Með aldrinum hægir á efnaskiptum hjá flestum, auk þess sem hæfni líkamans til að melta og vinna ýmis næringarefni úr fæðunni minnkar. Vanvirkni í skjaldkirtli eða skjaldvakabrestur er ein orsök hægra efnaskipta en sá kvilli er algengur hjá fólki yfir fimmtugu, sérstaklega konum. Einkennin eru hins vegar oft svo óljós og almenn að erfiðlega gengur að greina vandann og hugsanlega er hann vangreindur.
Talið er að tíunda hver kona á aldrinum 60-80 ára glími við skjaldvakabrest og hlutfallið hækkar með hækkandi aldri. Í flestum tilfellum hafa einkennin verið viðvarandi lengi og þar sem þetta gerist hægt venst fólk oft þreytunni og orkuleysinu sem fylgir og tengir það einhverju öðru. Heimilislæknar eru hins vegar mun meðvitaðri nú en áður um þennan skjúkdóm og skima þess vegna fyrir skjaldkirtilshormónum í blóðprufum leiti til þeirra sjúklingar með einkenni á borð við þreytu og orkuleysi, óútskýrða þyngdaraukningu, liðverki og depurð.
Ójafnvægi í hormónastarfsemi
Hormónið týroxín stjórnar efnaskiptum líkamans og er framleitt í skjaldkirtli. Þau hormón sem stjórna efnaskiptum líkamans sem eru T4 (týroxín) og T3 (þríjoðótýronín), einnig framleiðir skjaldkirtillinn kalsitónín sem tekur þátt í efnaskiptum beina. Stærstur hluti týroxínsins er bundinn próteinum í líkama okkar. Skjaldvakabrestur kemur fram ef skjaldkirtillinn framleiðir of lítið týroxín. Virkni í skjaldkirtli er stjórnað af heildingli, sem er aðal hormónastjórnstöð heilans og hann stjórnar magni skjaldkirtilsörvandi hormóns (TSH) í líkamnum.
Ef framleiðsla á týroxíni minnkar eykst seyting TSH til að örva skjaldkirtilinn og fá hann til að auka framleiðslu týroxíns. Algengasta orsök skjaldvakabrests er sjálfsofnæm, skjaldkirtilsbólga, sem veldur því að hormónaframleiðsla minnkar smám saman. Hjá mörgum mun hækkað magn af mótefninu and-TPO vera fyrsta merki sjúkdómsins.
Á mörkunum
Það er einnig hægt að vera á mörkum þess að þjást af skjaldvakabresti. Venjulega eru þeir sjúklingarnir án einkenna, en einhver þeirra algengust geta komið fram. Meðal lækna er umdeilt hvort ástæða sé til að veita einhvers konar meðferð við slíku eða ekki. Einkennin geta verið væg og margar konur, því þær eru í meirihluta þeirra sem þjást af þessum kvilla, finna fyrir þreytu, sljóleika og þunglyndi og glíma oft við að þær þyngjast þrátt fyrir að passa mataræði og hreyfingu ákaflega vel. En þessi einkenni þurfa ekki að vera vegna skjaldkirtilsvakabrests. Hættan er hins vegar sú að ef mæling á skjaldkirtilshormónum í blóði sýna að menn séu á mörkum þess að þjást af skjaldkirtilsvakabresti og meðhöndlun er hafin getur það leitt til þess að þeir þrói með sér sjúkdóminn en einkennin kunna að hafa stafað af öðru.
Til þess að greina rétt þarf læknirinn því að vera meðvitaður um alla þá þætti sem hafa áhrif á líkamlega og andlega heilsu viðkomandi sjúklings og taka blóðprufur aftur til að meta hvort ástandið sé áfram eins eða hvort það hefur breyst á þeim tíma sem liðinn er frá fyrri blóðprufunni.
Einstaklingsbundnar sveiflur
Magn skjaldkirtilshormóna getur verið mismunandi yfir daginn hjá tilteknum einstakling og frábrugðin frá einstaklingi til einstaklings. Mikil streita á tilteknum tímapunkti í lífi fólks getur kallað fram ákveðna sjálfsofnæmissjúkdóma meðal annars skjaldvakabrest. Ef einstaklingur hefur þegar þróað með sér einhvern sjálfsofnæmissjúkdóm getur það líka verið áhættuþáttur hvað það varðar að fá fleiri slíka. Meðal annars má nefna að gigtarsjúkdómar flokkast undir sjálfsofnæmisskjúkdóma.
Forvarnir gegn slíkum sjúkdómum snúast í grundvallaratriðum um að velja sér heilbrigðan lífsstíl. Hvað mataræði varðar hafa sumar rannsóknir bent til þess að tiltekin glúten geti haft áhrif á efnaskipti líkamans og jafnvel kallað fram breytingar á skjaldkirtilshormónum en enn sem komið er hefur ekki tekist að sanna að svo sé.
Meðferð sniðin að hverjum og einum
Skjaldvakabrestur getur valdið einkennum frá flestum líffærum. Hversu alvarleg einkennin verða fer eftir því hversu lengi sjúkdómurinn varir og hversu hæg efnaskiptin eru orðin. Hjarta- og æðasjúkdómar vegna hækkaðs kólesteróls og blóðþrýstings koma fram. Ómeðhöndluð hæg efnaskipti geta einnig haft áhrif á heilann og vitræna starfsemi. Það getur leitt til lakara minnis og einbeitingar með einkennum sem minna nánast á snemmkomna heilabilun. Sem betur fer er það svo að sum einkennin hverfa með góðri meðferð.
Algengasta meðferð við skjaldvakabresti er að gefa týroxín í töfluformi. Eldra fólk og einstaklingar með hjartasjúkdóma verða að byrja á litlum skammti og auka skammtinn hægt. Konur sem taka týroxín eftir tíðahvörf eru í aukinni hættu á að fá beinþynningu. Því er mikilvægt að leitast við að gefa sem minnstan skammt. Of stór skammtur af týroxíni getur einnig aukið hættuna á kvíða og gáttatifi.
Flestir læknar reyna að finna meðferð sem hentar að hverjum sjúklingi og sníða hana sem mest að þörfum hans. Stundum tekur tíma að finna rétta jafnvægið og þarf að reyna fleiri en eina tegund lyfja. Skjaldkirtilsvakabrestur hefur hins vegar ekki áhrif á lífslíkur fólks og hægt er að lifa góðu lífi með sjúkdómnum svo framarlega sem rétti lyfjaskammturinn finnst.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.