Gullveig Sæmundsdóttir fyrrverandi ritstjóri

Gullveig Sæmundsdóttir, fyrrverandi ritstjóri tímaritsins Nýtt Líf, hefur sannarlega ekki setið auðum höndum eftir að hún lét af viðamiklu starfi ritstjóra sem hún gegndi í 23 ár. Sjálf segist hún líklega hafa setið lengur í stóli ritstjóra tímarits hér á landi en aðrir hafa gert án þess að hafa nokkrar tölulegar staðreyndir sem sanna það. Vinna utan heimilis kallar ekki í sama mæli og áður og hún nýtur þess að geta gert ýmislegt sem ekki gafst tóm til að sinna áður. Gullveig segist hafa verið svo gæfusöm að hafa aldrei verið “bara ritstjórinn”. Hún hafi alltaf verið líka eiginkona, móðir, amma, dóttir, systir og vinkona. “Ég gæti trúað að það sé auðveldara að hætta að vinna utan heimilis ef maður hefur ræktað önnur hlutverk vel og nýtur þeirra. Það skiptir líka miklu máli að eiga einhver áhugamál og rækta þau,” segir Gullveig. Áður en Gullveig tók ritstjórastarfið að sér hafði hún stundað kennslu í fimmtán ár. Hún hefur alltaf haft lifandi áhuga á lífinu og tilverunni sem er líklega ein ástæða þess  að hún fór í blaðamennsku á sínum tíma. Og sá áhugi minnkaði ekki þótt hún léti af ritstjórastarfinu. Gullveig hefur tekið að sér ýmis verkefni eftir að ritstjóraferlinum lauk; lesið handrit og prófarkir og fleira í þeim dúr. Auk þess  skrifaði hún ásamt eiginmanni sínum, Steinari J. Lúðvíkssyni, bókina Golf á Íslandi, sem kom út árið 2016 og er mikið ritverk.

Tími til að gera skemmtilega hluti

Þegar Gullveig hætti að vinna segist hún hafa farið að nýta tímann til að gera ýmislegt sem hún hefur gaman af en hafði ekki tíma til að sinna samfara mikilli vinnu. Hún spilar enn bridds og leikur golf  eins og hún gerði áður en við bættust félagsmál og nú er hún félagi í nokkrum félögum sem hún sækir fundi í til að efla bæði andann og efnið eins og hún segir. “Ég er mikil félagsvera og hef gaman af að hitta félaga mína og njóta þess sem félögin sem ég er í bjóða upp á. Fundirnir eru bæði fræðandi og skemmtilegir og mér finnst ég oftar en ekki koma margs vísari heim af fundunum.”

Einu sinni kennari – alltaf kennari

Kennsla og skólamál hafa alltaf verið Gullveigu hugleikin enda á hún marga aðdáendur í hópi gamalla nemenda og blaðamanna sem hafa verið svo heppnir að njóta leiðsagnar hennar. Þegar hún hætti að vinna og hafði meiri tíma, fór hún að velta fyrir sér hvaðan útlenda konan í bakaríinu skyldi vera eða austurlenska parið í efnalauginni og hvort þau töluðu íslensku? Og þar sem Gullveig er þekkt fyrir að tvínóna ekki við hlutina hringdi hún á bæjarskrifstofu Garðabæjar, sem er hennar bæjarfélag, og bað um fund með bæjarstjóranum. Hann tók henni vel og sagði að hún kæmi á vissan hátt eins og kölluð því í Garðabæ byggju margir útlendingar sem hefðu ekki fengið næga kennslu í íslensku og til tals hefði komið að ráða bót á því. Í kjölfarið bauðst henni að taka slíka kennslu að sér. “Næstu tvö árin var ég starfsmaður á vegum Alþjóðahúss og kenndi erlendum starfsmönnum leikskóla og grunnskóla í Hafnarfirði og Garðabæ íslensku allt þar til efnahagshrunið batt endi á það ævintýri. Hluti kennslunnar fólst líka í að kenna nemendunum menningarfærni og kynna þeim íslenskt samfélag.” Gullveig segir þennan tíma hafa verið sérlega skemmtilegan. Hún naut kennslunnar auk þess sem hún varð margs vísari um erlendu nemendurna og þann veruleika sem þeir áttu rætur í en ekki síður um samfélagið hér á landi sem hún kynntist á nýjan hátt í gegnum reynslu nemenda sinna.

