Fjármál við starfslok – Hvað breyttist um áramótin?

Björn Berg Gunnarsson

Björn Berg Gunnarsson fræðslustjóri Íslandsbanka skrifar:

Fátt er með jafn mikilli vissu hægt að bóka um áramót og að hringlað verði í greiðslum til lífeyrisþega. Hér er það helsta sem breyttist nú í upphafi árs.

1. Frítekjumark atvinnutekna

Nú hefur Tryggingastofnun (TR) aftur tekið upp sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna, en það féll niður við kerfisbreytingar áramótin 2016-2017.
Frítekjumarkið nemur 100.000 krónum á mánuði en gott er að muna að Tryggingastofnun lítur á tekjur ársins í heild sinni og deilir með 12. Aðili sem sótt hefur um hjá TR en vinnur tvo mánuði á ári og fær 600.000 kr. í mánaðalaun er því undir frítekjumarkinu.

2. Breytingar á fjármagnstekjuskatti

Fjármagnstekjuskattur hefur enn á ný verið hækkaður, nú upp í 22%, en hann var 10% fyrir áratug. Á móti kemur tvennt. Annars vegar verður skoðað hvort miða eigi við raunávöxtun í stað nafnávöxtunar (verðbólgan dregin frá) og hins vegar var frítekjumark fjármagnstekna hjá skattinum hækkað úr 125.000 kr. á mann í 150.000 kr.
Þetta þýðir sem dæmi að hjón sem ávaxta 10.000.000 kr. á 3% vöxtum (300.000 kr. í vexti) fá allan fjármagnstekjuskattinn endurgreiddan.

3. Hálfur lífeyrir

TR getur nú, í fyrsta sinn, greitt hálfan lífeyri. Það merkilega er að þær greiðslur skerðast ekki. Þannig getur aðili sem sér ekki fram á að eiga rétt á greiðslum á lífeyrisaldri sótt um hálfan lífeyri og fengið um eða yfir 100.000 kr. á mánuði.

Nokkur skilyrði þurfa þó að vera uppfyllt. Lífeyrisþegi þarf að vera orðinn 65 ára, sækja þarf um greiðslu hálfs lífeyris frá lífeyrissjóðum samhliða og samanlögð greiðsla úr lífeyrissjóðum og frá TR þarf að vera jöfn fullum greiðslum frá TR.

Nánar verður rætt um fjármál við starfslok, lífeyrismál, Tryggingastofnun og fleira á fræðslufundi í höfuðstöðvum Íslandsbanka miðvikudaginn 10. janúar kl. 17:00. Skráning.

Ritstjórn janúar 8, 2018 13:28