Gúllassúpa að hausti og bláber í eftirrétt

Móðir jörð verðlaunar okkur ríkulega ef við göngum vel um hana, það hefur margsannað sig. Sem betur fer virðist heimsbyggðin vera að átta sig á mikilvægi þess og kosningabaráttur litast af grænum hugmyndum. Hér er uppskrift að gúllassúpu þar sem nautakjöt er notað ásamt grænmeti beint upp úr jörðinni. Svo er tilvalið að bjóða upp á nýtínd bláber með rjóma í eftirrétt en þau fást nú í verslunum fyrir þá sem hafa ekki komist í berjamó. Þar með er veislunni reddað!

600–700 g nautakjöt, skorið í bita

2 msk. ólífuolía

3 hvítlauksrif, smátt skorin

1 meðalstórir laukur, smátt skorinn

2 rauðar paprikur, skornar í bita

2 gulrætur, smátt skornar

200 g sellerírót, skorin í bita

1 1/2 l vatn

2 nautakjötsteningar

1 dós niðursoðnir tómatar

1 msk. tómatpúrra

1 meðalstór rófa, skorin í litla bita

6 kartöflur, skornar í bita

salt og svartur pipar eftir smekk

1 tsk. reykt paprikuduft

 

Aðferð

Hitið olíu við vægan hita í potti, mýkið hvítlauk og lauk í smá stund. Bætið nautakjötinu, paprikum, gulrætum og sellerírót saman við og brúnið í 5–7 mínútur. Bætið vatninu og teningum saman við, hrærið vel í. Setjið tómatana, tómatpúrru, rófu og karöflur ofan í súpuna. Kryddið til með salti, pipar og paprikukryddi. Leyfið súpunni að malla í 30–40 mín. (eða lengur) við vægan hita. Berið súpuna fram með brauði og sýrðum rjóma.

Ritstjórn september 24, 2021 09:00