Að hlakka til

Gullveig segir að hún reyni að sjá til þess að hafa alltaf  eitthvað til að hlakka til. “Ég hlakka til dæmis til þess á hverjum morgni að setjast við eldhúsborðið, fá mér kaffi og hrökkbrauð og ráða Sudokuþraut dagsins. Ég kveiki líka á útvarpinu en hlusta bara með öðru eyranu. Dagskráin er frekar eins og undirspil í hversdagsleikanum. Ég nýt þessara stunda og finnst gott að vera ein með sjálfri mér. Ég nýt hversdagsleikans og litlu hlutanna í lífinu. Það er líka eins gott þar sem stórviðburðir og hátíðisdagar eru mun fyrirferðarminni í lífinu en hversdagurinn.”

Gullveig hefur alla tíð verið bókhneigð og nýtur nú frábærrar þjónustu bókasafnsins í Garðabæ. Hún sækir bókasafnið reglulega og biður um bækur sem hana langar til að lesa.  Ef þær eru ekki inni fær hún skilaboð þegar hún má koma og ná í þær. Þá hefur hún sannarlega eitthvað til að hlakka til í marga daga fyrir utan allt félagsstarfið sem hún stundar.

Aldur er afstæður!

Gullveig segist ekki upplifa sig gamla þótt aldurstalan segi sína sögu. “Aldur er afstætt hugtak og við erum ekki eldri en okkur finnst við vera. Sumir verða reyndar gamlir langt um aldur fram en það á hreint ekki við um alla. Heilsa og fjárhagur skipta miklu máli þegar við eldumst. Sem betur fer er stór hópur sem hefur það gott þó að allt of margir eldri borgarar hafi of lítið á milli handanna. Ég skil satt að segja ekki tregðu stjórnvalda að horfast í augu við þá staðreynd. Varðandi heilsuna getum við sjálf gert ýmislegt til þess að hamla því að aldurstengdir kvillar herji á okkur en það eru því miður of margir sem gera lítið í þeim efnum og vakna kannski loksins upp  þegar of seint er að grípa í taumana.” Gullveig segist vita eins og flestir að miklu máli skiptir að fólk hreyfi sig. Hún stundar bæði líkamsrækt og golf og daginn áður en viðtalið var tekið hafði hún gengið 10 kílómetra í golfi. Gullveig segir að nú sé hún komin á þann stað í lífinu að hún njóti þess sem hún getur gert og á möguleika á, líkamlega, andlega, félagslega og fjárhagslega og velti sér ekki upp úr því sem hún geti ekki gert. Að hennar mati er tíminn eitt það dýrmætasta sem hún hefur yfir að ráða.  “Mér liggur ekki eins mikið á og áður að gera allt mögulegt og finnst dásamegt að sitja lengi yfir morgunkaffinu og er ekkert að flýta mér úr náttfötunum. Stundum læt ég ekki nægja eina Sudokoþraut og er kannski að fram eftir morgni þar sem ekkert sérstakt rekur á eftir mér.”

Er glasið hálffullt eða hálftómt?

Gullveig segist vera svo heppin að eiga margar vinkonur sem séu á svipuðu ról og hún í lífinu. “Ég horfi allt öðrum augum á tímann en ég gerði áður og finnst skipta miklu máli að verja tímanum en sóa honum ekki. Það geri ég meðal annars með því að hitta vinkonurnar og spjalla um eitt og annað sem við höfum áhuga á. Við hjón ræðum líka mikið saman og eigum mjög margt sameiginlegt sem skiptir mig miklu máli. Ég á líka einstaklega gott samband við son minn, tengdadóttur og barnabörn og nýt þess að umgangast þau. Auðvitað ræði ég ýmis vandamál sem tilheyra lífinu við manninn minn og vinkonurnar. En við ræðum líka margt sem er skemmtilegt og uppbyggjandi. Eftir því sem ég verð eldri hef ég orðið vandlátari og sækist eftir því að umgangast uppbyggilegt fólk,” segir þessi lífsglaða kona sem augljóslega nýtur lífsins þótt árunum fjölgi með tilheyrandi uppákomum sem enginn sleppur alveg við. Hún mætir aldrinum með jákvæðni að leiðarljósi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn ágúst 15, 2018 12:08