista og kvennaljóma.

Gat svo gerst gargandi nýbylgjurokkari í beinu framhaldi eins og allt væri þetta í eðlilegu samhengi. Sem það var – hjá honum. Og síðan hefur Bubbi fært okkur óteljandi verk úr sínum þrotlausa brunni, allt til þessa dags, skáld með gítar í heiminum andspænis mönnunum, og það verður áfram spennandi að fylgjast með honum vinna úr því sem að höndum ber og hann sækir sér. Svo er alltaf jafn gaman að hitta hann – heyra sögur, diskútera Dylan, Kalman og öll hin skáldin, finna lífskraftinn. Hann er einn svakalegasti töffarinn á landinu. Hann er sextugur! Til hamingju með daginn!

 

Ritstjórn júní 6, 2016 14:47