Betra að fá einhverja vexti en enga

Björn Berg Gunnarsson skrifar

Vextir hafa áhrif á lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar. Vegna sífelldra breytinga á tekjutengingum stofnunarinnar er misskilningur varðandi skerðingarnar því miður mjög útbreiddur og er því jafnvel haldið fram að stofnunin skerði vegna eigna fólks eða að best sé að fela fjármuni. Afleiðingarnar eru að út um allan bæ brennur reiðufé upp í verðbólgu.

Skerðingarhlutfallið er 45% hjá sambúðarfólki og 56,9% hjá þeim sem búa einir. Það þýðir sem dæmi að 100.000 kr. vextir skerða greiðslur til sambúðarfólks um 45.000 kr. Þar að auki er greiddur fjármagnstekjuskattur, en þó er mikilvægt að muna eftir frítekjumarki skattsins, sem er 150.000 á ári hjá einstaklingum og 300.000 kr. hjá hjónum. Það er því ljóst að þó skerðingar séu miklar er að sjálfsögðu betra að fá einhverja vexti en enga.

Ekki hafa þó allar fjármagnstekjur áhrif með sama hætti. Ávöxtun séreignarsparnaðar (og úttekt hans) skerðir ekki greiðslur Tryggingastofnunar og er undanþegin fjármagnstekjuskatti. Ef séreign er hins vegar tekin út úr kerfinu og lögð inn á bankareikning fara vextirnir að skerða greiðslur og fjármagnstekjuskattur er greiddur. Því kjósa margir að leyfa séreignarsparnaði að vera innan kerfisins á lífeyrisaldri en sækja þaðan fé þegar þörf er á.

Ávöxtun verðbréfasjóða er ekki skattskyld og skerðir ekki greiðslur TR á meðan sjóðurinn er óhreyfður. Við úttekt líta TR og skatturinn svo á að hagnaður sé innleystur og þá geta greiðslur skerst og skila þarf skatti. Þar sem innlausn sjóða getur valdið skerðingum kjósa sumir, sem eiga talsverðan uppsafnaðan hagnað í sjóðum, að innleysa eign sína áður en sótt er um hjá TR og endurfjárfesta jafnvel skömmu síðar. Enginn, eða minni, uppsafnaður hagnaður fylgir þá fólki yfir á lífeyrisaldurinn.

Það borgar sig að kynna sér málefni er varða fjármál við starfslok vel og vandlega, sem og þær breytingar sem gerðar eru árlega.

 

Björn Berg er fræðslustjóri Íslandsbanka og hefur haldið fjöldamörg námskeið um fjármál við starflok, bæði hjá bankanum, Endurmenntun Háskóla Íslands og víðar. Þann 19.mars næst komandi verður einmitt námskeið um fjármál við starfslok hjá Endurmenntun.

 

 

Ritstjórn mars 15, 2018 12:28