Með því að fresta því að taka ellilífeyrir í fimm ár, frá 67 ára til 72 ára, hækkar hann um sex prósent á ári eða sem nemur 30 prósentum á tímabilinu. Þetta er samkvæmt núgildandi lögum en unnið er að endurskoðun laganna um amannatryggingar.„Ég legg mikla áherslu á að það verði frjálst val fólks hvort það tekur lífeyri um leið og það á rétt á því eða hvort það frestar töku lífeyris og fær hækkun á móti,“ segir Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara.
Taka helming lífeyris
Jóna Valgerður situr í nefnd félagsmálaráðherra um almannatryggingar og er í hópi sem hefur mótað tillögur um hækkun lífeyris. Hún greindi frá tillögunum á ráðstefnu um sveigjanleg starfslok.„Nefndin leggur til að fólk geti frestað töku lífeyris frá Almannatryggingum til allt að 80 ára aldurs gegn hækkun lífeyrirs,“ segir Jóna Valgerður en í dag getur fólk frestað töku lífeyris til 72 ára aldurs.Þá er lagt til að heimilt verði að taka helming þess lífeyris sem er fullur réttur viðkomandi hjá lífeyrirssjóðunum gefur tilefni til, og fresta töku helmings enda hafi hann sótt um og fengið helming ellilífeyris hjá þeim lífeyrissjóði sem hann rétt á.
Rætt um að hækka í 0,6%
Eins og staðan er nú hækka lífeyrisgreiðslurnar um 0,5 prósentustig fyrir hvern mánuð sem fólk frestar því að taka lífeyri. Jóna Valgerður segir að það hafi verið rætt innan nefndarinnar hvort það væri ekki rétt að hækka prósentuhlutföllin í 0.6.
Skiptar skoðanir
Loks er lagt til að atvinnutekjur undir 50 prósent, venjulegra atvinnutekna viðkomandi, skerði ekki lífeyri frá Tryggingastofnun. Enn sem komið er eru þetta einungis tillögur og Jóna Valgerður segir að skiptar skoðanir séu um tillögurnar. Þegar nefndin hefur skilað þeim í endanlegri mynd til ráðherra á hann eftir að taka afstöðu til þeirra.