Sigrún Eva Ármannsdóttir söngkona

Það eru liðin 28 ár frá því Sigga Beinteins og Sigrún Eva Ármannsdóttir ásamt Stjórninni stigu á svið í Malmö í Svíþjóð og fluttu lagið ,,Nei eða já“ fyrir milljónir áhorfenda. Þær fluttu lagið á íslensku og komust í sjöunda sæti í úrslitunum. Sigrún Eva var áberandi í tónlistarlífinu fyrstu árin á eftir en hætti að syngja fyrir tíu árum.

Sigrún Eva segist nærri alltaf fylgjast með Söngvakeppninni og þykir gaman að sjá hvað hún hefur lifað vel af. En hvernig var árstíminn, miður mars, árið 1992?

,,Það var mikill spenningur,“svarar hún. ,,Við Sigga og Stjórnin vorum þó rosalega vel æfð, hver hreyfing orðin samofin manni, þannig að maður var ekki hræddur við neitt nema kannski taugarnar. Við fórum svo út viku fyrir keppni, enda var þá bara ein aðalkeppni úti og einungis undankeppni hér heima. Við Sigga æfðum dans og hreyfingar undir dyggri stjórn Helenu Jónsdóttur í nærri 3 mánuði á – minnir mig – hverjum einasta degi. Strákarnir í bandinu komu svo líka í þær æfingar á seinni stigum. Svo var María Ólafs á fullu að finna föt á okkur, hún til dæmis handsaumaði skrautið á kragana hjá okkur. Ragna Fossberg, sá mikli snillingur, sá svo um förðunina og kom með okkur út. Við vorum líka mikið í myndatökum fyrir keppnina, vorum til dæmis sponsaðar af No Name snyrtivörunum og þá oft sminkaðar af Kristínu Stefáns. Hljómsveitar- og söngæfingar voru líka heilmargar. Söngurinn var samt ekkert rosa stressandi en ég man að ég var pínu stressuð yfir að verða kvefuð og lasin á deginum sjálfum. Þetta var því heilmikil vinna, held að fólk átti sig ekki alltaf á því hvað það fer mikill tími og vinna í að æfa fyrir flutning á einu 3ja mínútna  lagi. En þetta var geggjað gaman og ég minnist þessa tíma best fyrir allan hláturinn. Enda ég og Sigga ekki neitt rosa fýlupúkar og allir í bandinu og fylgdarfólk í góðri stemmningu. Með okkur fóru líka Jakob Magnússon og Pétur Kristjánsson heitinn, ekki hægt að leiðast með þá tvo nærri.“

Spurð hvað hún hafi gert í lífinu eftir þessa ferð segist Sigrún Eva hafa gert endalaust margt skemmtilegt og eigi endalaust margt eftir.

,, Í dag starfa ég sem forstöðumaður sviðs samþættinga og ferla hjá Advania og hef verið þar og hjá forverum þess fyrirtækis í 20 ár í ár, lengst af við stjórnun. Ég hætti í raun að syngja fyrir rúmum tíu árum svo ég er í engri æfingu lengur. Söngur er náttúrlega eins og allt annað, æfing. Ég hef þó gripið í míkrófóninn af og til í góðra vina hópi. Ég hef mjög gaman af því að ferðast og svo hjóla ég líka stundum. Það skemmtilegasta er þó að hitta góðra vina hóp yfir góðum mat og ekki verra að fá gott kampavín með.“

 Hvert er eftirlætis lagið þitt úr Eurovision keppnum með íslenskum flytjanda/ og erlendum flytjanda?

,, Verð náttúrlega að segja Abba, þó svo Waterloo sé ekki þeirra besta lag. Einnig hef ég alltaf mætur á laginu Euphoria. Íslenska eftirlætislagið er að sjálfsögðu Nei eða já, enda lifir það ennþá góðu lífi.“

Hvort hún eigi einhver heilræði fyrir þau sem eiga eftir að standa á stóra sviðinu, –   því það hlýtur að vera einstök tilfinning að syngja fyrir milljónir manna, svarar hún:

,,Mesta stressið hjá mér kom upp bara á mínútunum þegar við vorum klár baksviðs og biðum eftir að mega labba inn, ég fékk hnút í magann, það man ég. Þá var ráðið að segja einn góðan brandara sem fór yfir strikið, þá var það komið. Svo það er mitt ráð til þeirra sem eiga eftir að verða í sömu sporum. Miðað við það sem ég sagði áður, að þetta sé miklu meiri vinna en margir halda, þá hljóta það að vera gríðarleg vonbrigði fyrir Daða og Gagnamagnið að nú sé búið að fresta keppninni.

Þau eru komin með söng og hreyfingar alveg í dna-ið, og komin í sigurvímu og svo bara ekkert. Það verður líka minna spennandi að flytja laga sem er yfir ársgamalt og allur byr sem lagið hefur núna gæti verið farinn.

Mér finnst mjög skrítið að Evrópsku sjónvarpsstöðvarnar hafi ekki bara ákveðið að halda keppnina bara á annan máta þetta árið, án fólksflutninga og áhorfenda. Hefði haldið að það hefði verið bara fínt uppbrot.

Hugsa að Rotterdam hefði verið alveg sama, í ljósi þess að oft er talað um hve dýr þessi umgjörð og keppnin sjálf er orðin. En það eru sjálfsagt einhverjar breytur sem ég veit ekki af sem stýra þessari ákvörðun.

Þetta er örugglega mikil vonbrigði fyrir alla keppendur en ég sendi baráttukveðjur til Daða og hans samstarfsfólks.“

Sigrún Eva lifir góðu lífi í dag, er gift góðum manni og á yndislega dóttur sem hún er afar stolt af.

,,Það kemst ekkert nálægt því. Svo á ég endalaust gott fólk í kringum mig og frábæran tengdason.“

En hvað gerir hún í frístundum?

,, Ég hjóla stundum og reyni að stunda reglulega líkamsrækt en get nú samt engan veginn sagt að ræktin sé áhugamál. Einnig finnst mér voða gaman að hjálpa vinum og ættingjum við að mála og koma íbúðum í stand, sem sumum finnst skrítið áhugamál.  Annars kýs ég yfirleitt að ferðast ef ég hef lausan tíma og elska að ferðast til hlýrra landa, lítið fyrir kuldann. Ég er einnig mikið fyrir að hitta fólk yfir góðum mat um helgar svo ég er endalaust ýmist í eða með matarboð.“

Skemmtilegast þykir Sigrúnu Evu þó að ferðast og segist vera mikið í Flórída þar sem þau hjónin eiga litla íbúð með vinum sínum.

,,Þar hjólum við mikið, algert æði að hjóla með fram strandlengjunni.“

Að lokum er Sigrún Eva spurð hvaða væntingar hún hefði til framtíðarinnar og þar stóð ekki á svarinu:

,,Að halda áfram að njóta lífsins með vinum og fjölskyldu og stunda vinnu af kappi því mér finnst gaman að hafa mörgum hnöppum að hneppa.“

Viðtal: Anna Kristine Magnúsdóttir

 

Ritstjórn mars 25, 2020 08:43