Boðar breytingar á vasapeningafyrirkomulaginu

Eygló Harðardóttir Félags- og húsnæðismálaráðherra

Eygló Harðardóttir, ráðherra, tvöfaldar framlög til LEB, úr fimm milljónum í tíu.

Ef hugmyndir félagsmálaráðherra verða að veruleika fá aldraðir á hjúkrunarheimilum meira sjálfræði um eigin fjármál í framtíðinni. Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Eyglóar Harðardóttur, félagsmálaráðherra á landsfundi, Landssambands eldri borgara.„Eitt er það málefni sem reglulega kemur til umræðu en það eru greiðslur fólks fyrir búsetu á hjúkrunarheimilum og svokallað vasapeningafyrirkomulag. Nú hefur um skeið verið unnið að tillögum í ráðuneytinu sem miða að því að breyta þessu þannig að aldraðir njóti meira sjálfræðis,“ sagði ráðherrann í ræðu sinni.

Tvíþætt greiðslufyrirkomulag

Breytingarnar sem Eygló boðar felast í því að fólk greiði milliliðalaust fyrir alla þjónustu sem það fær á hjúkrunarheimilum, aðra en heilbrigðisþjónustu og umönnun.„Greiðslufyrirkomulagið yrði þannig tvíþætt, þar sem annars vegar væru daggjöld ríkisins vegna heilbrigðisþjónustu og umönnunar en einstaklingarnir myndu greiða fyrir almenna framfærslu að öðru leyti. Að auki er svo gert ráð fyrir húsaleigukostnaði sem tæki mið af stærð og gæðum húsnæðisins en einnig af tekju- og eignastöðu viðkomandi,“ sagði Eygó og sagðist hún binda vonir við að hægt yrði að taka upp breytt kerfi innan skamms.

 Pétursnefndin leggur til minni skerðingar

Pétur Blöndal, stýrir nefnd sem á að breyta lögum um almannatryggingar.

Pétur Blöndal, stýrir nefnd sem á að leggja til  breytingar á  lögum um almannatryggingar.

Síðustu misseri hefur nefnd sem Pétur Blöndal alþingismaður stýrir verið að endurskoða lög um almannatryggingar. Nefndin ætlaði að vera búin að skila af sér fyrir nokkrum mánuðum en það hefur dregist. Eygló sagði í ræðu sinni að markmiðið væri að einfalda regluverk almannatrygginga svo fólk skilji réttindi sín, sem það gerði ekki í dag. „Bætur almannatrygginga hafa margs konar frítekjumörk sem auka flækjustig kerfisins. Í nefndinni er rætt um að öll slík frítekjumörk verði aflögð í því skyni að einfalda regluverkið. Hugsunin er sú að almannatryggingar greiði einn lífeyri til ellilífeyrisþega í stað grunnlífeyris, tekjutryggingar og framfærsluuppbótar. Þessi lífeyrir lækki síðan um 45% af samanlögðum tekjum viðkomandi.“

Uppbótin myndi skerðast um 45 prósent

Eygló sagði að framfærsluuppbót almannatrygginga sem tekin var upp 2008 hafi átt að koma  til móts við þá sem hafa mjög lágar eða engar tekjur aðrar en bætur almanntrygginga. „Hún hefur aftur á móti þann mikla ókost í för með sér að hún skerðist um krónu á móti hverri krónu sem einstaklingurinn hefur í tekjur. Með breytingunni myndi uppbótin aðeins skerðast um 45% tekna og krónu á móti krónu skerðingin væri afnumin,“ sagði ráðherrann.

Tvöfaldar framlög til LEB

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, fráfarandi  formaður Landssambands eldri borgara.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, fráfarandi formaður Landssambands eldri borgara.

Þá sagði Eygló að samstarf milli  LEB og ráðuneytis hennar hefði aukist síðustu misseri. Þetta hefði orðið tilefni til að endurskoða og hækka framlög ráðuneytisins til LEB, úr fimm milljónum í tíu milljónir. „Ég met mikils gott samstarf við Landssamband eldri borgara og efast ekki um að með samvinnu getum við komið góðum málum til leiðar. Um leið vil ég líka nota þetta tækifæri til að þakka Jónu Valgerði Kristjánsdóttur, formanni landssambandsins sérstaklega fyrir samstarfið sem hefur verið einkar ánægjulegt.“

 

 

 

 

Ritstjórn maí 5, 2015 16:45