Góðar fréttir varðandi húsnæðislánin

Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri Greininga og fræðslu Íslandsbanka, segir að full ástæða sé fyrir fólk að skoða kjörin á húsnæðislánum sínum reglulega. Líka sé mismunandi á milli lánastofnana hversu hátt veðhlutfall er boðið upp á en kjörin sem slík hafi vænkast mjög mikið á tiltölulega stuttum tíma. Nú séu til dæmis í boði mun lægri vextir en voru fyrir aðeins örfáum árum. Nú sé ferlið sjálft auk þess mun fljótlegra og mjög einfalt að endurfjármagna og líka ódýrara og getur margborgað sig þegar upp er staðið.

„Með lítilli fyrirhöfn getur verið í boði að breyta lánum þannig að greiðslubyrðin verði lægri eða í öllu falli viðráðanlegri en áður,“ segir Björn. Vextir hafi lækkað það mikið að fólk sé á verulega góðu tímakaupi við að setja sig inn í breytingar sem hafa orðið á lánamarkaðnum.

Húsnæðið stærsta skuld flestra

Björn segir að nauðsynlegt sé fyrir þá sem hafi tekið lán fyrir nokkuð löngu síðan að skoða vel hvernig skilmálar núverandi lána séu. Verið geti að á gömlum lánum séu uppgreiðsluskilmálar strangir. Það geti þá gert það að verkum að það sé dýrt að greiða niður eldra lán. Allt slíkt þurfi að vera á tæru áður en haldið er af stað í endurfjármögnun. En allar slíkar upplýsingar veitir viðkomandi lánastofnun greiðlega en lántakandi verði að leita eftir þeim sjálfur.

Þeir sem vilja nýta svigrúmið sem myndast þegar greiðslubyrðin verður lægri geta stytt lánið og greitt það niður hraðar. Ef vextir hafa lækkað er hægt að borga minna á mánuði eða borga það sama á mánuði en klára lánið fyrr. Svo er líka hægt að lengja í láninu til að hafa meira fé á milli handanna. Í öllu falli segir Björn að kerfið sé orðið mjög sveigjanlegt.

Aðgengi að lausafé

„Ekki má gleyma því að þegar fólk er komið á lífeyrisaldur og hætt að vinna er mjög dýrmætt að hafa aðgengi að lausafé. Maður skyldi alltaf hafa það í huga við niðurgreiðslu lána,“ segir Björn.

 

Björn Berg verður með námskeið um endurfjármögnun íbúðalána hjá Endurmenntun HÍ á næstunni.

 

Ritstjórn febrúar 6, 2020 12:06