Tæpur helmingur þeirra sem leitar til Virk er kominn á miðjan aldur

„Þeir sem koma til okkar eru þverskurður af þjóðfélaginu. Þetta er fólk á öllum aldri með allskonar bakgrunn,“ segir Eysteinn Eyjólfsson verkefnisstjóri almannatengsla hjá Virk starfendurhæfingarsjóði. Virk  er sjálfseignarstofnun stofnuð fyrir um áratug af helstu samtökum stéttarfélaga og atvinnurekenda á vinnumarkaði.

Hlutverk sjóðsins er að efla starfsgetu einstaklinga í kjölfar veikinda eða slysa með starfsendurhæfingarþjónustu. 43 prósent þeirra sem leituðu til Virk árið 2016 voru 45 ára og eldri, þar af voru 23 prósent  á aldrinum 55 til 64 ára og þrjú prósent voru eldri en 65 ára. 

Alls voru 2.383 einstaklingar í starfsendurhæfingarþjónustu á vegum VIRK í lok árs 2017, 17% fleiri en um síðustu áramót. 1.854 einstaklingar komu nýir inn í þjónustu hjá VIRK á árinu 2017, 8.2% fleiri en árið 2016 og hafa ekki áður svo margir hafið starfsendurhæfingu á einu ári. 1.164 einstaklingar luku starfsendurhæfingarþjónustu árið 2017, svo til næstum jafnmargir og árið á undan. Meðaltímalengd einstaklinga í þjónustu hjá VIRK var tæplega 14.5 mánuðir 2017 og lengdist um 1 mánuð á milli ára. Aldursskipting breytist ekki mikið á milli ára en Eysteinn segir þó að yngra fólki hafi fjölgað heldur meira en eldra fólki á síðustu misserum. Fjölmennasti hópurinn sem leitar til Virk er starfsfólk í þjónustu og verslun, næst stærsti hópurinn eru ófaglærðir en sérfræðingar eru þriðji stærsti hópurinn.

Þegar litið er á menntunarstig fólks sem leitar til Virk þá eru þeir sem lokið hafa grunnskólanámi fjölmennastir, háskólamenntaðir eru næst fjölmennastir og þeir sem lokið hafa iðnnámi eru í þriðji fjölmennasti hópurinn. Rúmlega 70 prósent þeirra sem leita til Virk glíma annaðhvort við stoðkerfissjúkdóma eða andlega sjúkdóma. Árangurinn af starfi Virk hefur verið mjög góður. Sjö af hverjum tíu sem útskrifast eru virkir á vinnumarkaði við útskrift, það er í vinnu, í atvinnuleit eða í lánshæfu námi.

Þeir sem vilja nýta sér þjónustu Virk þurfa að hafa samband við lækni og óska eftir beiðni fyrir starfsendurhæfingu. Ef læknirinn telur að viðkomandi hafi þörf fyrir þessa þjónustu sendir hann beiðni til sjóðsins.  Skilyrði þess að komast að í endurhæfingu eru að viðkomandi geti ekki sinnt starfi sínu að hluta eða öllu leyti eða tekið þátt á vinnumarkaði vegna hindrana af völdum heilsubrests sem rekja má til veikinda eða slysa. Um er að ræða fjarvistir frá vinnu í lengri tíma vegna heilsubrests af andlegum eða líkamlegum toga. Að markmið einstaklings sé að verða aftur virkur þátttakandi á vinnumarkaði, eða auka þátttöku á vinnumarkaði, svo fljótt sem verða má. Nánari upplýsingar um Virk er að finna hér 

 

 

Ritstjórn febrúar 1, 2018 09:33