Á þér eftir að leiðast þegar þú hættir að vinna?

Þó meirihluti fólks sé spenntur að hætta starfi á vinnumarkaði þegar aldurinn færist yfiri og hlakki hreinlega til, eru ekki allir þannig stemmdir. Sumir kvíða fyrir. Á vef Bandrísku eftirlaunasamtakanna er fjallað um þetta í grein sem er hér lauslega þýdd og verulega stytt,  og rætt við fólk sem er að fara á eftirlaun og sérfræðinga sem þekkja þessi mál vel. Þá er einnig sagt frá könnunum sem sýna afstöðu fólks til starfslokanna.  Þær sýna meðal annars að 20% fólks sem er að fara á eftirlaun, hefur áhyggjur af því hvað það eigi að taka sér fyrir hendur þegar það er hætt að vinna og hvernig það eigi að fylgjast með. Fjórðungur óttast að einangrast og verða aleinn. Um helmingur fólks tengdi það  frelsi og gleði, að hætta að vinna á meðan 16% höfðu áhyggjur af að þeim ætti eftir að leiðast þegar þau hættu að vinna. 11% óttuðust að þau myndu einangrast.

Þá er í greininin fjallað um Susan, sjötuga konu sem er að fara á eftirlaun eftir að hafa unnið sem fjölmiðlafulltrúi hjá opinberri stofunun í áraraðir og Fred, sem er að hætta starfi sem skólasálfræðingur rétt rúmlega sextugur.  Hvorugt þeirra langaði til að hætta að vinna, satt að segja fundu bæði fyrir ótta þegar starfslokin nálguðust. Fred var til að mynda lengi að hafa sig í að senda inn uppsagnarbréfið.

Sálfræðiprófessorinn Louis Primavera, segir að starfið setji fólki ramma og skapi rútínu í lífinu. Menn skipuleggi sig með hliðsjón af vinnunni og starfið sé hluti af því hver við erum. „Við förum á mannamót og fólk spyr hvað við gerum. Sumir vita ekki hvað þeir eiga að segja, eða hverjir þeir eru, þegar starfið er horfið. Að missa sjálfsmyndina getur valdið miklum ótta“, segir hann.

Susan hafði unnið sem blaðamaður áður en hún réði sig sem upplýsingafulltrúa hjá því opinbera og segist hafa kviðið fyrir deginum þegar starfslokin urðu að veruleika. „Tilfinningar mínar voru afar blendnar. Þakkargjörðarhelgin var ákveðin áminning. Þriggja daga frí þegar þú ert hætt að vinna er alls ekki það sama og þriggja daga frí þegar þú ert í fullu starfi“.

Nýlegar skoðanakannanir vestra sýna að um 16% fóks sem er komið á eftirlaun vill gjarnan fara aftur að vinna. Helsta ástæðan fyrir því er að fólki leiðist.  Annar sálfræðingur sem talað er við í greininni segir að það skipti miklu máli í þessu sambandi, hversu sterkt fólk upplifi starfið sem hluta af sjálfu sér. „Það skiptir miklu fyrir velheppnuð starfslok. Þeim  sem starfið skiptir öllu máli finnst mikilvægt að vinna sem lengst. Fólk segist ekki hafa höndlað starfslokin og fer aftur að vinna og vinna getur líka verið hluti af lífinu á efri árum“, bætir hann við.

Seint og um síðir fór Fred að undirbúa starfslokin. Hann fór að velta fyrir sér hvort hann ætti að sækja um hlutastarf í annarri grein en í menntageiranum. „Mig langaði alltaf að verða leiðsögumaður“, segir hann og sér líka fram á að geta nú sinnt aldraðri móður sinni og tengdamóður meira, en konan hans er enn í fullu starfi. Gömlu konurnar eru báðar komnar yfir nírætt.

Susan er líka með alls kyns plön um eftirlaunalífið. Hún er til dæmis með hugmyndir um að taka að sér free-lance störf við ræðuskrif  og langar að snúa sér að skapandi skrifum. Hana langar líka í nám í trúarbragðafræði. Hún segist alltaf hafa haft áhuga á trúmálum og vill halda heilanum virkum. „Ég sá alltaf fyrir mér að gera það í gegnum nám“, segir hún.

Susan er búin að innrétta vinnuherbergi heima hjá sér, en hún eins og svo margir aðrir vandist því í Covid faraldrinum að vinna heima og er bara nokkuð bjartsýn á að henni muni takast að skapa sér nýja og áhugverða tilveru í næsta kafla lífsins.

 

Ritstjórn ágúst 1, 2023 07:00