Val um meðferð við lífslok

Ekki virðist vera til staðar nákvæmt ferli í íslenska heilbrigðiskerfinu, fyrir fólk sem vill ákveða tímanlega hvernig meðferð það fær við lífslok og hvort það vill til dæmis láta endurlífga sig ef hjartað hættir að slá, eða ekki.  Landlæknisembættið ráðleggur einstaklingum að ræða málið við lækninn sinn og biðja hann um að skrá vilja þeirra í þessum efnum í rafrænu sjúkraskrána, sem allar stofnanir hafa aðgang að.  Sá hængur er hins vegar á, að hnígi menn niður er ráðist í að endurlífga þá, en ekki byrjað á að athuga í sjúkraskránni hvaða óskir þeir hafa sett fram í þeim efnum.

Góð hugmynd að framleiða armbönd

Lifðu núna greindi nýlega frá danskri konu sem lagði til að það yrði hannað sérstakt armband fyrir þá sem ekki vilja láta endurlífga sig eftir hjartastopp. Þannig væri öllum ljóst hver vilji viðkomandi væri, enda hefði hann sjálfur útvegað sér armbandið. „En það er einmitt vandinn, að fullvissa sig um að þetta sé örugglega það sem viðkomandi vill sjálfur“, segir Óskar Reykdalsson framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Honum finnst góð hugmynd að framleiða armbönd sem fólk geti gengið með til að lýsa vilja sínum í þessum efnum.

Lífsskrá þótti ekki gagnleg

Á tímabili gátu menn fyllt út svokallaða lífsskrá hjá Landlækni, þar sem kveðið var á um vilja þeirra um meðferð við lífslok. Á síðasta ári var hins vegar hætt með lífsskrána. Samkvæmt upplýsingum landlæknisembættisins  voru ástæðurnar nokkrar.  Lagastoð var ekki talin fyrir hendi sem gerði skrána að ígildi viljayfirlýsingar einstaklingsins.  Þá var einnig talið að vilji manna í þessum efnum gæti breyst, frá því þeir fylltu út lífsskrána þar til komið væri að því að taka þessa þýðingarmiklu ákvörðun við lok lífsins. Annað sem olli þessu var, að einungis var hægt að fá upplýsingar um lífsskrána á skrifstofutíma, þannig að hún þótti ekki gagnlegur kostur.

Þarf að koma óskum í sjúkraskrá

Um 300 einstaklingar útfylltu lífsskrár hjá Landlæknisembættinu, sem nú ráðleggur mönnum að ræða þessi mál við lækninn sinn, annað hvort sérfræðinga sem þeir hitta reglulega, heimilislækna eða lækna á heilsugæslustöðvum. Þeir geta þá skráð óskir manna í sjúkraskrána. Óskar Reykdalsson segir að það sé sjaldgæft að heilsugæslulæknar fái þessi mál inná sitt borð, en á hjúkrunarheimilum sé ákvörðun um meðferð við lífslok daglegt brauð. Þar séu ákvarðanir af þessu tagi teknar í samráði við sjúklinginn og ættingja hans. Þess séu dæmi að fólk sem glímir við alvarlega sjúkdóma og er orðið satt lífdaga, hafni frekari meðferð og vilji að náttúran fái að hafa sinn gang.

 

Ritstjórn ágúst 16, 2016 12:55