Einhver lýsti flugþreytu þegar menn ferðast yfir tímabelti með þeim hætti að menn þyrftu að staldra við og bíða eftir sálinni. Líkaminn væri fluttur með flugvélum þvert yfir hnöttinn en sálin yrði eftir í sínu tímabelti og væri ekki eins fljót í förum. En hvað ef tímaferðalög væru möguleg og menn væru hrifsaðir aftan úr öldum og fluttir til nútímans? Mjög margir rithöfundar hafa velt þeim spurningum fyrir sér og komist að margvíslegum niðurstöðum. Kaliane Bradley hefur skipað sér í þann hóp með skáldsögunni, Tímaráðuneytið.
Sagan hefst á því að ung kona er kynnt fyrir viðfangi sínu eða skjólstæðing sínum. Hún hefur fengið það starf í nýstofnuðu tímaráðuneyti Bretlands að vera brú fyrir mann sem fluttur hefur verið aftan úr fortíðinni til okkar tíma eða nálægrar framtíðar. Tímaferðalög eru sem sé möguleg og starfsmenn ráðuneytisins hafa sótt nokkra einstaklinga úr mismunandi aðstæðum og frá mismunandi tímum. Ungu konunni er ætlað að hjálpa sínum skjólstæðing, Graham Gore, að aðlagast nútímanum. Hann var breskur sjóliðsforingi og landkönnuður á nítjándu öld. Hann tók þátt í frægum heimskautaleiðangri á skipinu Erebusi og lést þar ásamt félögum sínum eða var kippt á síðustu stundu úr sínum tíma gegnum glufu tímans og til Bretlands tuttugustu og fyrstu aldar. Hann er útsjónarsamur, duglegur, greindur og þrautseigur og ætti því að hafa allt sem þarf til að bera til að aðlagast gerólíkum tíma og aðstæðum. En mannlegt eðli er alltaf eins og fljótlega fer unga konan að þróa með sér tilfinningar gagnvart skjólstæðingnum og það flækir málin.
Brúnum er nefnilega ætlað að vera að hluta til félagi, að hluta verðir og að hluta rannsakandi. Þær gefa skýrslur í lok hvers dags um framför eða afturför viðfangsefna sinna og á sama tíma er þeim ætlað að fræða þau og þjálfa í að bregðast við öllu sem er nýtt fyrir þeim. Brýrnar eru líka ábyrgar fyrir sínum viðföngum og mega ekki sleppa þeim um of lausum. Aðalskrifstofa ráðuneytisins fylgist svo með og reglulega er einnig farið með viðföngin þangað til frekari rannsókna.
Landkönnuðir koma í mörgum myndum
Sú staðreynd að Graham Gore er persóna sem raunverulega var til gefur þessari sögu aukna vídd. Hann er stoltur borgari breska heimsveldisins og vegna útþenslu þess helgaði hann sig landkönnun. Unga konan sem á að styðja hann til sjálfstæðis á nýjum tíma er aftur móti af kóreskum ættum, er barn fólks sem lifði stríð og hörmungar í eigin heimalandi og þurfti að leggja á flótta. Hún hefur því áður upplifað að horfa á fólk aðlagast gerólíkum aðstæðum og takast á við sorg vegna missis ættingja og vina en Graham þarf að lifa við að vita að allir leiðangursmenn dóu.
Í sögunni er einnig komið inn á loftslagsbreytingar, útrýmingarbúðir nasista, árásina á tvíburaturnana og í ljósi þessa brugðið upp mælistiku á siðferði mannsins og kannski skorar hann ekki sérstaklega hátt. En þrátt fyrir svo yfirgripsmikil og flókin umfjöllunarefni er þetta fyrst og fremst skemmtileg saga. Höfundur hefur sagt frá því í viðtali að hugmyndin að bókinni hafi kviknað þegar hún var að grínast í hópi vina með hvernig fólk fyrri tíma sæi okkur og nútímann.
Það er svolítið erfitt að lýsa þessari bók því hún fellur undir margar skilgreiningar en er ekki dæmigerð fyrir neina þeirra. Þetta er vísindaskáldsaga en vísindin eru aukaatriði í bókinni, þetta er njósnasaga, spennusaga, söguleg skáldsaga og ástarsaga en samt eru það mannleg samskipti og mannlegt eðli sem hér eru í forgrunni. Höfundur veltir fyrir sér tímanum og hlutverki hans í lífi okkar, hvort það sé alltaf heppilegt að hrifsa menn úr örmum dauðans og hvort hægt sé að aðlagast nýjum hugsunarhætti, öðrum tíðaranda og allt annars konar tækni en maður hefur áður þekkt. Allt þetta setur hún síðan í samhengi við innflytjendamál og stöðu þeirra sem flytjast milli menningarheima. En umfram allt er hún að fjalla um ástina, hvort hún sé alltaf söm við sig og þess virði að berjast fyrir að fá að njóta hennar. Þetta er bráðsnjall höfundur og Tímaráðuneytið ein þeirra bóka sem maður stingur inn í bókhilluna og tekur fram aftur og aftur.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.